Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Page 94
„Beint flug er næs“: Svæðisbundin áhrif millilandaflugs frá Akureyri
94 ..
Reykjavíkur er þannig oft svipað eða jafnvel hærra en 3–4 klukkustunda flug með lággjaldaflug-
félagi frá Keflavík til Evrópu.
Tengingar innanlandsflugsins við millilandaflugið eru jafnframt lítt skipulagðar, tímafrekar og
kostnaðarsamar. Fyrstu innanlandsvélarnar lenda of seint á Reykjavíkurflugvelli til að hægt sé að
nýta morgunflug frá Keflavíkurflugvelli og það er undir hælinn lagt hvort komufarþegar síðdegis geti
náð síðasta innanlandsflugi dagsins. Þá er engin bein flugrúta milli Reykjavíkurflugvallar og Kefla-
víkurflugvallar og ekki er hægt að senda innritaðan farangur á milli þeirra. Icelandair hefur raunar
annað slagið boðið upp á tengiflug milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar, en með því skilyrði að
flogið sé áfram til útlanda með Icelandair. Því er ekki hægt að nýta ódýrari kosti í millilandafluginu
og verðlagning tengiflugsins hefur verið með svipuðum hætti og á öðrum flugleiðum innanlands.
Þetta skipulag flugsamgangna hefur jaðarsett svæðisbundna flugvelli og íbúa annarra landshluta
hvað millilandaflug varðar. Þar sem Keflavíkurflugvöllur er nánast eina gátt millilandaflugs er ferða-
þjónusta á suðvesturhorni landsins mun umfangsmeiri en í öðrum landshlutum, alþjóðleg samskipti
stofnana og fyrirtækja eru þar einfaldari og ódýrari og almenningi bjóðast mun betri tækifæri til að
ferðast milli landa í tengslum við vinnu, nám, frístundir og heimsóknir vina og ættingja. Þótt já-
kvæðra áhrifa millilandaflugsins gæti um land allt eykur staðsetning Keflavíkurflugvallar jafnframt
forskot suðvesturhornsins gagnvart öðrum landshlutum. Akureyri og Egilsstaðir eru til dæmis ívið
nær meginlandi Evrópu en Keflavík en ferðatíminn er samt 1–2 sólarhringum lengri og kostnaður
mun meiri.
Frá árinu 1982 hafa fjölmargar tilraunir verið gerðar til að koma á beinu millilandaflugi um Akur-
eyrarflugvöll eins og nánar verður rakið í þessari grein. Í stefnumótandi byggðaáætlun 2022–2036
er lögð áhersla á uppbyggingu millilandaflugs frá Akureyri og Egilsstöðum (Alþingi, 2022). Í því
skyni býður Isavia flugfélögum verulegan afslátt af farþegagjöldum á Akureyrarflugvelli fyrstu þrjú
árin og Flugþróunarsjóður veitir flugfélögum styrki til að markaðssetja millilandaflug um flugvöll-
inn (Isavia, 2023c). Lítið hefur hins vegar verið vitað um heimamarkaðinn fyrir millilandaflug frá
Akureyri eða umfang ójöfnuðar í utanlandsferðum íbúa Norður- og Austurlands gagnvart íbúum á
suðvesturhorni landsins eða í öðrum landshlutum.
Aðferðir og gögn
Þessi rannsókn byggir á gögnum verkefnisins Samfélagsleg áhrif af millilandaflugi á Norðurlandi
eystra sem unnið var með styrk frá Rannsóknasjóði Háskóla Íslands (#92156) og Uppbyggingar-
sjóði Norðurlands eystra. Upplýsingar um fjölda farþega í millilandaflugi um Akureyrarflugvöll
eru fengnar úr Flugtölum Isavia fyrir árin 1993–2022 (Isavia, 2023b), en upplýsingar um þá aðila
sem stóðu að millilandaflugi á þessu tímabili eru byggðar á greiningu staðar- og landsblaða sem að-
gengileg eru á timarit.is.
Vegna þessa verkefnis var könnun um ferðamáta innanlands og millilandaflug lögð fyrir netp-
anel Félagsvísindastofnunar sem byggist á tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Meðal annars var spurt um
búsetu, fjölda utanlandsferða frá Keflavíkurflugvelli, Akureyrarflugvelli og með öðrum hætti og
svarendur á Norður- og Austurlandi voru spurðir hvort beint millilandaflug frá Akureyrarflugvelli
hefði aukið lífsgæði þeirra. Gagnaöflun hófst 7. júní 2023 og lauk 4. júlí 2023. Alls bárust 4.392
svör frá fólki 18 ára og eldra á landinu öllu sem samþykkt hafði að taka þátt í netkönnunum á vegum
stofnunarinnar og var svarhlutfall 49,3%.
Upplýsingar um starfsemi Niceair byggjast á viðtölum við forráðamenn félagsins, upplýsingum
úr farþegaskrá og könnun á vegum verkefnisins. Skrifstofa Niceair lét rannsakendum í té gagnaskrá
með ónafngreinanlegum upplýsingum úr farþegaskrá fyrir allan starfstíma félagsins júní 2022 – apr-
íl 2023. Í skránni voru upplýsingar um 24.994 ferðir 12.262 einstaklinga. Fyrir hverja ferð kom fram
kyn, aldur og þjóðerni allra farþega. Jafnframt hafði búseta farþeganna verið flokkuð í tíu flokka.
Þá kom fram í skránni í hvaða mánuði og hvaða leið viðkomandi farþegi flaug. Jafnframt kom fram
hversu oft viðkomandi farþegi flaug samtals með Niceair og þannig var einnig hægt að skoða sam-
setningu farþegahópsins án tillits til ferðafjölda.