Ársrit um starfsendurhæfingu - 2013, Blaðsíða 33
33www.virk.is
VIÐTAL
fólk, sem sagt fólk á besta aldri sem hefur
mikla möguleika á að ná fyrri færni og
heilsu. Stundum er einhver slysasaga að
baki, en það þarf ekki að vera aðalástæða
þess að viðkomandi hafi farið út af
vinnumarkaði. Miklu frekar er eins og
smám saman hafi hlaðist upp vandamál.
Afleiðingin getur hafa verið að annað hvort
hafi fólk þurft að segja upp vinnu eða
verið sagt upp. Hefur þá kannski staðið
höllum fæti fyrir, svo kemur niðurskurður
og í kjölfar þess dettur það út.“
Ert þú í sambandi við ráðgjafa
VIRK eftir að hafa vísað á þjónustu
þangað?
„Já, ég heyri frá ráðgjöfum í hverju einasta
tilviki. Ég hitti viðkomandi sjúklinga hér
á stofunni, kannski út af einhverju öðru,
og þá fer ég gjarnan yfir hver staðan er.
Í framhaldi af því er ég svo í samráði við
ráðgjafann til að veita frekari upplýsingar.
Þetta fer fram ýmist í formi símtala eða
skriflegra skilaboða. Svo er boðið upp á
svokallaðan útskriftarfund, sem fer fram
eftir að þverfaglegu og heildrænu mati á
færni viðkomandi lýkur, þannig að ég heyri
alltaf hver lokaniðurstaðan verður og er því
í töluverðu sambandi við VIRK. Ég fer ekki
dult með að mér finnst árangur þessarar
nálgunar stundum ganga kraftaverki
næst.
Þess ber þó að geta að þegar fólk kemur
til mín og er í framhaldinu viljugt til að leita
til VIRK að það er þá tilbúið til að gera
eitthvað í sínum málum. Í slíkum tilfellum
eru úrræði eins og VIRK svarið; markviss
teymisvinna.
Gefur þú sjúklingum þínum lyf á
meðan á þessu ferli stendur?
„Ég meðhöndla fólk hér hjá mér. Það
getur ýmist verið í formi lyfjagjafar eða
stuðningsviðtala, en það geta líka verið
önnur úrræði. Í því sambandi má nefna
úrræði eins og námsþjálfun hjá Hringsjá,
sjúkraþjálfun sem og jafn einfaldan hlut
og leiðbeiningar um góðan lífsstíl, svo sem
hreyfingu og slökun, áður en ég bendi á
VIRK. Einnig geta verið til umræðu milli
heimilislæknis og sjúklings úrræði sem
beinast að öðrum fjölskyldumeðlimum.
Málefni einstaklinga geta verið bæði
fjölþætt og flókin.
Ég hef áður sagt að mér finnist á stundum
VIRK gera kraftaverk, en þjónustan þar
felur líka í sér mjög margbreytileg úrræði.
Líta þarf til margra átta til að auðvelda
einstaklingi, sem oft er afar illa fyrir komið,
að verða virkari í lífinu. Líkja má þessu ferli
við snjóbolta; eitthvað gerist og svo hleður
það stöðugt utan á sig. Ef fólk kemur
snemma er auðveldara að grípa inn í
þessa þróun. En ef fólk bíður, segjum í tvö
ár, er orðið miklu erfiðara um vik en var í
upphafi.
