Strandapósturinn - 01.06.2021, Page 145
144
Rekaferð í
Ófeigsfirði
Guðrún Sveinbjörnsdóttir
frá Ófeigsfirði
Pétur frændi minn kallaði inn í Gamla húsið: ,,Gunna, það á að fara á reka
í dag, við skulum fá að fara með.“
Ég var ellefu ára þegar þetta gerðist en Pétur níu. Hann fékk oft að fara
með piltunum í allskyns ferðir, en ég var lítið fyrir það gefin að pota mér
með. Nú bar samt svo við að ég fékk mikla löngun til að fara. Þannig stóð á
að mamma var með lítinn dreng í fóstri, eins árs og átti ég að passa hann.
Ég tek mig þó til og fer að suða í mömmu og eftir dálitla stund gefur hún
mér fararleyfi. Pétur var búinn að fá leyfi hjá piltunum fyrir okkur bæði.
Var nú ekki annað að gera en fá sér smá nesti og klæða sig vel. Lagt var
af stað um tíuleytið á Val, þriggja tonna opnum mótorbát. Veðrið var hið
besta enda tilgangslítið að fara á reka til viðfangs nema í góðu veðri.
Förinni var heitið norður í Bása í Eyvindarfirði sem er um þrjár og hálf
sjómíla. Gekk allt hið besta og segir ekki af för okkar fyrr en við erum farin
að spranga um sandinn norður í Eyvindarfirði.
Okkur krökkunum var brátt að hlaupa á land og vita hvort við fyndum
ekki eitthvað nýstárlegt. Jú, bíðum við, er ég ekki svo logandi heppin að
finna nærri meters langan plasthólk, svo sem fimm cm í þvermál, með
töppum í báðum endum, rauðmálaðan öðrum megin. Hlupum við með
þetta dýrindi í ofvæni til piltanna. Skáru þeir úr um að þetta væri svokallað
flöskuskeyti, sem oft er á reki til að kanna hafstrauma. Ákveðið var að
opna það ekki fyrr en heim væri komið.
Var nú hafist handa við að hlaða bátinn og var bæði sett í hann sjálfan
hár hlaði með borðstikum og teknar spýtur í tog. Eru þá trén sett á flot,
bundin saman og dregin á eftir bátnum. Fór nú að gola að norðan og lét