Strandapósturinn - 01.06.2021, Page 67
66
og smáum þorski. Hvað hákarlinn varðar þá var það hákarlslifrin og síðan
lýsið úr henni sem skapaði verðmætið. Í þessu sambandi má geta þess, til
gamans, að talað var um tunnu eða tveggja tunnu hákarla. Var þá átt við
að lifrin úr einum hákarli fyllti eina tunnu [120 lítra] eða tvær eftir stærð
hákarlanna. Talið var að úr 1 ½ tunnu af lifur fengist 1 tunna af lýsi. Vissu-
lega veiddust líka minni hákarlar. Þeir voru kallaðir doggar. Hákarlalýsið
var á þessum tíma eftirsótt og í háu verði og notað til að lýsa upp stór-
borgir Vestur-Evrópu. Það vekur óneitanlega undrun að Sigurósk var ekki
gerð út nema frá vori til hausts eða á besta tíma ársins, en hákarlavertíðin
á opnu hákarlaskipunum var talin vera frá þorrabyrjun og til sumarmála.16
Hvað áhöfnina áhrærir er það næstum óhugsandi að ekki hafi verið
nema þrír menn á skipinu, það er þeir sem undir dagbókina skrifa. Rétt
er að staðfesta það hér, sem fyrr er sagt að ekki hefir fundist stafkrókur
fyrir því, í heimildunum, að fleiri hafi verið, enda var eigendunum stakkur
skorinn í þeim efnum samanber bréf amtmannsins hér að framan.
Niðurlag
Eftir að skipinu var siglt úr vetrarlegu á Reykjarfirði í Strandasýslu vorið
1834 kom það ekki í höfn í Árneshreppi svo vitað sé. Í mælibréfi skipsins
sem dagsett er 6. september 1834 er sagt að heimahöfn þess sé Ísafjörður.
Um haustið 1835 eða veturinn 1836 var Sigurósk færð úr vetrarlegu á
Ísafirði til Önundarfjarðar og gert út þaðan þar til dagbókinni lýkur.
Eins og fram er komið endar dagbók Siguróskar þann 1. júlí 1837 og
er þá skipinu siglt til Önundarfjarðar með skipstjórann, Magnús Einars-
son, veikan, aflanum landað þar, veiðum hætt og skipinu lagt í vetrarlegu
þar. Þá er þess að geta að í Búnaðarskýrslu Árneshrepps sem dagsett er
7. október 1837 er Grímur Alexíusson skráður eigandi að ½ fiskijakt. Ekki
er getið um nafn hennar, en ekki er vafi á að hér er um Sigurósk að ræða.
Þrjóta hér skjallegar heimildir um eignarhald og fleira varðandi jakt-
skipið Sigurósk.
Þetta segir okkur þó að þeir félagarnir tveir, margnefndir, hafa átt skipið
að jöfnu, því alveg er víst að það voru þeir sem áttu skipið. Það sanna
undirskriftir þeirra undir mörg bréf er varða útgerð skipsins.
16 Jóhann Hjaltason, Frá Djúpi og Ströndum bls.. 79.