Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2023, Side 25
1. tbl. 99. árg. 2023 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 25
stundir í lífi fjölskyldu og það að vera til staðar er
það mikilvægasta í báðum tilfellum, útskýrir Dóra
hugsi. En hvaða áskoranir reyndust þér erfiðastar?
„Þegar maður sem hjúkrunarfræðingur upplifir að
maður sé ekki sáttur við þá meðferð eða nálgun
sem beitt er, að hægt væri að gera betur. Þá á ég til
dæmis við varðandi einkennameðferð sjúklings og
samtal við sjúkling og fjölskyldu hans. Það eru mjög
margar áskoranir, ósáttar fjölskyldur og ósætti innan
fjölskyldna skjólstæðings. Einnig er gífurlega erfitt
að horfa upp á það þegar sjúklingar eru með mikil og
erfið einkenni s.s. verki, ógleði eða kvíða, sérstaklega
ef sjúklingurinn afþakkar lyf og aðra aðstoð. Í dag
er hægt að verkjastilla sjúklinga betur en áður, en
það getur líka verið áskorun að fá sjúklinga til að
samþykkja verkjameðferð. Sjúklingar sem eru í
afneitun varðandi hlutskipti sitt og glíma við vanlíðan
er erfitt að horfa upp á.“
Dóra segir að þegar krabbameinssjúklingar nálgist
lokastig sjúkdómsins verði þeir oft sljóir, sofi mikið
og tjái sig minna. Þess vegna finnst henni svo
mikilvægt að taka „samtalið“ um leið og sjúklingur
greinist með ólæknandi krabbamein. „Þá getur
sjúklingur fengið tækifæri til að tjá sig, hvað hann
vill gera við tímann sem er eftir, einnig varðandi
meðferðarúrræði og annað sem skiptir hann máli.
Ættingjar geta þá sömuleiðis undirbúið sig og notað
tímann með ástvininum.“ Dóra svarar aðspurð að
hún myndi frekar vilja vita ef hún væri deyjandi
en að deyja skyndidauða. „Þegar ég var ung hefði
ég valið skyndidauða en í dag myndi ég vilja vita
það og geta undirbúið mig og fjölskylduna. Ræða
hlutina áður en ég fer. Ég held að þegar fólk er
bráðkvatt sé sorgarferlið oft erfiðara, fólk hefur
ekki tíma til að kveðja og tækifæri til að gera upp
hluti sem eru óuppgerðir. Auk þess fá aðstandendur
oft minni stuðning þegar ástvinur er bráðkvaddur.
Sorgarsamtök eru mikilvæg í þessu samhengi því
að sorgarúrvinnsla skiptir svo gríðarlega miklu
máli fyrir líðan og heilsu. Þar langar mig að nefna
Sorgarmiðstöðina, sem sinnir fræðslu og ráðgjöf til
syrgjenda og þeirra sem vinna að velferð syrgjenda.
Það er oft gott að hitta fólk sem hefur gengið í
gegnum svipaða reynslu. Ég sá gjarnan á setustofunni
á líknardeildinni að ættingjar sjúklinganna tengdust
og fóru að spjalla. Þeir sýndu hver öðrum umhyggju,
enda aðstæður viðkvæmar og svipaðar hjá báðum
fjölskyldum. Þetta er dýrmætt.“
Manneklan lýjandi
Hvað er það eftirminnilegasta sem þú hefur gert
sem hjúkrunarfræðingur eða ljósmóðir? „Það
sem er svo æðislegt við hjúkrun er hvað hún er
fjölbreytt, það er hægt að starfa svo víða. Ég hef
unnið við ljósmæðrastörf, glasafrjóvgun, við
kennslu, á öldrunardeild, í heimahjúkrun og svo
lengst af við hjúkrun krabbameinssjúklinga. Ég
var deildarstjóri á líknardeildinni í Kópavogi í 11
ár. Það að vera deildarstjóri getur verið ákaflega
lýjandi, sérstaklega hvað manneklu varðar. Ég
hætti sem deildastjóri þegar komið var að því að
endurnýja ráðninguna mína í annað sinn. Mér fannst
þetta orðið gott og langaði að enda starfsferilinn í
almennri hjúkrun. Þaðan fór ég til baka á bráðadeild
að sinna sjúklingum með blóðsjúkdóma, á deild
11 G, sem núna er orðin aftur að krabbameins- og
blóðlækningadeild eins og þegar ég byrjaði að
hjúkra krabbameinssjúklingum á Íslandi árið 1996.
Núna er deildin bara stærri. Þá var markmiðið að
minnka deildareiningarnar en núna er verið að
sameina og stækka deildir. Mér hefur alltaf fundist
vinnufélagarnir skipta miklu máli, að það sé góður
andi, gott samstarf og teymisvinna. Mér hefur líka alla
tíð fundist skemmtilegast að vinna með sjúklingum.“
Við látum þetta verða lokaorðin og kveðjum frábæran
viðmælanda.
„Mig hafði lengi langað til að starfa við
líknarhjúkrun og beið eftir að líknardeildin
yrði opnuð, áhugi minn og ástríða lá þar.“
Myndin er tekin í
Pýreneafjöllunum.