Rökkur : nýr flokkur - 01.06.1978, Blaðsíða 74
72
unni hún Huldubrandi og treysti þó sakleysi sínu, enda höfðu þau
aldrei játast ástum sín í millum; hún átti ekki heldur í annað hús
að venda. Hafði fiskimaðurinn gamli fengið boð frá riddaranum
um það, að Bertalda væri hjá honum, og skrifaði hann honum
aptur næsta ólæsilegt bréf; það var svolátandi:
„Eg er orðinn ekkjumaður, því kona mín elskuleg er dáin. Þykir
mér raunar tómlegt að sitja alltaf aleinn í kofa mínum, en þó vil
eg heldur að Bertalda verði kyrr hjá yður. Bara að hún ekki geri
Úndínu minni neitt til meins, því þá skal mín bölvun bitna á henni“.
Það var einhvern dag, er Huldubrandur var riðinn út, að Úndína
kallaði saman hjú sín; lét hún sækja stóra hellu og skipaði þeim
að byrgja brunninn, sem var í miðjum hallargarðinum. Færðust
þau undan og sögðu að þá yrði ærið lángur vegur að sækja vatn
fram í dalinn. Þá brosti Úndína með raunasvip og mælti: „Mig
tekur sárt til ykkar, börn mín! en þó eg ætti sjálf að bera vatns-
föturnar heim, þá verður að byrgja brunninn, því ekki tjáir annað“.
Urðu hjúin þá fegin, að þau gátu gert húsmóður sinni svo mikið
að skapi, og voru allar hendur á lopti til að velta hellunni; barst
hún einsog sjálfkrafa milli þeirra, en rétt sem hún átti að síga
ofan að brunninum, kemur Bertalda hlaupandi og býður þeim að
hætta; sagðist hvergi fá annað eins vatn og úr þessum brunni og
væri það sér til mestu hörundsbótar. En Úndína mótmælti henni
og fór sínu fram. „Sjáið“, sagði Bertalda harmsfull, „sjáið hversu
vatnið tárhreint ýfist og sortnar! því gremst að það verður byrgt
fyrir blessaðri sólinni og andlitsfegurð mannanna, sem það var
skapað til að spegla“. Enda var einsog ólga hlypi í vatnið niðri í
brunninum og krakkaði undir; herti Úndína þá á hjúunum að
hleypa hellunni fyrir, en þau höfðu gaman af því í einu að hlýða
Úndínu og þrjózkast við Bertöldu. Þegar hellan var lögð yfir
brunninn, laut Úndína ofan að henni hugsandi og fór um hana með
fingrum sínum; það hefir tekið vel á, sem hún hafði í hendi sér,
því þegar hún var farin og hitt fólkið leit á helluna, sáust á henni
kynlegir stafir, sem ekki höfðu verið fyrr.
Þegar riddarinn var kominn heim um kvöldið, kvartaði Bertalda
grátandi undan háttalagi Úndínu. Hann leit til hennar með þykkju
svip, en hún sagði með stillingu: „Eiginmaður minn og herra dæmir
engan af þjónum sínum, svo að hann ekki heyri fyrst málstað hans,