Andvari - 01.01.2017, Blaðsíða 163
162 AUÐUR AÐALSTEINSDÓTTIR ANDVARI
kemur aðeins inn á einkenni slíkra skrifa í nýrri bók sinni um gleymsku í
lífsfrásögnum og skáldskap. Þar segir hún m.a. frá því að mikil áhersla sé
yfirleitt lögð á að segja frá og hlusta sem viðbragð við tráma, að bera vitni
og vera vitni, en einnig vandamálin sem því fylgja, t.d. hversu erfitt getur
verið, fyrir báða aðila, að skilja, ná vitsmunalega utan um, trámatíska at-
burði. Vitnisburður sé grundvallaratriði í allri orðræðu um tráma og frásagn-
ir, sem og að hlusta á vitnisburð.11 Sama ferli og virkjast við játningar og
skriftir. Margir sérfræðingar í trámafræðum hafa einnig bent á hversu stóru
hlutverki gleymska gegnir í því ferli; að rifja upp áfallið felur um leið í sér
að viðurkenna gloppurnar og það sem ekki er sagt.12 Við teljum almennt að
það sé nauðsynlegt að tala um skelfingar sem riðið hafa yfir fólk og hlusta
á slíkar sögur, það sé skylda okkar að muna. Hins vegar telur Gunnþórunn
að gleymska sé ekki síður mikilvæg. Fórnarlömbin vilja einnig lifa af, kom-
ast undan hinni ógnvænlegu alltumlykjandi reynslu en ekki festast í henni.
Upprifjun sé ekki eina leiðin til að takast á við áföll; það að gleyma geti veitt
nauðsynlega huggun og frið.13 Hvorki upprifjun né gleymska séu eina rétta
svarið, eins og Aleida Assman bendi á þá fari réttu viðbrögðin eftir sögu-
legu samhengi, menningarlegum gildum og almennum aðstæðum í hverju
einstöku tilviki.14
Persónurnar í Ör þurfa að finna sitt eigið jafnvægi. Í hótelþögninni skapast
tækifæri fyrir hikandi, brotakenndan vitnisburð Maí um það sem hún upplifði
i stríðinu, og sonar hennar, Adams, sem tjáir sig með því að teikna myndir.
Þegar hinn fámælti Jónas Ebeneser leggst sjálfur yfir dagbókarfærslur sínar
frá yngri árum finnur hann, líkt og í skrifum ótal höfunda sjálfsævisagna frá
tímum Játninga Ágústínusar, ýmislegt sem minnir á skriftir synda. „Búinn
að sofa hjá fjórum stelpum í kórnum og mórallinn orðinn slæmur“, viður-
kennir yngra sjálf hans (48) en eldra sjálfið sem horfir til baka dregur eigin
ályktanir: „Þetta er ekki slæmur strákur. Hann er saklaus og velmeinandi“
(113). Og þótt hann sé „góður í að þegja“ (108) getur hann ekki annað en
svarað Maí með slitróttri frásögn af sinni eigin sorg, fullur sektar yfir þeirri
sjálfhverfu að koma til að deyja í landi þar sem „vatnið er enn blóðlitað“ og
fólk „hefur haft svona mikið fyrir því að lifa af“, vegna óhamingju sem nú
virðist „í besta falli kjánaleg þegar við blasa rústir og ryk út um gluggann“
(108-109). Því vitnisburður sorgarferlisins snýst ekki bara um að vitna gegn
öðrum, benda á sekt annarra, heldur beinist inn á við líka, að eigin sekt, eins
og kemur svo örvæntingarfullt fram í bók Naju Marie Aidt um son sinn:
„[…] jeg vil tale med dig om min skyld spørge dig har jeg været hård ved dig
har jeg pint dig har du følt dig uønsket jeg farer rundt í stuen vanvittig jeg
hyler græder […]“ (38). Að sama skapi hefur Jónas Ebeneser í örvæntingu
leitað að sínum þætti í að hjónabandið brást. Þegar hann las Biblíuna og þá-
verandi konan hans, Guðrún, bað hann um að lesa upphátt fyrir sig var hann