Tímarit Máls og menningar - 01.02.2006, Síða 103
matur vex á trjánum
og í kjallaranum vín til hundrað ára
sér vart högg á þótt ég komi í heimsókn
Bókmenntir
og rati ekki burt;
á eldhúsvegg er fornljóð
um ánægjuna núna, alltaf
og trén slá hring um innihald
Ijóðsins, gleði skáldsins
þéttan hring svo lifandi
lifandi grænan, getur verið
að dauðinn sé tóm steypa úr þeim í borginni?
Hérna hefur merkingarheimur (eða kannski merkingarleysisheimur) skáldsins
algerlega snúist við. Hann sem er vanur að dvelja í hverfulleikanum þar sem
lífið er tæplega til, hrífst svo með fólki í augnablikinu að allt i einu virðist dauð-
inn sem hann er alltaf að þrá af ást og einlægni vera tilbúningurinn. Samt er
hann að dingla fætinum í tóminu, því með því að minnast á dauðann í lokin,
er hann að minna okkur á að hann mun aldrei gleyma sér fyllilega með
okkur.
Hvar endar maður?
Við höfum séð að Jónas er upptekinn af því hvort sjálfið sé nægilega veigamik-
ið til að mark sé á því takandi, og hvar það endar ef svo er. í hvar endar maður?
er Jónas frekar að spá í það hvar vitundin endar, hvar maður endar sem ein-
staklingur („Hreiður"), hvar mörkin milli einstaklinga liggja („Þú sem ég
mæti“, „Grótta“, „Mannlegur misskilningur"), hvar mörkin milli manns og
dýrs liggja („Mannlegur misskilningur“), hvar mörkin milli skynjunar og
heimsins liggja („Gluggasæti", „Maður og annað“), en að hann sé að spá í hvar
maður endar eftir að maður deyr. f ljóðinu „Skógarveisla“ í umræddri bók
endar hann á að segja: „Lífið er ekki ég / ekki þú / heldur við“. Þar er hann kom-
inn alveg til baka til mannanna, eitt augnablik, og viðurkennir að við getum
strangt til tekið ekki fyllilega greint okkur merkingarlega hvert frá öðru.
Þetta verður forvitnilegt þegar hann í seinasta hluta bókarinnar segir frá
æskuvini sínum Kristjáni, sem tók líf sitt. Það vottar ekki fyrir reiði út í hinn
fallna vin, Jónas skilur hann eiginlega best af öllu því fólki sem hann lýsir í
bókum sínum. Það eru bara örlítil skil á mill Jónasar og Kristjáns, og þau
tengjast því sem hann unir sér við, ljóðunum. Seinasta ljóðið í hvar endar
maður? heitir „Þráður“:
Lífið eftir skáldlegu árin
barnsárin er spurning
því annars hefði Kristján
ekki svarað þeirri spurningu neitandi
TMM 2006 • 1
101