Andvari - 01.01.2017, Blaðsíða 46
ANDVARI BJÖRN ÞORSTEINSSON 45
spurningunni á þessa leið: „Við erum hersetin þjóð, en ef við eigum að
lifa í landinu verðum við að losna við herinn. Fólk vill samhug í þess-
um málum og með baráttu okkar á að skapast kjarni, sem leiðir málið
fram til sigurs.“116 Björn stjórnaði göngunni og reyndar oftar næstu
árin og tók starfið alvarlega. Sveinbjörn Rafnsson prófessor fylgdist
eitt sinn með Birni í þessu hlutverki sínu og sá hann hlaupa fram og
aftur meðfram fylkingunni allan tímann, svo að öruggt væri að ekk-
ert færi úrskeiðis. Taldi hann líklegt að Björn hefði gengið nokkrar
Keflavíkurgöngur þann daginn.117
Björn var hernámsandstæðingur, og mátti þá einu gilda hvort her-
veldið var í vestri eða austri. Aðfaranótt 21. ágúst 1968 réðust hersveit-
ir frá fimm ríkjum Varsjárbandalagsins undir forystu Sovétmanna inn
í Tékkóslóvakíu til að kveða þar niður umbótahreyfingu sem nýr aðal-
ritari kommúnistaflokksins, Alexander Dubcek, hafði þá staðið fyrir
og kölluð var „vorið í Prag“. Fregnin um innrásina var sem reiðar-
slag fyrir Björn Þorsteinsson, formann Tékknesk-íslenska félagsins.118
Strax daginn eftir náði blaðamaður Morgunblaðsins tali af honum og
spurði hann um atburði næturinnar:
Þeir eru eitthvert það svartasta, sem gerzt hefur í evrópskri sögu. Ég á engin
orð, bókstaflega engin orð. Það var haft eftir einum nazistaforingja: „Þegar ég
heyri minnzt á menningu, gríp ég til byssunnar.“ Nú virðast viðbrögð sumra
manna vera: „Þegar ég heyri talað um lýðræði, gríp ég til skriðdreka.“ Þessir
atburðir eru enn alvarlegri en Münchenarsvikin fyrir 30 árum. Þá notaði Hitler
Súdetaþjóðverjana sem átyllu, en nú er ekkert tilefni; hér er verið að fremja
bein ofbeldisverk. Ég trúi því, eins og allir góðir menn, að ofbeldið eigi sitt
skapadægur og Tékkar eigi eftir að losna úr ánauð sinni.119
Sunnudaginn næsta efndi Tékknesk-íslenska félagið til mótmælafund-
ar í Sigtúni, og sama dag var Tékkóslóvakíu minnst í kirkjum landsins
að ósk biskups. Fleiri mótmælafundir voru haldnir á næstu mánuðum,
pólitískir andstæðingar tóku þá höndum saman og töluðu allir einum
rómi.120
Ekki er annað vitað en að Birni hafi hugnast stjórnarfarið í Austur-
Evrópu fram að þessum tíma. Hann lét sig t.d. ekki vanta á samkomu
í tilefni af þjóðhátíðardegi Þýska alþýðulýðveldisins í október 1960 og
flutti þá meira að segja ávarp.121 En svo virðist sem hildarleikurinn
í Tékkóslóvakíu hafi breytt viðhorfi hans varanlega. Á níunda ára-
tug aldarinnar bárust ný tíðindi frá löndunum austan járntjalds. Mikil