Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2021, Qupperneq 75
2. tbl. 97. árg. 2021 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 75
Sálræn áföll og heilsufarslegar afleiðingar
Fæstir komast í gegnum lífið án áfalla og talið er að um 70% fólks verði fyrir að minnsta kosti
einu alvarlegu áfalli á lífsleiðinni (Kessler o.fl., 2017). Flestir sem verða fyrir áföllum finna fyrir
andlegri vanlíðan sem lagast oftast með tímanum. Verði einkenni viðvarandi í marga mánuði
eða ár getur viðkomandi þróað með sér áfallastreituröskun (e. Post Traumatic Stress Disorder,
PTSD) (World Health Organization (WHO), 2019) sem gerist í um 8% tilfella (Kessler o.fl., 2017).
Helstu einkenni áfallastreituröskunar eru að endurupplifa atburðinn ítrekað, svefntruflanir,
martraðir, sektarkennd, sjálfsásakanir, reiði, að forðast það sem minnir á atburðinn, tilhneiging
til að einangra sig og kvíði (WHO, 2019). Áföll á unga aldri og endurtekin áföll geta aukið líkur
á áfallastreituröskun (Kessler o.fl., 2017). Áföll af mannavöldum, eins og nauðgun, ofbeldi
og einelti, geta enn frekar aukið þá hættu (Wamser-Nanney og Vandenberg, 2013). Viðbrögð
fólks við áföllum eru einstaklingsbundin og eru ýmsir þættir taldir hafa áhrif þar á, svo sem
persónugerð, erfðir, umhverfisþættir, aldur og fjöldi áfalla (Hornor, 2015; Kessler o.fl., 2017).
Streituvaldandi atburðir og langtímastreita geta haft djúpstæð áhrif á ónæmisviðbrögð
líkamans og þannig leitt til heilsubrests og skertra lífsgæða. Bólgur eiga þar stóran hlut
að máli því rannsóknir sýna að áfallastreituröskun ásamt kvíða og þunglyndi geta aukið á
bólgumyndun í líkamanum sem aftur eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, alzheimer-
sjúkdómi, sykursýki af gerð 2, liðagigt og húðsjúkdómum eins og sóra (Hagström o.fl.,
2018; Yan, 2016). Hafi einstaklingur orðið fyrir áföllum í æsku er áhættan enn meiri (Danese
og Lewis, 2017). Einnig er aukin hætta á að fólk með áfallastreituröskun reyki og misnoti
vímuefni og slík hegðun getur síðan ýtt undir hættuna á að fá aðra sjúkdóma (Bryan, 2019).
Margir langvinnir sjúkdómar eru að uppruna bólgusjúkdómar og þróast á mörgum árum, s.s.
sjálfsónæmissjúkdómar, iktsýki og hjarta- og æðasjúkdómar. Það gerir þá sem orðið hafa
fyrir sálrænum áföllum mun berskjaldaðri fyrir slíkum sjúkdómum (Yan, 2016). Niðurstöður
íslenskrar fyrirbærafræðilegrar rannsóknar sýna, að fólk með iktsýki telur mikla streitu vegna
áfalla, eins og hjónabandserfiðleika, álags í vinnu og niðurbrjótandi samskipta, hafa leyst
iktsýkina úr læðingi (Sigríður Jónsdóttir og Sigríður Halldórsdóttir, 2008).
Sálræn áföll af völdum vanrækslu í æsku og líkamlegs eða andlegs ofbeldis sem og kynferðis-
ofbeldis geta valdið tilfinningalegri vanlíðan og sjúkdómum á borð við kvíða, þunglyndi, fælni,
áfallastreituröskun og andlegri örmögnun. Einstaklingarnir kljást við erfiðar tilfinningar á
borð við skömm, reiði og tilfinningu um að vera einskis virði. Auk þess getur slíkt ofbeldi haft
í för með sér ýmis líkamleg einkenni, svo sem magabólgur, mígreni, offitu, verki, gigt og fleiri
stoðkerfisvandamál (Sigríður Hrönn Bjarnadóttir o.fl., 2014). Þeir sem verða fyrir áföllum á
barnsaldri eiga einnig frekar við skapgerðarbresti að stríða á fullorðinsárum (Stinson o.fl., 2016;
Wamser-Nanney og Vandenberg, 2013).
Rannsókn Hagenaars og samstarfsmanna (2011) á því hvort fjöldi áfalla skipti máli eða það
hvort áfall átti sér stað í æsku eða á fullorðinsárum sýnir að einstaklingar geta þróað með sér
þunglyndi og aðra andlega kvilla óháð fjölda áfalla og aldurs við áfallið. Þeir sem höfðu orðið
fyrir mörgum áföllum fundu frekar fyrir sektarkennd, skömm, reiði, einangrun og viðkvæmni
en þeir sem höfðu orðið fyrir einu áfalli. Eins beindist reiði þeirra sem höfðu orðið fyrir mörgum
INNGANGUR
„Þetta breytti lífi mínu“
Reynsla fólks af
dáleiðslumeðferð við
afleiðingum sálrænna
áfalla
Ritrýnd grein | Scientific paper
Höfundar
MARÍA ALBÍNA TRYGGVADÓTTIR
Verkmenntaskólinn á Akureyri
SIGRÚN SIGURÐARDÓTTIR
Háskólinn á Akureyri
ÞORBJÖRG JÓNSDÓTTIR
Háskólinn á Akureyri