Ársrit um starfsendurhæfingu - 2013, Blaðsíða 27
27www.virk.is
VIÐTAL
Um leið og ég fékk greiningu létti mér mjög.
Ég áttaði mig á að ég þyrfti að vinna mig út
úr þessu, sérstaklega huglægt. Iðjuþjálfinn
sem sinnti mér á Akureyri benti mér á
VIRK og hafði samband við ráðgjafa sem
starfar á vegum VIRK á Vestfjörðum.
Fyrsti fundurinn með Fanneyju Pálsdóttur,
ráðgjafa VIRK, er mér mjög minnisstæður.
Ég var þá nýkomin heim frá Akureyri um
páska 2011. Minn helsti ótti var hvaða leið
ég ætti að fara til þess að komast á fund
Fanneyjar. Ég man að ég lagði bílnum í
aðalgötunni og komst inn á skrifstofuna en
þar var ég sem lömuð af ótta við að fara
aftur út í bílinn eftir viðtalið. Þá fór Fanney
út og færði bílinn aftur fyrir húsið, þannig
kom hún strax til móts við mig og sýndi
mér í verki að ég væri örugg hjá henni.
Ég fann í veikindunum að ég ól innra með
mér skömm og fordóma gagnvart eigin
ástandi, sem ég hafði ekki vitað að ég hýsti.
Hið sorglega er að ég hefði sýnt öðru fólki
í þessari aðstöðu samúð, en var ekki fær
um að sýna sjálfri mér slíka samúð á þeim
tíma. Ég varð hissa á þessum tilfinningum
mínum. Ég fann að ég hefði fremur skilið
ástand mitt ef ég hefði þurft að fara í
vímuefnameðferð, sem ég hef aldrei haft
þörf fyrir, heldur en þetta andlega hrun
sem ég stóð þarna andspænis. Nú segi ég
gjarnan að ég hafi verið heppin að brotna
niður andlega fremur en að þurfa að
glíma við vandamál eins og fíkn eða aðra
sjúkdóma. Ég veit að sumir í umhverfinu
skildu ekki hve illa var komið fyrir mér þar
sem það sást ekki endilega utan á mér;
ég átti margar grímur til að setja upp, en
auðvitað vissu fjölskylda mín og nánir vinir
hve illa mér leið og hve erfitt ég átti með að
sýna mig utandyra, hve óttaslegin ég var
í raun.
Það getur verið slæmt að vera í litlu
samfélagi, en líka afskaplega gott. Þegar
ég kom heim frá Akureyri var skömmin
ennþá sterk innra með mér en strax á
flugvellinum kom fólk til mín sem vissi um
erfiðleika mína og faðmaði mig að sér og
sagði við mig falleg orð. Þannig var þetta
fyrst eftir áfallið, hvar sem ég kom. Það er
ástæðan fyrir því að ég ákvað að fela ekki
mitt andlega hrun og að ég vil segja sögu
mína hér.“
Hvernig aðstoðaði ráðgjafi
VIRK þig?
„Það sem er svo frábært við VIRK er að þar
eru fundin úrræði. Ráðgjafinn gerir ekki
hlutina fyrir mann heldur hjálpar manni,
hringir fyrir mann ef þess þarf í byrjun og
hvetur mann áfram. Mín dýrmætasta lexía
í VIRK var að þó sett væri upp plan var það
sveigjanlegt og ég mátti skipta um skoðun,
segja að ég treysti mér ekki í vissa hluti þó
ég hefði ætlað að framkvæma þá. Í mínu
tilviki þurfti ég að hægja á, ég vildi svo
endilega láta mér batna sem fyrst.
Við Fanney, ráðgjafinn minn, hittumst
reglulega. Ég átti að fara til sálfræðings en
þegar því seinkaði og Fanney fann hve ég
var lítil í mér fjölgaði hún fundum okkar,
sem hjálpaði mér mikið, þetta er mjög
einstaklingsbundin ráðgjöf. Fólk verður að
átta sig á að eftir svona andlegt niðurbrot
eru fyrstu skrefin til bata ekki stór, bara
það að fara ein út í búð er talsvert verkefni.
Þar kemur VIRK inn í með raunhæft plan
sem maður reynir að fara eftir. Hefði
einhver sagt mér þegar ég byrjaði að hitta
Fanneyju á hvaða stað ég yrði nú, þetta
löngu seinna, þá hefði ég ekki trúað því.
Planið gekk m.a. út á að fara í hugræna
atferlismeðferð, fara í ræktina, fara í skóla
– sem reyndist of mikið – hvíla mig vel og
endurþjálfa mig í samskiptum við fólk. Ég
hitti auðvitað fólk og brosti, en ótti bjó á
bak við brosið og ég var með hræðilegan
hjartslátt. Batinn liggur í þessum litlu
skrefum. Hér á Ísafirði er brekka sem
heitir Urðarvegsbrekka – við Fanney
sögðum í gamni að áður hefði ég alltaf
verið að klifra upp á Mount Everest, en
síðasta ár hefði ég verið að þoka mér upp
Urðarvegsbrekkuna.
Nú er ég komin upp þessa brekku og farin
að vinna. Ég byrjaði að starfa á skrifstofu
tvo tíma á dag og hafði þar bæði stuðning
frá VIRK og góðan skilning og stuðning
vinnuveitanda. Vitneskjan um þetta tvennt
nægði til þess að ég upplifði ekki ótta. Ég
hafði líka fullan stuðning fjölskyldu minnar
og vina og það hafði líka mikið að segja.
Það sem er svo gott við starfið hjá VIRK er
að það gefur manni svigrúm til að taka tvö
skref áfram og eitt aftur á bak ef þess gerist
þörf, maður má bara ekki gefast upp. Nú er
ég komin í fullt starf í bókaverslun, í vinnu
eins og ég hafði áður sinnt og gefur mér
sömu gleði nú og þá – ef ekki meiri. Ég hitti
fjölda fólks dag hvern og er ekki hrædd. Ég
vakna alltaf glöð og nýti mér þær aðferðir
sem mér hafa verið kenndar hjá VIRK og
í HAM [hugrænni atferlismeðferð, innsk.
Blm). Andlegt niðurbrot eins og ég lenti
í verður vegna samspils margra þátta og
getur hent hvern sem er, þó mörkin í slíku
séu einstaklingsbundin. En hendi mann
andlegt hrun er lífsgjöf að fá slíka hjálp
sem VIRK hefur veitt mér.“
„Ég fann í veikindunum
að ég ól innra með mér
skömm og fordóma
gagnvart eigin ástandi,
sem ég hafði ekki vitað
að ég hýsti. Hið sorg-
lega er að ég hefði
sýnt öðru fólki í þessari
aðstöðu samúð, en var
ekki fær um að sýna
sjálfri mér slíka samúð
á þeim tíma.“