Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Page 46
46 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 97. árg. 2021
Nei, veistu, þessi menntun sem ég hef opnar marga
möguleika og ég gæti bætt við mig sérhæfingu; bæði
sem hjúkrunarfræðingur og bráðatæknir. Mörg svið
eru mjög spennandi en núna vil ég fyrst og fremst
viðhalda þeirri færni og getu sem ég hef en ég stefni
alltaf hærra. Seinna á starfsævinni gæti ég hugsað
mér að sinna kennslu og einnig hef ég áhuga á
rannóknarvinnu sem tengist utanspítalaþjónustu á
Íslandi, það er lítið um slíkt en gæti svo sannarlega
nýst til að bæta þjónustuna.“
Í hverju felast mestu áskoranirnar í starfi þínu
sem sjúkraflutningamaður?
,,Þær geta heldur betur verið fjölbreyttar og krefjandi,
enda enginn dagur eins í sjúkraflutningum. Við
sinnum margvíslegum verkefnum en auðvitað erum
við fyrst og fremst boðuð út til að sinna veikum
og slösuðum. Skjólstæðingar okkar eru á öllum
aldri og ekkert tilfelli er eins. Umhverfið getur líka
verið áskorun; alls konar aðstæður á sjó og landi.
Það getur verið einn skjólstæðingur, það getur líka
verið hópslys. Oft á tíðum er fólk að upplifa sínar
verstu stundir þegar við komum á staðinn og því
fylgir oft mikil geðshræring, aðstandendur eru
jafnvel líka á staðnum og þurfa utanumhald. Þótt
við reynum að vera sem best undirbúin að öllu
leiti þá er það ekki alltaf nóg, erfið útköll eru stór
áskorun þar sem getur reynt verulega á andlegu
hlið okkar sjúkraflutningamanna. Það er mjög
misjafnt hvað hreyfir við fólki í þessu starfi og þá er
félagastuðningur og rétt úrvinnsla áfalla mikilvægur
þáttur.“
Hvað er það besta við starfið?
,,Það besta er þegar allt gengur upp; þegar við
komumst fljótt og örugglega á staðinn og náum að
skila skjólstæðingi okkar í betra ástandi á sjúkrahús
til frekari meðferðar. Maður upplifir líka mikið
þakklæti frá skjólstæðingum og aðstandendum sem
er alltaf góð tilfinning. Góðir samstarfsfélagar og
starfsandi er líka lykilatriði og gerir góðan dag enn
betri.“
Hvað gerið þið vinnufélagarnir til að efla
liðsandann?
,,Á Selfossi, þar sem ég starfa, er mjög öflugt og
skemmtilegt lið í sjúkraflutningum. Þeir sem eru á
vakt saman eyða óhjákvæmilega meiri tíma saman
og þá er nauðsynlegt að það sé gott samstarf og
góður andi til að allt gangi upp. Vaktirnar fara oft í
líkamsrækt saman, borða og vinna föst verk saman.
Svo eru haldnar verklegar æfingar og fræðslur þegar
tækifæri gefst til. Við höfum einnig gert okkur glaðan
dag, utan vinnutíma, með því að fara út að borða
saman, í leikhús eða bíó. Árshátíðir, jólahlaðborð,
ráðstefnur og þess háttar kemur vonandi sterkt inn
aftur eftir skrítna tíma.“
Að lokum; Hvar sérðu sjálfan þig eftir tíu ár?
,,Eftir tíu ár reikna ég fastlega með að vera áfram
starfandi í heilbrigðiskerfinu. Hver veit nema
sjúkraflutningar verði þá orðið eitt af sérsviðum
innan hjúkrunar. Draumurinn væri að flétta þessar
starfsgreinar meira saman og geta verið að hluta til
starfandi á sjúkrabíl og inn á spítala að hluta, eins
og er gert í löndum víða í kringum okkur. Eftir tíu ár
verða svo vonandi sjúkraþyrlur á sveimi, góð rafræn
sjúkraskráning, uppfærðir vinnuferlar og hágæða
utanspítalaþjónusta hér á landi. Á sumum sviðum
erum við en þá í torfkofum miða við önnur lönd.
Það má allavega segja að það séu ótal spennandi
möguleikar í boði með þessa menntun sem ég hef og
ég ætla að klárlega að nýta mér það í framtíðinni.“
„Mér finnst besta að vinna í blönduðum hópi og
mikilvægt að ekki sé verið að kyngreina einstaklinga
heldur velja frekar þann sem er hæfastur hverju
sinni.“
Viðtal