Strandapósturinn - 01.06.2021, Page 116
115
dagbækur eru það ekki bara stórfréttirnar sem heilla, óvæntar vendingar
og viðburðir, þótt oft séu frásagnir af slíkum atburðum einmitt heppilegar
til að nálgast tilfinningar og viðhorf þeirra sem heimildirnar skapa. Það er
heildarmyndin og hversdagslífið sem heillar þjóðfræðingana, síendurtekin
verkefni og daglegt amstur. Hringrás tímans. Annríki fábreyttra daga.2
Hér á eftir verður fjallað um dagbók sem skrifuð var á Ströndum og er
að mörgu leyti gott dæmi um lýsingu á samtíma sínum og yfirleitt dæmi-
gerð um það form sem dagbókaritarar fylgdu á 19. öld og fram á 20.
öld. Stundum bregður þó út af og þá gefa dagbókarfærslurnar lesendum
óvænta og djúpa innsýn í tilfinninga- og hversdagslíf löngu liðins tíma.
Dagbókin hans Jóns
Árið 2017 hóf Rannsóknasetur HÍ
á Ströndum – Þjóðfræðistofa,
að rannsaka og skrifa upp
dagbók Jóns Jónssonar
frá 19. öld. Dagbókin
hans er varðveitt á Hand-
ritasafni Landsbókasafns
Íslands – Háskólabókasafns og
hefur safnnúmerið Lbs 5134 4to.
Hún er innbundin í eina bók
– alls 753 blaðsíður. Þessi rann-
sókn er hluti af samvinnuverkefni
Rannsóknasetursins og Handrita-
safnsins um dagbækur, en safnið
ljósmyndaði bókina og gerði aðgengilega í heild sinni fyrir alla sem áhuga
hafa, á vefnum handrit.is. Höfundar þessarar greinar hafa síðan skrifað
bókina upp og stór áfangi í þeirri vinnu var að baki í október 2019 þegar
lokið var við fyrstu umferð á uppskriftinni. Samtals reyndist bókin vera
244 þúsund orð.
2 Sigurður Gylfi Magnússon. Menntun, ást og sorg. Einsögurannsókn á íslensku sveitasam-
félagi 19. og 20. aldar. Í ritröðinni Sagnfræðirannsóknir 13. Reykjavík 1997. – Sigurður
Gylfi Magnússon. Bræður af Ströndum. Dagbækur, ástarbréf, almenn bréf, sjálfsævisaga,
minnisbækur og samtíningur frá 19. öld. Í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar.
Reykjavík 1997.
Dagbók Jóns er varðveitt á
Handritadeild Landsbókasafns Íslands
– Háskólabókasafnsins og hægt er að
skoða hana á vefnum handrit.is, þar
sem myndin af bókinni er.