Vaka : tímarit um þjóðfélags- og menningarmál - 01.09.1939, Síða 20
V A K A 2. árg. . Júlí-sept. 1939
mönnum hans. Árið 1935 féllu ýmsir
dómar viðvíkjandi New Deal, er gengu
á móti stjórninni, og afnámu mikinn
hluta af lögunum, enda er meiri hluti
dómaranna stjórnarandstæðingar. Með-
an hæstiréttur er skipaður eins og hann
er nú, er ómögulegt að breyta lögunum
að ráði, en hinir afturhaldssömustu af
dómurunum eru nú allir yfir 70 ára
gamlir, og er því möguleiki til, að nýir
komi í staðinn, áður en langt líður.
Þar sem miklum hluta af New Deal
var kollvarpað af hæstarétti, má það
teljast mjög hæpið, að það beri að skoða
valdatöku Roosevelts, sem nokkra bylt-
ingu eins og hann sjálfur vill vera láta.
En þó standa ýmis af þessum lögum
ennþá óhögguð, svo sem tryggingalögin,
bankalögin og lögin um réttindi verka-
mannafélaganna, og má því með réttu
segja að Roosevelt hafi beint pólitík
Bandaríkjanna inn á nýjar brautir, og
þótt aðgerðlr hans séu ekki sérlega rót-
tækar eða leysi vandamálin til fulls, þá
bjóst þó enginn við því einu ári áður,
en að hann tók völdin, að neinar slíkar
aðgerðir væru mögulegar. Áður en
Roosevelt kom til valda, höfðu menn
almennt ekki hugmynd um að hér væri
um neinn sérstakan afburðamann að
ræða. Menn kusu hann vegna þess að
hann krafðist stórvægilegra aðgerða til
að leysa úr vandræðunum, og menn
vonuðu að hann mundi gera eitthvað,
án þess þó að hafa sterka trú á honum.
En eftir að hann tók völdin hefir álit
hans stöðugt farið vaxandi vegna hinnar
miklu atorku, sem hann hefir sýnt, eink.
um þó vegna þess, að hann hafði hug
og dug til að framkvæma aðgerðir, er
áttu sinn mikla þátt í að bjarga landinu
úr þeim vandræðum, er steðjuðu að því
um það leyti, sem hann tók við stjórn-
inni.
Árið 1936 fóru fram forsetakosning-
ar og kosningar til sambandsþingsins,
og átti þjóðin nú að taka afstöðu til
stjórnmálastefnu Roosevelts. Við þessar
kosningar lýsti hann því yfir, að stefna
sín væri sú sama og áður, og væri það
ætlun sín að halda áfram með New
178
Deal. Við þessar kosningar voru lín-
urnar milli flokkanna dregnar miklu
skarpara upp en áður, því oft hefir verið
erfitt að finna muninn á stefnu þeirra.
Bak við andstöðuflokk Roosevelts, Re-
publieana, stóðu flestir mestu auðkýf-
ingar ríkjanna. Voru þeir hræddir við,
að lagðir yrðu á þá hærri skattar og
að ríkisvaldið mundi skerða frelsi þeirra
sem atvinnurekenda. En miðstéttin og
mikill hluti verkamanna studdi Roose-
velt, sem vann glæsilegan sigur, þótt
mótstöðumenn hans hefðu óþrjótandi fé
og umráð yfir meiri hlutanum af öllum
áróðurstækjunum. í kosningabaráttunni
taldi Roosevelt sig vera fulltrúa fjöld-
ans og að hann berðist fyrir því, að
frelsa þjóðina undan áþján auðkýfing-
anna (hinna ökonomisku royalista) eins
og frelsishetjurnar fyrrum hefðu frelsað
landið undan kúgun konungsvaldsins.
Sína stefnu taldi hann þá einu, er stæði
i samræmi við sögðulega þróun ríkj-
anna. Kom það greinilega í ljós, að hann
er enginn byltingamaður, en hefir á-
kveðnar framfarahugsjónir og djúpan
skilning á þjóðfélagsmálum. En fyrst og
fremst er hann ákaflega slyngur stjórn-
málamaður, sem alltaf ekur seglum eft-
ir vindi og gengur ekki lengra en honum
er óhætt.
Síðan þessar kosningar fóru fram
hefir Roosevelt orðið að hafa fremur
hægt um sig, þar sem tímarnir eru allt
aðrir en þegar hann kom til valda 1933.
Þótt tala atvinnuleysingja skipti alltaf
mörgum miljónum, þá er þó ennþá ó-
mögulegt fyrir sambandsþingið og
stjórnina að gera nokkrar verulegar um-
bætur þeim til bjargar. Og óhugsandi er,
að ríkið ráðist í það í náinni framtíð
að taka undir sig fyrirtæki, sem rekin
eru í þágu almennings. Bæði er and-
staðan á móti því afar mikil, og svo
kostar það ógrynni fjár að kaupa þau
af eigendunum. Járnbrautirnar ein-
ar eru t. d. virtar á 23 miljarða dollara.
Það er engum efa bundið, að það er
ætlun Roosevelts að breyta stjórnar-
skránni og fá sambandsþinginu í hend-
ur löggjafarvaldið á öllum sviðum og