Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Qupperneq 45
2. tbl. 97. árg. 2021 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 45
Hvað varð til þess að þú ákvaðst að sækja um
nám í hjúkrunarfræði á sínum tíma?
,,Þegar ég var í 10.bekk var boðið upp á
starfskynningu og ég valdi að fara á sjúkrahúsið
á Ísafirði og var þar í tvo daga. Mér fannst
spítalaumhverfið mjög spennandi og gaman að
vinna með skjólstæðingunum. Ég valdi því að fara í
sjúkraliðanám sem ég kláraði 19 ára gömul árið 2006.
Í framhaldinu fór ég að vinna á Heilbrigðisstofnun
Norðurlands á Húsavík en mér fannst ég samt
hvergi nærri búin með mína menntagöngu svo það
lá beinast við að hefja nám í hjúkrunarfræði við
Háskólann á Akureyri sem ég kláraði árið 2012.“
Hvernig fáum við fleiri karlmenn í
hjúkrunarfræði?
,,Ég held að áframhaldandi fræðsla um starfið og
fjölbreytileikann sem það hefur upp á að bjóða muni
skila sér á endanum. Því miður er hjúkrunarstarfið
oft of mikil tölvuvinna og skráning, að mínu mati.
Þótt það sé mikilvægt þá tel ég að meiri „hands
on“ hjúkrun og samskipti við skjólstæðingana
myndi auka áhuga á starfinu. Auk þess tel ég starf
hjúkrunarfræðinga ekki metið að verðleikum með
tilliti til launa, þegar launin verða betri munum við sjá
fleiri karlmenn í okkar stétt.“
Hver var aðdragandinn að því að þú fórst í
sjúkraflutningar?
,,Þegar ég starfaði á Heilbrigðisstofnun Norðurlands
Húsavík frá árinu 2007 til 2018 var ég fyrst beðin um
að prófa að taka nokkrar vaktir á sjúkrabíl og það
má segja að ég hafi strax fengið brennandi áhuga.
Ég kláraði grunnmenntun í sjúkraflutningum og
starfaði á sjúkrabíl í hlutastarfi með vaktavinnu á
sjúkrahúsinu. Svo langaði mig í frekara nám en fann
ekkert sem hentaði mér í sérhæfingu í hjúkrun á
þeim tíma. Áhugi minn á utanspítalaþjónustu var
hvati til frekari menntunar á því sviði og því fór ég í
bráðatækninám, í Massachusetts í Bandaríkjunum,
sem ég kláraði árið 2018.
Hefur þú upplifað fordóma í starfi vegna kyns
þíns?
Já, pottþétt en ég get ekki nefnt eitthvað sérstakt
dæmi sem situr í mér. Það hefur orðið mikil fjölgun
á konum í sjúkraflutningum og dregið verulega
úr fordómum að mínu mati. Mér finnst besta að
vinna í blönduðum hópi og mikilvægt að ekki sé
verið að kyngreina einstaklinga heldur velja frekar
þann sem er hæfastur hverju sinni. Það má alltaf
gera betur samt og við sjáum vonandi fleiri konur í
stjórnunarstöðum innan sjúkraflutninga í framtíðinni
enda margar öflugar.“
Hvernig finnst þér hjúkrunarfræðimenntunin
nýtast í sjúkraflutningum?
,,Ég myndi segja að hjúkrunarfræðimenntun og
sjúkraflutningar væru eins og gin og tonic. Þetta
eru náskyldar greinar, þar sem hjúkrunarfræði
veitir djúpa og góða þekkingu á mjög breiðu sviði,
svo fer maður grynnra í ótal marga hluti á sviði
bráðaþjónustu og lærir að vinna mjög markvisst eftir
vinnuferlum í sjúkraflutningum. Þetta tvennt saman
skilar öflugri starfsmanni í báðum starfsgreinum.
Að vera hjúkrunarfræðingur í grunninn hefur
nýst mér afar vel í starfi á sjúkrabíl; þekking og
reynsla af störfum á bráðamóttöku og úti á landi
er sérstaklega dýrmæt. Ég tel að þetta tvennt fari
sérstaklega vel saman á landsbyggðinni þar sem
flestir sjúkraflutningarmenn eru hlutastarfandi, þá er
nauðsynlegt að halda sér vel við og það getur maður
gert í störfum inn á spítala. Þó svo flutningar séu færri
á landsbyggðinni þá veikist fólk þar og slasast alveg
jafn alvarlega, flutningar eru lengri og ekki fullbúin
bráðadeild í næsta nágrenni. Í þannig aðstæðum
reynir oft mikið á og þá getur reynsla og menntun
skipt máli.“
Langar þig að læra meira og þá hvað?
,,Held mig langi alltaf að læra eitthvað meira. Nú
þegar maður er orðin sjúkraliði, hjúkrunarfræðingur
og bráðatæknir er þá ekki bara læknisfræði næst?
Viðtal