Strandapósturinn - 01.06.2021, Page 102
101
Óspakseyri var orðinn litlu samfélagi ofviða. Erfiðleikar í kjötsölu á lands-
vísu ásamt fólksfækkun í sveitinni og ótal kröfum sem sláturhúsum var nú
gert að fara eftir kröfðust erfiðra ákvarðanna af hálfu heimamanna. Á aðal-
fundi kaupfélagsins, sem haldinn var á Þambárvöllum þann 7. maí 2003
lagði stjórnin fram eftirfarandi tillögu:
Stjórn K.B.Ó. leggur til að slátrun félagsins verði hætt á Óspakseyri
og reynt að fá úreldingu á það. Einnig að verslun verði rekin áfram til
1. október nk. og rekstur félagsins þá endurskoðaður.
Tillagan var samþykkt samhljóða.
Þannig gerðist það, að haustið 2002 voru seinustu lömbin leidd til
slátrunar í sláturhúsinu á Óspakseyri og þá hafði verið slátrað þar hvert
haust frá 1945 eða í 57 ár.
Með lokun sláturhússins ásamt sífækkandi fólki á verslunarsvæðinu var
kjölfestunni kippt undan rekstri kaupfélagsins, sem gerði erfiðan verslunar-
rekstur næstum óviðráðanlegan eins og koma á daginn.
Á aðalfundi kaupfélagsins 5. maí 2004 var samþykkt að reka verslunina
til 1. sept. nk. og um leið upplýst að úreldingarbætur fyrir sláturhúsið yrðu
6,6 milljónir. Á stjórnarfundi sem haldinn var á Þambárvöllum 6. október
2004 var rætt um hvernig staðið yrði að lokun verslunarinnar, sölu á
vörum, uppgjöri við skuldunauta og annað sem tilheyrði endalokunum, í 4.
lið fundargerðarinnar stendur:
Rætt um laun kaupfélagsstjóra, hún heldur sínum launum kr.
80.000,- út þennan mánuð, en 50.000,- í nóv. og des. og þá hættir
hún störfum eftir 32 ár. Hún sér um að skila uppgjöri til endurskoð-
anda um áramót.
Hér vekur athygli að aðferðin við starfslok Sigrúnar er keimlík aðferð-
inni við ráðningu hennar sem kaupfélagsstjóra á sínum tíma. Ekki
finnst neinn starfslokasamningur, heldur virðist stjórnin taka einhliða
ákvörðun um hvernig starfslokum hennar skuli háttað. Í báðum tilfellum
situr hún fund stjórnar og undirritar fundargerðina ásamt stjórn án
athugasemda.
Tímann fram til 26. nóvember 2005 nýtir stjórnin til að ganga frá sölu
á eignum kaupfélagsins sem var nauðsynlegt til þess að lögleg slit félags-