Strandapósturinn - 01.06.2021, Page 111
110
Bættar samgöngur og vöxtur Samvinnuhreyfingarinnar með stofnun
kaupfélaganna voru að mínu mati lykilatriði í því að sveitirnar náðu
að þróast áfram og tileinka sér breytta atvinnu- og viðskiptahætti.
Með stofnun kaupfélaganna færðist stjórn verslunar og viðskipta með
landbúnaðarvörur heim í hérað til bændanna sjálfra, undir sameiginlegum
hatti Sambands íslenskra samvinnufélaga, sem hafði bolmagn til þess að
taka þátt í harðnandi samkeppni með góðum árangri.
Kaupfélag Bitrufjarðar var stofnað af félagslegri nauðsyn, til þess að
bregðast við grundvallarbreytingum, þegar nýtt samfélag var að taka við
af því gamla, með samkeppni, samþjöppun, fólksflutningum og sívaxandi
hraða, sem ekki sér enn fyrir endann á.
Það er sanngjarnt og nauðsynlegt að hnykkja á því hversu vel var staðið
að stofnun kaupfélagsins. Þar var hvert atriði hugsað til enda og greini-
legt að þeir, sem þar véluðu um hlutina, höfðu gert sér góða grein fyrir
hugmyndafræðinni og hvernig einmitt þessi tegund rekstrar gæti staðið
með samfélaginu og fleytt því áfram yfir ólgusjó breytinganna framundan.
Rekstur félagsins einkenndist alla tíð af þessari frumhugsun, en þegar
komið var fram um aldamótin 2000 höfðu aðstæður aftur breyst á þann
veg, að starfsemin var ekki lengur samkeppnishæf, gat ekki haldið áfram í
sömu mynd og hlaut því að leggjast af eins og hún gerði.
Agla Ögmundsdóttir og Sigrún Magnúsdóttir við afgreiðslu í búðinni.