Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Blaðsíða 59
2. tbl. 97. árg. 2021 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 59
Laun eru alltaf til umræðu þegar kemur að hjúkrunar-
fræðingum og umönnunarstéttum almennt hjá ríkinu sem og
álag og kulnun í starfi. Sandra B. Franks, stjórnarmaður í BSRB
og formaður sjúkraliðafélags Íslands, kemst svo að orði:
Vandi spítalans á undanförnum árum hefur ekki
síst verið skortur á heilbrigðisstarfsfólki, sér í lagi
sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum. Aukið álag og
launaskerðingar verða ekki til að bæta þann vanda.
Eðlilegra væri að leita allra leiða til að draga úr álagi og
bæta kjörin til að fjölga í þessum mikilvægu fagstéttum
(Sjúkraliðafélag Íslands, 2019).
Það er áhyggjuefni hve mikið brottfall er í hópi starfandi
hjúkrunarfræðinga og hve margir horfa til annarra starfa utan
heilbrigðiskerfisins (Cheval o.fl., 2019). Nauðsynlegt er að gera
vinnuumhverfið meira heillandi, draga úr álagi í starfi og leita
markvisst uppi þá þætti sem skapa óánægju til þess að geta
bætt úr þeim. Mannauðurinn er mikilvægur og ef stofnanir
missa út úr kerfinu fólk með mikla reynslu tekur bæði tíma og
kostar peninga að fjárfesta í nýjum starfsmönnum.
Margar einingar hafa síðustu ár glímt við mönnunarvanda
og nú eftir 1. maí, þegar stytting vinnuvikunnar tekur gildi,
má vænta þess að enn meira gap komi til með að myndast
sem erfitt verður að fylla. Er það mat stjórnenda að erfitt
verði að ráða fólk þar sem umsóknir undanfarin misseri hafa
oft og tíðum verið fáar og jafnvel engar. Á 16 rúmadeild á
Landspítalanum er staðan ekki vænleg. Fullmannað er 16,1
stöðugildi en er í dag mönnun í 12,1 stöðugildi. Mætti því
strax í dag ráða inn 4 hjúkrunarfræðinga í 100% starf. Svipaða
sögu er að segja af fleiri deildum innan Landspítalans og
heilbrigðisstofnunum á landinu (Gerður Beta Jóhannsdóttir,
munnleg heimild, 28. apríl 2021).
Stjórnvöld verða að stuðla að því að heilbrigðisstofnanir
landsins séu samkeppnishæfar þegar horft er til starfskrafta
hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta. Þetta er
stórt og ærið verkefni. Starfshópur, sem heilbrigðisráðherra
skipaði, hefur skilað tillögum um betri menntun og
mönnun heilbrigðisstétta sem mikilvægt er að fara vel
yfir til þess að stuðla að vel mannaðri heilbrigðisþjónustu
(Heilbrigðisráðuneytið, 2020a).
Heilbrigðisáætlun stjórnvalda er sett fram sem leiðarvísir í
átt að bættu heilbrigðiskerfi Íslendinga. Ábyrgðin um faglega
mönnun innan heilbrigðiskerfisins liggur hjá stjórnendum
stofnana, en stjórnvöld bera ábyrgð á að háskólar landsins
séu í stakk búnir og hafi nægilegt bolmagn til að útskrifa
þann fjölda heilbrigðisstarfsmanna sem samfélagið þarfnast.
Eftir nokkurra ára bið eftir aðgerðum af hendi stjórnvalda
varð úr faghópur til að setja saman áætlun og tillögur um
hvernig megi fjölga útskrifuðum hjúkrunarfræðingum. Þar er
gert ráð fyrir fjölgun nemanda næstu árin, samhliða auknu
fjármagni til háskólanna. Geta þeir því nýtt fjármagnið til
að styrkja innviði og bæta í kennslu innan sem utan skóla.
Námsvettvangur hjúkrunarfræðinga er um allt land á hinum
ýmsu stofnunum. Staðreyndin er þessi, ekki er nægilegt
framboð af hjúkrunarfræðingum. Starfsálag á þá er mikið og
vinna þeir oft umfram vinnuskyldu sína. Þetta eykur hættu á
skertri starfsánægju, kulnun og verri þjónustu. Ef marka má
rannsóknir er þessi vandi ekki á undanhaldi.
Aukinn fjöldi sjúklinga, sem hver hjúkrunarfræðingur þarf
að sinna, veldur því að afdrif sjúklinga eru ekki eins góð,
alvarleg atvik og dánartíðni þeirra vegna legu á sjúkrahúsi
hafa aukist. Því eru hjúkrunarfræðingar lykilstarfsmenn
þegar horft er til öryggis sjúklinga. Eins og staðan er í dag er
heilbrigðiskerfið komið að þolmörkum hvað þetta varðar og
með auknum fjölda alvarlegra atvika, hjúkrunarfræðinga sem
telja sig óörugga og hafa ekki undan að sinna starfi sínu eins
og þeim þykir boðlegt er erfitt að segja að öryggi á íslenskum
heilbrigðisstofnunum sé tryggt. Þeir sem starfa á gólfinu gera
allt sem þeir geta til að ná því besta fram í viðvarandi vítahring
manneklunnar. Núverandi ástand eykur hættu á alvarlegum
mistökum.
Áhugavert verður að sjá hvort það næst að framfylgja
heilbrigðisstefnunni sem gildir til ársins 2030, þar sem ábyrgð
er lögð á lykilstarfsmenn innan heilbrigðiskerfisins. Einnig þarf
að hlúa að starfsfólki þegar miklar breytingar eiga sér stað eins
og heilbrigðisáætlunin gerir ráð fyrir á komandi árum. Miklar
breytingar urðu á vinnutíma með styttingu vinnuvikunnar nú í
upphafi árs 2021 og verður ærið verkefni fyrir stjórendur að að
tryggja viðunandi mönnun miðað við nýjar forsendur. Skortur
á viðmiðum og mælikvörðum varðandi lágmarksmönnun eða
viðunandi mönnun gerir það að verkum að verkefnið að bæta
mönnun verður heldur óáþreifanlegt og fljótandi. Það stendur
hvergi í lögum eða reglum hversu mikið er nóg eða hvaða
atriði séu höfð til hliðsjónar við það mat.
Við búum við þann veruleika að það er skortur á hjúkrunarf-
ræðingum. Á meðan svo er þurfum við ef til vill að endurhugsa
starfsumhverfi þeirra samhliða breyttu vinnufyrirkomulagi
og nýrri tækni. Góð þverfagleg samvinna milli fagstétta er
mikilvæg því hún eykur árangur og starfsánægju. Skortur á
starfandi hjúkrunarfræðingum eykur þörfina á að nýta réttu
starfsmennina á réttum stað þannig að fagleg nálgun verði
sem best og sjúklingar fái bestu mögulegu umönnun. Það er
engum hjúkrað ef enginn hjúkrar.
LOKAORÐ
Fræðigrein