Heimsmynd - 01.10.1987, Blaðsíða 85
TRUBADUR!
beraði samkynhneigð mína. Ég gat ekki
gengið óáreittur úti á götu.“
Þetta var fyrir meira en áratug og marg-
ir eru sammála um það nú að miklar
breytingar hafi orðið á almennum við-
horfum fólks síðan þá. Tónlistarmaðurinn
Hörður Torfason segist ekki hafa látið
erfiðleikana kafsigla sig, þá erfiðleika sem
fylgdu í kjölfar opinberunar hans á sam-
kynhneigð sinni. Nýja platan hans sem
hann kallar Hugflœði ber vott um bjart-
sýni eða eins og hann orðar það sjálfur;
„boðskapurinn er birta, gleði og ást.“ A
plötunni eru tólf lög og textar eftir hann
sjálfan.
„Ég er ekki að fást við það sem ég kalla
keypta gleði, heldur gleðina sem fólgin er
í því að vera til. Þessa rólegu gleði. Þetta
eru róleg lög en ég legg mikið upp úr text-
um og kímni. Að eðlisfari er ég sjálfur ró-
legur og jákvæður. Þótt ég líti alls ekki á
mig sem prédikara er ég samt að reyna að
túlka lífsviðhorf mitt á þessari plötu. Mér
finnst svo gott að vera til og finn svo sterkt
fyrir tilverunni. Kannski væri ég ekki eins
sáttur við sjálfan mig ef ég hefði ekki
þessa reynslu að baki. Líf mitt hefur verið
sveiflukennt þótt það sé orðið stöðugra
nú. Ég á af þeim sökum auðvelt með að
setja mig inn í ýmiskonar tilfinninga-
ástand sem er undirstaða þess að vera
trúbadúr. Ég velti öðru fólki mikið fyrir
mér, hlusta vel á það og pæli í skoðunum
þess. Manneskjurnar eru yfirleitt að reyna
að skapa sér ákveðna ímynd en eru þrátt
fyrir allt svo ótrúlega líkar. Alheimshjart-
að slær nefnilega í okkur öllum. Og það
dreymir alla um jafnvægi í tilverunni, and-
legt jafnvægi. En slíkt jafnvægi næst ekki
áreynslulaust. Línudansarinn virðist til
dæmis mjög öruggur þegar hann fetar sig
eftir línunni en jafnvægið sem hann hefur
náð er árangur mikillar vinnu og erfiðis.
Hann hefur æft sig í mörg ár, oft hrasað en
alltaf staðið upp aftur. Það þýðir ekkert
að gefast upp þótt maður hrasi.“
Hörður hóf gerð plötu sinnar í ársbyrj-
un og lauk við hljóðblöndunina í ágúst.
Hann spilar á gítar en notar auk þess fleiri
hljóðfæri. Hann vinnur með dönskum
upptökumanni Peter Juul, sem hann
kynntist þegar hann var að vinna að gerð
plötunnar Tabú árið 1983. „Peter Juul er
einn fremsti hljóðupptökumaður Dana á
sviði sígildrar tónlistar. Hann heillaðist af
því sem ég var að gera og upp frá því hófst
samstarf okkar. Þessi maður hefur reynst
mér stórkostlega og hann hefur líka tekið
mig algerlega í gegn. Hann hefur leiðbeint
mér við að nota rödd mína og gítarinn bet-
ur. Hann er fyrsti alvöru gagnrýnandinn
minn, en ég hafði aldrei kynnst slíkri
gagnrýni hér heima. Það er nauðsynlegt
að fá gagnrýni, bæði tæknilega og hvað
varðar innihald þess sem maður er að
gera. Það er ekkert grín að kosta milljón
krónum í gerð einnar hljómplötu."
Þegar Hörður kom fram opinberlega
árið 1974 og sagði frá gagnkynhneigð sinni
var hann þegar orðinn þekktur sem tón-
listarmaður. Hann hafði fram að þeim
tíma notið vinsælda og verið eftirsóttur.
Upp frá þessu beið hans hins vegar at-
vinnuleysi og fæstir vildu hafa nokkuð
saman við hann að sælda, eins og hann lýs-
ir því. Síðan hefur hann búið og starfað í
Danmörku. „Fólki brá hér heima þegar
ég sagði frá því að ég væri hommi. Menn
urðu óöruggir gagnvart mér. Mér hafði
verið kennt að vera trúr sjálfum mér og að
ljúga ekki, svíkja né stela. Mér fannst það
heiðarlegt af mér á sínum tíma að vera
samkvæmur sjálfum mér þótt fólk hafi
ekki kunnað að meta það. Ég hafði verið
vinsæll sem listamaður en varð nú allt í
einu ekkert annað en kynvera. Þetta
þekkja konur. Ég sé ekki eftir þessari
reynslu, sérstaklega ekki þegar ég lít nú til
baka og sé þá viðhorfsbreytingu sem átt
hefur sér stað. Ég var aðal driffjöðurin í
stofnun Samtakanna 78 og er stoltur af
því. Núorðið er ég ákaflega sáttur við
sjálfan mig og mínar tilfinningar. Ég get
ekki verið neitt annað en ég er.“
Nema bjartsýnn!
HFIMSMYMn sc;