Andvari - 01.01.2017, Blaðsíða 123
122 ÁRMANN JAKOBSSON ANDVARI
rakið af Sigurði, Jóni Karli Helgasyni og fleirum. Þar má ekki vanmeta
áhrif prentaðra bóka og ekki síst útgáfu Sigurðar Kristjánssonar sem hann
vildi koma til allrar þjóðarinnar. Þau áhrif voru ekki aðeins á hugsunarhátt
og siðferði heldur líka á málfar og gerðu það að verkum að samband
þjóðarinnar við fornritin var orðið mun nánara í upphafi 20. aldar en það
hafði verið í upphafi 19. aldar, á dögum Rasks. Einkum á það við um sjálf-
ar Íslendingasögurnar. Tengsl íslensku þjóðarinnar við Íslendingasögur
voru ekki endilega órofin, þeim var beinlínis komið á að nýju og þar lék
Íslendingasagnaútgáfa Sigurðar Kristjánssonar lykilhlutverk.
Þar að auki hafði hið mikla framtak Sigurðar heilmikil áhrif á fræðilega
umræðu með því að skilgreina flokkinn Íslendingasögur (og Íslendingaþætti)
og varð þannig að einhverju leyti fyrirmynd fyrir fræðilegar útgáfur 20.
aldar. Boðsbréf Sigurðar Kristjánssonar til þjóðarinnar í upphafi árs 1890
varð þannig einnig afdrifaríkt í sögu íslenskra fræða.
TILVÍSANIR
1 Þessar hugmyndir komu til að mynda skýrt fram í greinum Kristínar Geirsdóttur (1908–
2005) sem voru viðbrögð við nýlegum kenningum ýmissa fræðimanna, s.s. Sveinbjarnar
Rafnssonar (sjá einkum Kristín Geirsdóttir, „Fáein alþýðleg orð,“ Skírnir 153 (1979),
5–41). Kristín teflir þar fram viðhorfum til sagnanna úr sinni bernsku sem fulltrúum
fornra viðhorfa til sagnanna og þannig verður hennar eigin fortíð hálfgerð þjóðarfortíð,
hennar eigin nálægu forfeður fulltrúar þjóðveldisaldar. Þó að Kristín tali bæði sem full-
trúi algengra viðhorfa og sem alþýðukonan andspænis fræðimönnunum hefur hún talsvert
vald á ræðulist og þannig má gera ráð fyrir að hún geri sér að einhverju leyti grein fyrir
eigin goðsagnasköpun en telur hana þó jákvæða og mikilvæga. Nánari greining á þessari
orðræðu er að finna í þessari grein: Ármann Jakobsson, „Aðför að fortíðinni: Um hvað
snýst ágreiningurinn um sannleiksgildi Landnámabókar?“ Landnáma: greinasafn, ritstj.
Haraldur Bernharðsson (væntanlegt 2018).
2 Sjá einkum Jón Karl Helgason, Hetjan og höfundurinn: Brot úr íslenskri menningarsögu
(Reykjavík, 1998). Jón Karl ræðir fjölþætt viðhorf til fornsagnanna og mikilvægi þeirra en
beinir einkum sjónum að umskiptunum frá því að hefja söguhetjur sagnanna til vegs og
virðingar (fyrri hl. 20. aldar) til þess að einblína á höfunda sagnanna sem hinar nýju eigin-
legu þjóðhetjur (síðari hl. 20. aldar. Meðal annars styðst hann við svör Íslendinga sem voru
fæddir 1850–1900 við spurningum danska kennarans Holger Kjær á þriðja áratug 20. aldar
og síðan svör fólks sem fætt er 1900–30 við spurningum þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns
árið 1994. Það er einkum fyrri hópurinn sem hefur stundum verið talinn dæmigerður
fyrir Íslendinga fyrri alda en sú saga sem hér er sögð gæti bent til þess að hann sé fyrst
og fremst dæmigerður fyrir sinn tíma.
3 Miklar rannsóknir eru núna unnar á 19. aldar máli og má þar nefna rannsóknarverkefnið
Íslenskt mál á 19. öld sem Ásta Svavarsdóttir hefur leitt seinustu árin. Sbr. einnig Kjartan
G. Ottósson, Íslensk málhreinsun: Sögulegt yfirlit (Reykjavík, 1990).
4 Sjá einkum Matthew J. Driscoll, The Unwashed Children of Eve: the Production,
Dissemination and Reception of Popular Literature in Postreformation Iceland (Enfield