Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Blaðsíða 7
Bjarki Þór Grönfeldt og Vífill Karlsson
7 ..
og nægði ekki til að ná fram marktækum áhrifum á heildarútgjöld sveitarfélagsins. Upphæð útsvars
og þjónusta sveitarfélagsins breyttist ekki við sameiningu.
Rannsóknir á sameiningum sveitarfélaga í Ástralíu (Drew og Dollery, 2014) – sem á það sam-
eiginlegt með Íslandi að vera landfræðilega stórt en dreifbýlt land – benda til þess að aukinn mann-
fjöldi eigi einn og sér ekki að vera hvati að sameiningu sveitarfélaga. Raunar sé fylgnin á milli
fjölda skráðra fasteigna og þjónustustigs sterkari en fylgnin á milli mannfjölda og þjónustustigs. Það
kemur á óvart en gæti tengst því að tölur yfir skráða íbúa séu ekki góðar og fasteignir endurspegli
betur þjónustugetu sveitarfélaga. Önnur áströlsk rannsókn (Drew o.fl., 2012) benti til þess að það
hagræði sem fjölmennari sveitarfélög í Ástralíu njóta umfram fámennari sveitarfélög skýrist fyrst og
fremst af afleiddum áhrifum af meiri þéttleika byggðar (e. population density). Með öðrum orðum
þá skapast hagræði af fleiri íbúum per ferkílómeter, frekar heldur en að stjórnsýslueiningin sem slík
hafi fleiri íbúa. Aukinn þéttleiki byggðar er sjaldnast sérstakt markmið sameininga og er oft ekki
viðeigandi þegar um er að ræða fámenn en landmikil sveitarfélög á Íslandi.
Það er þó ekki þar með sagt að hagræði í sameinuðum sveitarfélögum sé alltaf tálsýn. Stað-
bundnir og félagslegir þættir virðast hafa áhrif á hversu vel markmið sameininga nást. Rannsóknir
sýna að sveitarfélögum sem eru einsleitari (e. community homogeneity) við sameiningu farnist betur
(Garlatti o.fl., 2022). Í rannsókn á sameiningu sveitarfélaga í Bandaríkjunum og Taílandi (Lowatch-
arin o.fl., 2021) kom fram að sveitarfélögum, þar sem íbúar höfðu sambærilega tengingu (e. at-
tachment) og sjálfsmynd (e. identity) við sitt nærumhverfi, gekk mun betur að ná fram tilætluðum
markmiðum. Þetta kölluðu höfundarnir „kunnugleikaáhrif“ (e. familiarity effect): Sveitarfélög eru
því líklegri til að samþykkja sameiningu við annað sveitarfélag þar sem einhvers konar sameiginleg
sjálfsmynd er þegar til staðar. Sameining slíkra sveitarfélaga virtist skila sparnaði, aukinni skilvirkni
í stjórnsýslunni og bættri þjónustu við íbúa. Sameining við þær aðstæður skilar mögulega betri
árangri vegna þess að auðveldara er að innleiða breytingar í samfélögum sem eru áþekk hvað varðar
atvinnulíf og samfélagsgerð, eiga sögu um samstarf og samgangur hafi verið meðal íbúa í gegnum
tíðina (Lowatcharin o.fl., 2021). Er áhugavert að velta fyrir sér misjöfnum árangri af sameiningum
á Íslandi, t.d. gjörólíkri útkomu Dalabyggðar og Húnaþings vestra, út frá þessu sjónarhorni (Vífill
Karlsson, 2023). Það er til mikils að vinna að huga að félagslegum og jafnvel sálfræðilegum þáttum
við sameiningar, en svissnesk rannsókn (Silberstein og Soguel, 2012) komst að þeirri niðurstöðu að
samsömun borgaranna með sveitarfélaginu (e. citizen identification) minnkaði eftir sameiningu. Sú
hætta ætti að valda mönnum áhyggjum þar sem slík samsömun er einn sterkasti forspárþáttur lýð-
ræðislegrar og samfélagslegrar þátttöku (Richey, 2011).
Sem fyrr segir er viðfangsefni þessarar greinar að bera saman ánægju íbúa í dreifbýli sveitar-
félaga með sterkan þjónustukjarna annarsvegar og hins vegar hreinum dreifbýlissveitarfélögum.
Höfundar þessarar greinar vita ekki til þess að sambærileg rannsókn hafi verið framkvæmd hérlendis
eða erlendis. Á Íslandi eru nú þó nokkuð mörg sameinuð sveitarfélög þar sem dreifbýlissveitarfélög
hafa sameinast stærri bæ eða þjónustukjarna (t.d. Borgarbyggð, Húnaþing vestra, Vesturbyggð o.fl.).
Er því til nokkurs að vinna fyrir fræðasamfélagið og hagaðila, íbúa, ríki og sveitarfélög að rannsaka
hvernig slíkar sameiningar skila sér í þjónustu við íbúa í dreifbýlinu samanborið við íbúa í sambæri-
legu dreifbýli í sjálfstæðu sveitarfélagi.
Gögn og aðferðir
Gögn rannsóknarinnar fengust í íbúakönnunum landshlutanna sem framkvæmdar voru 2016, 2017
og 2020. Kannanirnar voru lagðar fyrir með sama hætti þessi árin. Byggðastofnun og öll landshluta-
samtök, nema Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, stóðu fyrir framkvæmd hennar árið 2020
en bara fimm landshlutasamtök stóðu að könnuninni 2016 og 2017. Byggt var á tilviljunarkenndu
úrtaki úr Þjóðskrá nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem þátttakendum var safnað með snjóboltaað-
ferðinni. Einnig var flestum innflytjendum safnað með snjóboltaaðferðinni. Haft var samband við