Ársrit um starfsendurhæfingu - 2024, Blaðsíða 39
VIÐTAL
Ef umsækjandi stenst lágmarkskröfur, er
með hreint sakavottorð, talar íslensku og
er eldri en 18 ára þá fær hann að prófa –
hann kemur þá og vinnur tvær vaktir og
í lok síðari vaktarinnar er tekin ákvörðun
um framhaldið. Hlutastörf henta einmitt
afskaplega vel fyrir þá sem eru að koma út
á vinnumarkaðinn á ný eftir endurhæfingu
og treysta sér ekki í fullt starf,“ segir Hákon.
Hve mikils vinnuframlags er krafist?
„Fólk þarf að mæta hér lágmark tvær vaktir
á viku og hver vakt er fjórir tímar. En lang-
flestir mæta oftar en það. Venjulega eykst
vinnuhlutfallið strax eftir fyrstu vikuna. Fólk
þarf eigi að síður að skila ákveðnu lágmarki
í mætingum en getur stýrt töluvert sjálft hve
margar vaktir það vinnur.“
Mest hringt út fyrir góðgerðarfélög
Hvers konar fyrirtæki er Símstöðin?
„Símstöðin annast úthringingar fyrir fyrir-
tæki og er í eigu Helga Más Haraldssonar. Ég
er sem sagt framkvæmdastjóri en vaktstjóri
er Linda Jónsdóttir. Helgi stofnaði þetta
fyrirtæki fyrir þrettán árum. Í upphafi var
mest hringt vegna blaðaáskrifta og til að
bóka fundi fyrir sölumenn hjá fyrirtækjum,
en starfsemin hefur í áranna rás þróast í að
sinna nú nær eingöngu úthringinum fyrir
góðgerðarfélög. Núna er bara örlítið um
úthringingar á vegum fyrirtækja sem sinna
viðskiptum.“
Er munur á eðli þjónustu milli fyrirtækja?
„Já. Þegar til dæmis hringt er fyrir góð-
gerðarfélög eru það bara einstaklingar
sem hringt er í en ekki fyrirtæki. En það er
allt breytingum undirorpið og ef óskir um
annars konar úthringingar berast okkur þá
sinnum við því. Þröskuldur inn í þetta starf er
í lægri kantinum og því er þetta ákjósanleg
vinna fyrir þá sem eru að feta sig út á
atvinnumarkaðinn á ný.
Þau sem komið hafa frá VIRK hafa reynst
góðir starfsmenn en höfðu ekki verið að
vinna í nokkurn tíma. Þau eru flest tilbúin
til að fara að vinna, mæta vel og eru alla
jafna tilbúin til að taka þátt í því félagslega
í kringum fyrirtækið. Mín tilfinning er sú
að það fólk sem kemur frá VIRK stoppi
lengur við í starfi hjá okkur en aðrir, það
hefur líka sérstaklega gaman af að kynnast
samstarfsfólkinu og fyrirtækinu.“
Nú segja ekki allir já sem hringt er í.
Hvernig fer það í þá sem eru að byrja hjá
ykkur?
„Við bendum okkar fólki á að menn séu ekki
að segja persónulega nei við viðkomandi
starfsmann og jafnvel ekki nei við málefninu.
Þetta snýst frekar um tímasetningu og
peningaráð. Við beitum því sem ég kalla
mjúka sölumennsku.
Góðgerðarfélögin leggja áherslu á að við
séum ekki ýtin í úthringingum heldur sýnum
kurteisi og þökkum fyrir samtalið þótt fólk
neiti. Það skiptir miklu máli. Sum félög eru
með séróskir, svo sem að láta ekki hringja í
fólk sem orðið er 75 ára.“
Hvernig eru þeir valdir sem hringt er í?
„Við erum með kerfi sem heitir Zenter og
starfsmennirnir hringja eftir því. Listar yfir þá
sem hringt er í eru yfirleitt unnir fyrir hvert
verkefni. Kennsla á Zenter-kerfi tekur um
tuttugu mínútur. Viðkomandi nýliði situr svo
yfirleitt við hliðina á öðrum sem er í sama
verkefni og getur þá leitað sér aðstoðar ef
þarf. Niðurstöður hvers símtals eru skráðar.
