Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Page 23

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Page 23
2. tbl. 97. árg. 2021 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 23 ,,Reynslan hefur sýnt sig að handleiðsla skiptir máli fyrir starfsfólk til að takast á krefjandi verkefni og koma í veg fyrir kulnun í starfi.“ fyrir að skoða og vill tala um. Ég sem handleiðari hlusta og kem síðan með endurgjöf, einhverjar hugmyndir, einhver verkfæri inn í samtalið, sem þá vonandi nýtist viðkomandi handleiðsluþega. Það sem handleiðsla felur í sér er að þú ert alltaf að skoða sjálfsímyndina þína. Þú ert að skoða hvaðan þú kemur og skoða hliðstæð ferli, sem eiga sér oft orsakir og rætur í fortíðinni, og eru að keyra einhver viðbrögð sem þú ert að sýna í dag. Flestir sem koma til mín eru í krefjandi starfi hvort sem það tengist stjórnun starfsmanna eða umönnun skjólstæðinga og oft í yfirþyrmandi, streituvekjandi aðstæðum. Þannig er fókusinn oft til að byrja með, eins og í áfallafræðunum í dag, á að draga sem mest úr spennu og skoða hvar þolmörkin þín liggja. Þú byrjar á að kortleggja, vinna úr upplýsingum, tengja og setja á rétta staði og færa svo út kvíarnar. Handleiðslan getur þannig verið vettvangur til að hjálpa fólki að komast aftur inn í þolmörkin sín og til grundvallar liggur efling á sjálfsmeðvitund, sjálfstrú og styrkleikum. Oftast er handleiðslan að fókusera á vinnusvæðið þitt eða vinnusjálfið en óhjákvæmilega skarast þetta oft mikið við einkasjálfið, það sem fólk er að upplifa persónulega í sínu einkalífi. Í handleiðslu ertu að nota þekkinguna þína. Þú ert staddur einhvers staðar og ert með einhverjar pælingar og þú færð tækifæri til að víkka út það sem þú ert að hugsa um. Auðvitað getur það alveg eins verið eitthvað jákvætt frekar heldur en að það sé alltaf eitthvað að. Þú þarft að vera tilbúinn til að fara inn á við, að skoða sjálfan þig og stundum er fólk tilbúnara til þess ef það er í krísu eða finnur eitthvað trufla daglegt líf. Þá er fólk oft tilbúnari að fara meira inn á við og fá aðstoð við að leysa úr því sem það er að takast á við,“ segir Unnur. Hún bætir við að þegar hún byrjaði í handleiðslu- náminu hafi verið gerður greinarmunur á samtals- meðferð og handleiðslu og segir að margt sé klárlega sameiginlegt. ,,Það sem er mikilvægt er að þú hafir viðeigandi hugmyndafræði, þekkingu og þjálfun og vitir á hvaða svæði þú ert að vinna með viðkomandi sem handleiðari eða meðferðaraðili.“ Hvaða ástæðu þarf maður að hafa til að sækja um að fara í handleiðslu? ,,Ástæðan getur til dæmis verið sú að það er eitthvað sem truflar þig, þú vilt skoða sjálfan þig aðeins betur og fá tækifæri til þess að fá nýja sýn, eða þú vilt kryfja eitthvað til mergjar, og fá tækifæri til að læra meira. Handleiðsla getur líka verið tækifæri til að efla styrkleika, fá staðfestingu á því að þú ert á réttri leið.“ Hvert er hlutverk handleiðara? ,,Ég myndi segja að hlutverk handleiðara sé að mynda traust og skapa vettvang til þess að sá sem sækir handleiðsluna geti komið með sín viðfangsefni inn í samtal. þú ert að bjóða viðkomandi velkominn og þetta er alltaf samvinna. Fólk þarf að upplifa að þú hafir einlægan áhuga á því að verða að liði og að þú hafir áhuga á því sem viðkomandi er að segja. Bæði það sem er truflandi og viðkomandi vill skoða hjá sjálfum sér, eða í þeim verkefnum sem viðkomandi er að sinna. Þetta er þematengt. Þú kemur ekki í handleiðslu þar sem handleiðari segi þér um hvað þú átt að tala. Þú sem handleiðsluþegi verður að koma með það. Handleiðari og handleiðsluþegi kynnast í fyrsta tímanum og ef grundvöllur næst fyrir samvinnu koma fram aðalatriðin sem viðkomandi vill ræða í handleiðslunni og svo þróast það í samtalinu. Handleiðsla er vettvangur til að heyra sjálfan þig tala um það sem skiptir máli fyrir þig; hafa vetttvang til að ræða það og fá endurgjöf á umræðuefnið sem skiptir þig máli. Þú getur svo fengið hugmyndir, leiðbeiningar og tilvísanir í einhvers konar lausnir sem þú hefur áhuga á að samþykkja eða vísa frá. Það er bara opið. Handleiðsla á að vera styðjandi og öruggt svæði fyrir þetta samtal.“ Hverjir þurfa á handleiðslu að halda? ,,Flestir geta nýtt sér handleiðslu. Alls staðar í starfi, til dæmis innan spítala þar sem er mikið álag, miklar kröfur og flókin vandamál og verkefni sem fólk er að glíma við, og þarf stuðning með. Bæði í tengslum við veikindi sjúklinga en líka varðandi samskipti innan fagstétta, teyma og almennt í starfi. Ég er til dæmis oft að handleiða hjúkrunarfræðinga sem eru að byrja í starfi á mínum vinnustað (BUGL). Við erum oft með flókin og þung mál og oft verður erfitt. Þá er handleiðsla vettvangur til að losa spennu, sortera sjálfan sig og finna út úr ýmsum málum. En nálgunin er ólík eftir því hvort þú ert að handleiða nýútskrifaða hjúkrunarfræðinga, sem eru að byrja í sínu starfi, þar sem fókusinn er meira á fagímyndina, eða hvort þú ert að handleiða einhvern sem er með mikla fagþekkingu og áralanga reynslu. Þetta er fjölbreytt og handleiðsla getur bæði verið fyrir einstaklinga og hópa. Við höfum til dæmis lengi verið með vikulega hóphandleiðslu í Fjölskyldumeðferðarteymi BUGL. Einnig hefur verið handleiðsla fyrir teymi spítalans á hinum ýmsu deildum. Á BUGL hafa einnig verið að þróast, síðustu 15 árin, á landsvísu samráðsteymi í heimabyggð sem eru innan heilsugæslu, félagsþjónustu, barnaverndar og skóla. Þar má líka segja að fagfólk okkar sé með ákveðna handleiðslu; á vinnubrögð, á mál og fleira.“ Handleiðsla

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.