Strandapósturinn - 01.06.2021, Page 84
83
var mjög oft öllum siglingum þrándur í götu og hindraði þær stundum
algerlega svo árum skipti. Þó má telja líklegt að Hansakaupmenn og
Englendingar hafi siglt til Borðeyrar fram undir 1600.
En svo harðnar á dalnum. Þegar einokunarversluninni er komið á (árin
1602–1786) er ákveðið að aðeins tveir verslunarstaðir skuli vera við
Húnaflóa, annar í Kúvíkum í Reykjarfirði á Ströndum og hinn í Höfða-
kaupstað (Skagaströnd) og allir íbúar í Strandasýslu skikkaðir til að versla
við þessa tvo staði. Sami kaupmaður sá um verslun á báðum stöðum og
eitt skip sigldi á báðar hafnir. Fólki sem bjó í kringum Flóann var bannað
að versla við aðra. Í gömlum skjölum sést að oft hafi orðið misbrestur á
siglingu til Kúvíkur og í sömu bréfum kemur fram að hollenskir duggarar
stundi víða verslun meðfram ströndinni og nýti sér neyð fólksins og séu oft
óbilgjarnir í verðlagningu.
Þrátt fyrir að einokunarversluninni lyki 1786 leið enn langur tími
þangað til regluleg verslun hófst. Það var 23. desember 1846 að Borðeyri
var gerð að löggiltum verslunarstað. Fljótlega þar á eftir hófu kaupmenn
verslun á Borðeyri, en það er utan við verksvið þessarar ritgerðar að fjalla
um þann kafla verslunarsögunnar.
Næst er að segja frá upphafi félagsverslunar við Húnaflóa, því telja
má fullvíst að hún hafi verið undanfari kaupfélaganna, sem síðar risu á
nokkrum stöðum í kringum Húnaflóa.
Þann 15. mars 1870 var fundur haldinn að Gauksmýri, þar sem
Félagsverslun við Húnaflóa var formlega stofnuð og lög fyrir hana
samþykkt. Þetta var hlutafélag og hvert hlutabréf virt á 25 ríkisdali
og skyldu hlutir vera 800 talsins. Páll Vídalín var kosinn forseti
félagsins, en Pétur Eggerz10 ráðinn kaupstjóri. Mjög mikil þátttaka
varð strax í þessari félagsstofnun.....[.....] Árið 1875 náði félagið yfir
sex sýslur. Aðalstöðvar félagsins voru á Borðeyri í verslunarhúsunum
sem Pétur var búinn að reisa, og er félagið oft kennt við staðinn og
kallað Borðeyrarfélagið. Pétur seldi félaginu verslunarhúsin og lagði
andvirðið fram sem hlutafé.
10 Pétur Eggerz fékk verslunarleyfi á Borðeyri 1857, og hóf þar verslun, gerðist mikill athafna-
maður, byggði m.a. vörugeymsluhús, sem stóð á tanganum til 1958 þegar það var rifið en
hafði þá verið pakkhús Kaupfélags Hrútfirðinga um árabil.