Margt af skóla- og íþróttafólki hefur unnið hjá
okkur. Ýmsir sem vinna hérna eru ekki á bíl
en það eru strætisvagnastöðvar í grenndinni
og þeir sem búa nálægt koma oft gangandi.“
Hringið þið út í hvaða aðstæðum sem er?
„Já almennt gerum við það. Við hringjum
út virka daga frá tíu á morgnana til sjö á
kvöldin. Nema á föstudögum þá hringjum
bara milli tíu og þrjú. Það reyndist ekki vel
að hringja seinnipartinn því þá eru margir
á fartinni. Við hikum þó við að hringja ef
eitthvað mikið er í gangi, svo sem HM í
fótbota eða Eurovision. Þá vill fólk ekki
láta trufla sig. Fyrst eftir að hörmungarnar
byrjuðu í Grindavík vildu góðgerðarfélög
ekki láta hringja í Grindvíkinga.“
Reynum að gæta þess að
góður árangur náist
Er þessi starfsemi með fyrirmynd
erlendis frá?
„Nei. Í rauninni ekki. Þegar Helgi Már stofn-
aði Símstöðina var hann með fáa starfsmenn
og þá var bara hringt fyrir nokkur fyrirtæki
og félög. Síðan hefur þetta undið upp á sig.
Nú eru hér að jafnaði um 40 starfsmenn en
starfsmannaveltan er jafnan mikil.“
Hvort er betra að hafa konur eða karla í
þessu starfi?
„Það er mismunandi eftir verkefnum. Það
reyndist til dæmis ekki vel að hafa karlmenn
til að hringja út fyrir Kvennaathvarfið. Mér
fannst í upphafi dálítið smart að láta karla
hringja fyrir þetta verkefni en varð fljótt
ljóst að það skilaði ekki góðum árangri. Auk
Kvennaathvarfsins hringjum við fyrir SOS-
barnaþorp, Parkinsonsamtökin, Hollvini
Grensásdeildar Landspítalans, Píetasam-
tökin, Amnesty, Happdrætti SÍBS og Ösp,
íþróttafélag fyrir fatlaða svo eitthvað sé
nefnt.“
Hvernig eru launin hjá ykkur?
„Við erum með lágmarkslaun út frá kjara-
samningi Félags atvinnurekenda og VR. Við
reynum að gæta þess að skila góðum árangri
fyrir þau félög sem við erum að vinna fyrir og
fylgjumst daglega með hvernig verkefnin
eru að þróast hverju sinni. Stundum gengur
mjög vel hjá einhverjum í verkefni en illa hjá
öðrum og þá færum við þann síðarnefnda til.
Starfsmenn hér þurfa að ná ákveðnu
lágmarki á klukkustund. Ef þeim tekst að
gera betur vinnur viðkomandi sér inn bónus.
Fólk veit því alltaf hvaða bónusgreiðslur
það er að fá fyrir hvern dag. Lagt er upp
með ákveðið handrit í samstarfi við
viðkomandi félag en starfsmenn hafa
eigi að síður nokkurt frelsi til að umorða
hluti svo framarlega sem þeir breyta ekki
upplýsingum. Ef einhver sem hringt er í vill fá
frekari upplýsingar þá bendum við á félagið
sjálft.“
Teljum Símstöðina hafa grætt á
samvinnu við VIRK
Hvernig er reynsla ykkar af starfsfólkinu
sem kemur frá VIRK?
„Það reynir að standa sig virkilega vel og
er oft, má segja, viljugra en aðrir að ná
árangri. Það er yfirleitt afskaplega ánægt að
vera komið inn á vinnumarkaðinn, komið í
starfsrútínu.
Í lífinu snúast hlutirnir stundum við – til mín
kom starfsmaður hér og kvaðst hafa frétt af
þjónustunni hjá VIRK í gengum starfsfélaga
þaðan. Viðkomandi átti í erfiðleikum og vildi
snúa sér til VIRK. Eftir vel heppnaða þjónustu
þar kom hann aftur hingað til starfa.
Sumir frá VIRK hafa farið héðan í hærra
starfshlutfall annars staðar, jafnvel í hundrað
prósent vinnu. Við teljum að Símstöðin hafi
grætt á þessari samvinnu við VIRK. Hún
hefur reynst vel.“
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason
39virk.is