Andvari - 01.01.2017, Blaðsíða 42
ANDVARI BJÖRN ÞORSTEINSSON 41
Hann kveðst hafa sótt tíma hjá honum í guðfræðideild haustið 1943 og
hafi kennsla hans verið ógleymanleg. Magnús fær síðan þá umsögn að
hann hafi verið „fulltrúi hins glaða, milda og umburðarlynda kristin-
dóms, hinnar stríðandi, listelsku kirkju og síðasti klassiskt menntaði
íslenski stjórnmálamaðurinn, frjálsmannlegur og stór í sniðum“.99
Árið eftir að Björn lauk námi birtist eftir hann önnur grein í mál-
gagni róttækra stúdenta. Nefndist hún „Jón Sigurðsson 1848“. Eins og
nafnið bendir til, verður höfundi nokkuð tíðrætt um byltingarnar sem
brutust út í álfunni snemma þetta ár og segir þær hafa orðið tilefni
þess að Jón Sigurðsson skrifaði greinina „Hugvekja til Íslendinga“,
sem kom út þá um vorið í tímaritinu Nýjum félagsritum. Þar er, að
dómi Björns, kveðið upp úr um réttindi og kröfur þjóðarinnar til sjálfs-
stjórnar, en Jón hafði annað og ekki síður mikilvægt að færa þjóð sinni
líkt og Karl Marx og Engels heimsbyggðinni á sama tíma:
Með Hugvekju sinni til Íslendinga gaf Jón Sigurðsson þjóð sinni stefnuskrá,
sem gaf baráttu hennar og tilveru aukið gildi. Á sama hátt gáfu þeir Marx
og Engels alþýðu allra landa stefnuskrá árið 1848, sem hefur sama gildi
fyrir alþýðuhreyfinguna eins og hugvekja Jóns fyrir okkur Íslendinga. Með
Kommúnistaávarpinu er lagður nýr grundvöllur að valdabaráttu alþýðunnar
og sagan skoðuð í nýju ljósi. Eftir árið 1848 hefur barátta og byltingarstarf-
semi hennar breytt um innihald. Hún er háð í raunhæfum tilgangi, og 1948
veit mikill hluti alþýðunnar, hvað gera skal, þegar sigur er unninn. Árið 1848
markar tímamót í sögu okkar Íslendinga, en þá verða einnig tímamót í sögu
alls mannkynsins. Það ár hefst markviss frelsisbarátta hinna lægri stétta.100
Þriðju og síðustu greinina sem Björn samdi fyrir þetta blað, nefndi
hann „Hugleiðingar um íslenzkar fornbókmenntir“. Þar ræðir hann
um þennan sagnasjóð Íslendinga sem þjóðfélagslegt fyrirbæri og veltir
því fyrir sér hvers vegna kunnátta í skrift og málvísindum hafi náð
til stærri hluta almennings hér á landi en annars staðar á sama tíma.
Bókmenntir þessar hafi orðið til á síðasta skeiði ættsveitasamfélags-
ins, áður en auðug yfirstétt varð allsráðandi í landinu, þegar alþýðan
og hinn almenni búþegn mátti sín enn nokkurs. Íslendingar ortu og
rituðu fyrir norsku yfirstéttina um kónga og dýrlinga, en sjálfir áttu
þeir sínar eigin hetjur, og þar á var mikill munur:
Hetjur Íslendinga voru fólk, sem aldrei lét kúgast, aldrei lét ganga á rétt sinn og
var ósnortið af umburðarlyndiskenningu yfirstéttar og kristindóms. Heiðurinn
er íslenzku hetjunum fyrir öllu og þær krefjast skilyrðislaust uppreistar fyrir
réttarskerðingu. Þar sem ríkisvald yfirstéttar hefur myndazt, er reynt að troða