Samstarfið við ráðgjafana hjá VIRK hefur
verið mjög gott. Fullur trúnaður ríkir
milli allra aðila um þjónustuna og ég
hef ekki orðið var við annað en að fullt
traust ríki á milli sjúklingsins, ráðgjafa
VIRK og læknisins um það sem fram
fer. Iðulega hafa sjúklingar komið til mín
mörgum sinnum og ég hef meðhöndlað
þá áður en þeir eru í standi til að fara í
starfsendurhæfingu hjá VIRK – áður en
einstaklingurinn segir: „Ég er tilbúinn til
að láta reyna á þetta“. Skapast þarf traust
milli mín og skjólstæðingsins áður en til
þess kemur að ég vísi honum áfram á slíka
þjónustu. Ég bendi fólki því ekki á VIRK
fyrr en það er hæft að eigin mati og mínu,
til að njóta þeirrar þjónustu sem þar er í
boði. Töluverðan tíma tekur oft að átta sig
á kringumstæðum fólks. Oft er það búið að
vinna töluvert í sínum málum áður en það
kemur til VIRK og að þeirri þjónustu sem
þar fer fram koma margir aðilar. Yfirleitt
eru ráðgjafar ekki með úrræði, heldur kalla
þeir til fagaðila til samstarfs. En læknirinn
hefur líka úrræði og þau geta verið mjög
breið, læknirinn getur og unnið samhliða
öðrum úrræðum sem ráðgjafar beita.“
Ungt fólk dettur úr vinnu
Finnst þér sem heimilislækni að
vandræði fólks séu meiri nú en var
fyrir hið margumtalaða bankahrun?
„Það eru fleiri án atvinnu, við vitum það. En
burtséð frá því held ég að sú þróun hafi verið
vaxandi að fólk detti út af vinnumarkaði.
Því valda m.a. stoðkerfisvandamál. Ég tel
að þessi þróun hafi verið að vinda upp á
sig síðastliðna áratugi. Í því sambandi ber
að taka tillit til þess að atvinnuþátttaka er
mun meiri en hún var og meðal breiðari
hóps, bæði hvað snertir aldur og atgervi,
og þetta held ég að sé hluti af skýringunni.
En ég ég líka viss um að streita spilar þarna
töluvert inn í – fólk er með heimili, börn,
fjárhagsáhyggjur. Ég tel að nútímavæðing
samfélagsins stuðli að þessari þróun, sem
ágerist þrátt fyrir að vinnutími hafi styst
og aðstæður á vinnustöðum séu betri.
Ástæðurnar virðast liggja alveg eins utan
vinnustaðar. Líklegt er að þarna sé um að
ræða flókið samfélagslegt ferli.“
Er starfsendurhæfingarúrræði á
borð við VIRK svarið?
„Ég er ekki í nokkrum vafa um að sam-
spil grunnheilbrigðisþjónustu og aðila
utan heilbrigðisþjónustunnar; VIRK og
annarra aðila í samfélaginu, svo sem
grasrótarsamtaka, góðgerðarsamtaka og
áhugamannasamtaka, sé til mikilla bóta.
Að sú leið að menn taki höndum saman
sé það sem koma skuli. VIRK er lýsandi
dæmi um hvernig slíkt getur lukkast vel.
Þar fer fram starfsendurhæfing, – en svo
höfum við aðra endurhæfingu og hæfingu
þar sem viðkomandi hefur skort færni frá
fyrstu tíð. Þetta er að mínu mati framtíðin í
heilbrigðisþjónustunni.“
Bendirðu frekar yngra fólki en
eldra á VIRK sem úrræði?
„Nei, en ég sé bara yngra fólk miklu
fremur í þessum sporum. Ég er að tala um
aldurinn frá 25 ára til fertugs, það er fólkið
sem ég helst sé með þessi vandamál.
Verið getur, án þess að ég þori að fullyrða
það, að fólk sem orðið er eldra sé þá
löngu komið út af vinnumarkaði vegna
vandamála sinna. Sem sagt, aldurinn
25–40 ára er sá tími sem sker úr um hvort
fólk helst á vinnumarkaði eða ekki. Grípa
þarf sem allra fyrst inn í svona ferli. Þeir
sem detta út af vinnumarkaðinum enda
ósjaldan á örorku, sem er engin óskastaða
fyrir nokkurn mann. Ég held að VIRK sé
að koma mjög sterkt inn sem aðili til að
hafa veruleg áhrif gegn þeirri þróun og
ég fagna komu þeirrar starfsemi inn á
þetta svið. Ég byggi skoðun mína ekki á
rannsóknarniðurstöðum, sem þó væri
ástæða til að gera – en mér kæmi ekki á
óvart að sú starfsemi sem VIRK rekur sé
mjög þjóðhagslega hagkvæm.“