Andvari - 01.01.2017, Blaðsíða 13
12 GUNNAR F. GUÐMUNDSSON ANDVARI
Í Selsundi þótti Þorsteini gott að búa. Túnið eggslétt út frá bænum,
„fjögur hundruð hesta síðbreiða“, sumarblíða mikil og veturnir mildir
og góðir. Björn Þorsteinsson kvaðst einnig hafa átt þaðan góðar minn-
ingar.7 Þessi sælutími stóð yfir í rúman áratug, allt þar til ógnvaldur-
inn mikli, Hekla, braut af sér allar viðjar í lok mars 1947 og hrakti
bóndann með allt sitt búalið af jörð sinni. Ári síðar settist Þorsteinn og
fjölskylda hans að í Hafnarfirði.8
Hugur Björns stóð snemma til þess að ganga menntaveginn, en sú
leið var ekki öllum greiðfær. Á þessum tíma voru aðeins tveir mennta-
skólar í landinu, í Reykjavík og á Akureyri þar sem fullgildur mennta-
skóli hafði verið stofnaður árið 1930. Hins vegar eimdi enn eftir af
þeim gamla sið að lærðir menn, einkum prestar, tækju til sín námfúsa
sveitapilta, og veittu þeim leiðsögn til stúdentsprófs. Prestsheimilin
voru að þessu leyti mörg hver mikil menntasetur.9 Eitt þeirra var
Fellsmúli á Landi, um eina dagleið á göngu (20–25 km) norðvestan
frá Selsundi. Í góða tvo áratugi var þar rekinn nokkurs konar mennta-
skóli undir stjórn þeirra feðga, séra Ófeigs Vigfússonar prófasts og
Ragnars Ófeigssonar, sem jafnframt var aðstoðarprestur föður síns.
Séra Ragnar var hámenntaður maður, því að auk guðfræðiprófs frá
Háskóla Íslands hafði hann verið um tíma við nám í málvísindum og
trúarbragðasögu við háskólann í Kaupmannahöfn. Í minningargrein
um séra Ófeig lýsir Björn menningarheimilinu á Fellsmúla á þessa leið:
Fellsmúli er allþekkt fræðasetur hér á landi, en fæstir munu vita, hvers konar
mannúðar- og menningarstarf feðgarnir á Fellsmúla hafa innt af hendi. Tala
þeirra nemenda, sem dvalist hafa á Fellsmúla og notið hafa tilsagnar prest-
anna, mun komin talsvert á annað hundrað. – Margt af því fólki, sem þar hefur
stundað nám, hefur verið svo efnum búið, að æðri skólar landsins hafa verið
því lokaðir. En skólastjórinn á Fellsmúla var yfirleitt ekki frekur í fjárkröfum.
Flestir nemendur hans hafa sloppið með það eitt að greiða fæði og húsnæði og
sumir fengið gjaldfrest á þeirri kvöð. Skólinn á Fellsmúla hefur þó eigi verið
styrktur af ríkinu á nokkurn hátt, og kennslan þar hefur eigi verið veitt með
hangandi hendi. Menn hafa stundað þar nám í allskonar bóklegum fræðum og
nokkrir hafa numið þar allan lærdóm sinn undir stúdentspróf og staðist það
með góðum vitnisburði. Fjölhæfari kennarar eru trauðla til hér á landi en þeir,
sem kenndu á Fellsmúla.10
Björn Þorsteinsson var einn þeirra ungu manna sem sátu við fót-
skör þessara meistara og áttu athvarf hjá þeim hjónum, séra Ófeigi og
Ólafíu Ólafsdóttur. Hann fer fögrum orðum um prófastsfrúna, segir