Andvari - 01.01.2017, Blaðsíða 20
ANDVARI BJÖRN ÞORSTEINSSON 19
beitir hann svipaðri túlkunaraðferð og í fyrri grein nema hvað hér er
enn meiri áhersla lögð á þjóðfélagsrætur siðaskiptanna:
Eins og kunnugt er, á siðbótin upptök sín í Þýzkalandi, en það væri rangt að
álykta af því, að þar hafi trúaráhugi manna verið svo mikill, að kirkjan hefði
ekki getað fullnægt fólki í því efni. Enda þótt siðbótin verði ekki skilin nema
út frá þeim forsendum, sem ríktu innan þýzku ríkjanna, þá er það ekki sönnun
þess, að hún sé eitthvað [svo] afkvæmi þýzks eða germansks anda. Þessi trúar-
stefna náði mestri útbreiðslu í germönskum löndum, af því að þjóðfélagshættir
og stjórnarfar var þar með sérstökum hætti, sem skapaði henni góð skilyrði.32
Lúter fær heldur slæma útreið í greininni. Með kenningunni um frelsi
kristins manns blés hann bændum og alþýðunni kapp í kinn en brást
þessum stéttum hrapallega, þegar hann snerist á sveif með furstunum
og hvatti þá til að höggva, slá og drepa uppreisnarmenn bænda og
stjórna „skrílnum“ með ofbeldi.33 Lúterstrúin varð til í lénssamfélagi
miðalda og varð að sínu leyti til að viðhalda þeirri sömu samfélags-
gerð með langvarandi afleiðingum:
Þar sem Lútherstrúin ríkti, veittist hinu rísandi auðvaldi örðugt að vinna bug
á óskapnaði lénsskipulagsins. Hún blés ekki byltingaranda í borgarastéttina,
en gerði aftur á móti lénsherrann að gósseiganda og aðalinn að vörufram-
leiðanda. Lútherstrúin var afturhaldssöm og henni fylgdi versnandi afkoma
hjá lágstéttunum, og fengum við Íslendingar einkum að kenna á þeim afleið-
ingum hennar.34
Áreiðanlega gætu ýmsir gert athugasemdir við þessa greiningu Björns
og bent m.a. á að í suðrænum löndum lifði lénskerfið áfram í einhverri
mynd í góðum félagsskap með kaþólsku kirkjunni enda spegilmynd
hvort annars í stigveldi og forsjárhyggju. Ekki verður heldur séð að
lýðræðisþróun hafi átt erfiðara uppdráttar í löndum lúterstrúarmanna
en þeirra sem játa aðra trú. En kenningin gengur upp með góðum vilja
og innan sinna marka.
Árið 1951 birtist í Þjóðviljanum grein í nokkrum hlutum undir fyr-
irsögninni „Guðmundur biskup góði“. Hún var sögð vera úr ritverki
sem þá væri í smíðum. Mikils var vænst af höfundi greinarinnar, eins
og fram kemur í kynningu hennar:
Enn hefur Íslandssaga lítið verið könnuð og rituð af sósíalistum, og bíður þar
mikið verkefni fræðimanna sem hafa tileinkað sér rannsóknaraðferðir hinnar
efnalegu söguskoðunar, endurmat þjóðarsögunnar í ljósi nútímavísinda og
þekkingar. Björn Þorsteinsson sagnfræðingur er ungur maður, en hann hefur