Strandapósturinn - 01.06.2021, Page 79
78
Jón Hjartarson
frá Undralandi
Kaupfélag
Bitrufjarðar
Óspakseyri
1942–2004
Inngangur
Bitrufjörður er syðsti fjörður Vestfjarðakjálkans að austanverðu, 10 kíló-
metra langur með stefnu í aust- norðaustur út í innanverðan Húnaflóa.
Fjörðurinn er skipgengur og voru skipakomur þangað algengar frá land-
námsöld og allt fram yfir 1960 þegar strandferðaskipin höfðu þar reglu-
bundna viðkomu. Strandsiglingum á Óspakseyri lauk með batnandi vegum
og öflugri flutningabílum upp úr 1960.
Við sunnanavert fjarðarmynnið rís Guðlaugshöfði en Ennishöfði að
norðanverðu, myndarlegir höfðar sem ganga báðir í sjó fram.
Á lognkyrrum degi er Bitrufjörður friðsæll spegill, sjófuglar teikna
myndir og mynstur í hafflötinn, sem fjara hægt út í hvítu logninu, selir
svamla undan landi, allt er kyrrt og hljótt eins og allur friður veraldarinnar
hafi safnast saman í þessum litla firði norður á Ströndum.
Á ströndinni norðanverðri, rétt um fjóra kílómetra frá fjarðarbotni,
hefur hlíðin hlaupið fram og myndað dálítinn tanga út í fjörðinn og fram
af honum skipgengt aðdýpi, fært hafskipum. Innan hans er gott skipalægi,
skjól fyrir hafís og austan og norðaustan bálviðrum vetrarins.
Hér hafa náttúruöflin útbúið notadrjúga lóð fyrir byggingar Kaupfélags
Bitrufjarðar, einmitt þar sem best hentaði.
Nú hefur nokkuð verið sagt frá firðinum, tilurð eyrarinnar og því kominn
tími til að að gera grein fyrir aðdraganda og ástæðum þess að kaupfélag
var stofnað í Bitrufirðinum og valinn staður á eyrinni góðu, Óspakseyri.
***