Saga - 2017, Blaðsíða 121
Þeim gripum sem safnast höfðu að Minjasafninu eftir stofnun þess
var komið fyrir á Skriðuklaustri árið 1945 og voru settir þar upp í
einu herbergi í Gunnarshúsi til sýnis fyrir almenning. Þar voru þeir
næstu árin.12 Þannig var nú það. Gunnar Gunnarsson skáld lánaði
Minjasafninu eitt herbergi í húsi sínu á Skriðuklaustri en ljóst er að
það fyrirkomulag átti að vera tímabundin redding, eða þar til
„viðunandi bygging verður reist fyrir það á Hallormsstað á því
landi, sem safnið hefur fengið til umráða hjá Skógrækt ríkisins“, eins
og Ragnar Ásgeirsson garðyrkjuráðunautur orðaði það árið 1947 og
bætti við að á Hallormsstað skyldi framtíðarstaður minjasafnsins
vera. Ragnar þekkti vel til mála Minjasafns Austurlands enda átti
hann aðalheiðurinn af tilurð upphaflegs safnkosts þess.13 Söfnun
muna á Minjasafn Austurlands fylgdi frá upphafi þeirri stefnu sem
mörkuð var í þjóðminjalögum árið 1947 um hlutverk byggðasafna,
þ.e., eins og segir þar í 3. grein, að lögð skyldi sérstök áhersla á að
afla safninu gripa og annars þess er þar á að vera og talið er sér-
kennilegt fyrir hlutaðeigandi hérað eða landsfjórðung en er að
hverfa.14 Þetta ákvæði stóð áfram í endurskoðuðum lögum frá 1969.
En þar sagði, í 5. kafla, 40. gr., um byggðasöfn að hlutverk þeirra
væri að safna þjóðlegum munum, varðveita þá og hafa til sýnis
almenningi. Einkum bæri að safna munum sem hefðu listrænt gildi
eða notagildi í daglegu lífi þjóðarinnar en væru að víkja eða hverfa
úr sögunni vegna breyttra þjóðhátta. Sérstaklega bar hverju safni að
leggja áherslu á öflun muna sem telja mátti sérkennilega fyrir
hlutaðeigandi hérað eða landsfjórðung en voru að verða fágætir.15
Minjasafn Austurlands hafði þannig lögbundið hlutverk sem al -
mennt byggðasafn en hinar erfiðu húsnæðisaðstæður áttu eftir að
gera því mjög erfitt fyrir að rækja það hlutverk.
gjöf skáldsins og húsnæðisvandi … 119
12 Ársskýrsla Minjasafns Austurlands (Egilsstaðir: Minjasafn Austurlands 1995), bls.
4, 10.
13 Ragnar Ásgeirsson, „Garðyrkjuráðunauturinn. Árið 1945“, Búnaðarrit 60:1
(1947), bls. 51. Upphafið að safnkosti Minjasafns Austurlands varð til ekki hvað
síst vegna söfnunar Ragnars Ásgeirssonar ráðunautar hjá Búnaðar samband -
inu, sem safnaði allmörgum gripum á ferðum sínum um Austurland. Áherslan
lá á söfnun muna frá 19. öld og fyrri hluta 20. aldar. Hjörleifur Gutt ormsson,
„Þjóðminjavernd á Austurlandi“, Þjóðminjasýning SAL 1976. 19. júní – 8. ágúst
í skólanum á Egilsstöðum, Egilsstöðum 1976 (án blaðsíðutals).
14 Stjórnartíðindi 1947 A, (l. nr. 8/1947), bls. 7.
15 Stjórnartíðindi 1969 A, (l. nr. 52/1969), bls. 273.
Saga vor 2017.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 18.5.2017 11:01 Page 119