Strandapósturinn - 01.06.2021, Page 110
109
þíða pennana til að geta skrifað og allt sem gat
frosið eins og t.d. kartöflur var geymt heima á
Eyri, sótt að morgni þá daga sem búðin var opin
og það sem ekki seldist yfir daginn flutt þangað
aftur að kvöldi. Verslunin var alltaf opin á mið-
vikudögum, en oftar yfir sumarið og alla daga í
sláturtíðinni.
Af mörgu góðu fólki, sem kom að rekstri
verslunarinnar og sláturhússins langar mig til
að nefna Hákon Ormsson bónda á Skriðnes-
enni, sem ók flutningabíl KBÓ af einstakri trú-
mennsku í tæp 20 ár og svo Öglu Ögmunds-
dóttur húsfreyju á Bræðrabrekku, sem lengst stóð vaktina í búðinni ásamt
öðrum.
Kaupfélag Bitrufjarðar á Óspakseyri varð ekki gjaldþrota heldur var
rekstrinum hætt með ákvörðun stjórnar eins og annars staðar er frá sagt í
þessari samantekt Jóns Hjartarsonar. Það var þungbært að þurfa að standa
fyrir því að leggja niður starfsemi, sem svo lengi hafði þjónað sveitung-
unum á farsælan hátt. Í tengslum við uppgjör félagsins þurfti að fara eftir
ákveðnum lögum og reglum og það kom í hlut kaupfélagsstjóra að taka
ýmsar ákvarðanir, sem ekki juku á vinsældir hans. En þegar litið er til baka
og þetta erfiða tímabil skoðað í baksýnisspeglinum get ég verið ánægð að
hugsa til þess, að enginn tapaði einni einustu krónu á viðskiptum sínum
við kaupfélagið. Allir fengu sitt.
Sigrún Magnúsdóttir
Niðurlag
Kaupfélag Bitrufjarðar á Óspakseyri var stofnað á tímamótum, þegar
íslenskt samfélag var óðum að breytast úr strjálbýlissamfélagi í þéttbýlis-
samfélag. Saman fór fólksfjölgun í landinu og fólksfækkun í sveitunum.
Þessi þróun hófst að einhverju marki á seinustu áratugum 19. aldar, en tók
ekki verulegan kipp fyrr en nokkru eftir aldamótin og stóð eftir það út alla
öldina og stendur reyndar enn. Þróunin úr sjálfsþurftarbúskap í markaðs-
búskap kallaði á margbrotnar og flóknar breytingar á atvinnuháttum í
sveitum landsins, sem ekki var vandalaust að að ráða fram úr svo vel færi.
Hákon Ormsson, bóndi og
bílstjóri, Skriðnesenni.