Andvari - 01.01.2017, Blaðsíða 132
ANDVARI MEÐ STJÖRNUR Í AUGUNUM 131
til stjarna þetta októberkvöld árið 1911, jafnvel neðst á Skólavörðustígnum
þar sem byggðin var þétt. Vafalítið mátti sjá vetrarbrautina berum augum
og að minnsta kosti stjörnur af birtustigi 5,5 og jafnvel enn daufari.
Sýndarbirtustig (e. apparent magnitude) er mælikvarði á hve skært okkur
sýnast stjörnur skína. Kvarðinn er „öfugur“, það er að segja talan er lægri
eftir því sem birtan er meiri.20 Hann er logaritmískur: birtumunur stjörnu af
fyrsta og sjötta birtustigi, greint af mannsauga, er hundraðfaldur. Daufustu
stjörnur sem hægt er að greina án sjónauka frá myrkustu stöðum í heimi eru
af birtustigi 6,0—6,5. Stjörnur sem eru bjartari en birtustig 5,5 eru tæplega
2900 talsins og að minnsta kosti helmingur þeirra, um 1400 stjörnur og lík-
lega miklu fleiri, ættu að hafa verið sjáanlegar frá Reykjavík á þessum tíma.
Til að setja þetta í samhengi við nútímann, þegar yfir tvö hundruð þúsund
manns búa á höfuðborgarsvæðinu21 hefur ljósmengun rýrt myrkurgæði 18-
falt. Nú sjást aðeins stjörnur sem eru bjartari en sem nemur birtustigi 4,0 og
er þá miðað við meðaltal yfir Reykjavíkurborg. Það eru aðeins um 250-300
stjörnur sem nú eru sýnilegar eða um 20% af þeirri stjörnudýrð sem sjá mátti
frá Reykjavík á þeim tíma sem Þórbergur stundaði stjörnuskoðun úr þak-
glugganum á Bergshúsi. Það ber því ekki að undra að hann kveði sterkt að
orði þegar hann horfir til himins:
Og þegar ég kom aftur út í þakgluggann, hófst hugurinn eins og svífandi sym-
fónía upp til hinna glitrandi stjörnugeima, þar sem allt er svo miklu hreinna
og bjartara en hér niðri í dimmum dal og dauðans skugga. En hvað þær blika
yndislega, eins og saklaus barnsaugu á blárri festingunni!22
Í miðjum hugleiðingum Þórbergs um dýrð stjarnanna berst fótatak upp stig-
ann og það er barið að dyrum:
Og inn í herbergið kemur hávaxin stúlka, dökkhærð, hrokkinhærð, ívið kinn-
beinahá, rjóð í andliti, fersk og sælleg, hvítar tennur, drifhvítar hendur, sindr-
andi eldsveipur í mynd hreinnar meyjar. Hún gengur einörðum skrefum inn
gólfið og segir í dálítið háum og ögrandi tón: Gott kvöld! Og um leið skýtur
hún á móti mér tinnudökkum leiftrandi augum. Guð í hæstum hæðum! Þvílíkt
augnaráð! Þvílíkt líf í þessu andliti! Sú er nú ekki alveg laus við að hafa svo-
lítið af sál. Hún hlýtur að hafa afar mikið vit á skáldskap!23
Þórbergur og aðkomustúlkan hefja tal um daginn og veginn en áður en
langt um líður spyr hann: „Hafið þér gaman af stjörnum?“ Þrátt fyrir fremur
dræmar undirtektir dregur hann fram stjörnukortið: „Lítið þér á! Þetta er
stjörnukort, sem ég er nýbúinn að teikna“24 og hann beinir athygli hennar
strax að eftirlætisstjörnunni, Síríusi.