Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Side 129
Hjördís Sigursteinsdóttir
129 ..
Að framangreindu má vera ljóst að vinnuumhverfi starfsfólks íslenskra sveitarfélaga fór versnandi
í kjölfar efnahagshrunsins 2008 með versnandi líðan, minni starfsánægju og auknum veikindum og
veikindafjarvistum. Viðvarandi hallarekstur íslenskra sveitarfélaga er ekki síður áhyggjuefni hvað
varðar vinnuumhverfi starfsfólksins. Með því að svara rannsóknarspurningunni er leitast við að fá
upplýsingar um hvort það að starfa hjá sveitarfélagi með sterkan eða veikan fjárhag eða sveitarfélagi
sem staðsett er á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni hafi áhrif á líðan og vinnuumhverfi starfs-
fólks sveitarfélaga og þá hvernig.
Gögn og aðferðir
Þessi grein byggir á gögnum sem safnað var meðal starfsfólks 14 íslenskra sveitarfélaga árið 2021.
Um var að ræða megindlega aðferðarfræði þar sem rafrænn spurningalisti var lagður fyrir starfsfólk
sveitarfélaganna í þeim tilgangi að safna upplýsingum um viðhorf og líðan starfsfólksins á vinnu-
stað.
Þátttakendur og framkvæmd
Þátttakendur í rannsókninni koma frá 14 af 64 sveitarfélögum landsins (þremur af höfuðborgarsvæð-
inu og ellefu af landsbyggðinni). Skilyrði fyrir þátttöku í rannsókninni var að vera 18 ára eða eldri
og vera í að minnsta kosti 50% starfshlutfalli. Netföng þátttakenda fengust hjá mannauðsstjórum
sveitarfélaganna. Beiðni um þátttöku í rannsókninni var send í tölvupósti til 8.049 starfsmanna á
vordögum 2021. Starfsfólk samþykkti þátttöku í rannsókninni með því að smella á tengil sem fylgdi
í tölvupóstinum og opnaði þar með spurningalistann. Starfsfólk svaraði svo spurningalistanum og
sendi inn nafnlaust. Í tölvupóstinum kom fram að öllum var frjálst að hafna þátttöku í rannsókninni
án útskýringa og jafnframt var hægt að sleppa því að svara einstökum spurningum. Eftir þrjár ítrek-
anir höfðu 5.522 starfsmenn svarað spurningalistanum að öllu eða einhverju leyti. Svarhlutfallið var
því 68,6%. Vinnustaðir sveitarfélaganna eru kynbundnir vinnustaðir þar sem um 80% starfsfólksins
eru konur (Samband íslenskra sveitarfélaga, e.d.). Meirihluti svarenda í þessari rannsókn eru einnig
konur eða rúm 82%.
Mælitæki og úrvinnsla
Í þessari rannsókn voru notaðar spurningar sem hafa verið notaðar í mörgum vinnustaðarannsóknum
þar sem verið er að mæla viðhorf og líðan á vinnustað.
Vinnutengd streita var metin með 10 spurninga PSS-streitukvarðanum (e. The Perceived Stress
Scale). Spurningarnar snúa að hugsunum og tilfinningum og mati þátttakenda á því hversu ófyrir-
sjáanlegt og yfirþyrmandi líf þeirra hefur verið síðasta mánuð. Þátttakendur gátu fengið 0-4 stig
fyrir hverja spurningu. Mögulegur stigafjöldi er á bilinu 0-40 þar sem fleiri stig þýða meiri líkur á
vinnutengdri streitu. Jákvætt orðuðum spurningum var snúið þegar stig voru reiknuð. Alfastuðull
fyrir innri áreiðanleika PSS-streitukvarðans er 0,85 (Cohen o.fl.,1983; Cohen o.fl., 1991). Í þessari
rannsókn mældist hann 0,848. Viðmiðunargildið, sem notað var fyrir vinnutengda streitu er 13,7 stig
en það er gildið sem höfundar mælitækisins notuðu (Cohen og Williamson, 1988). Allir sem mælast
með færri en 13,7 stig töldust undir viðmiði fyrir vinnutengda streitu og þeir sem voru með 13,7 stig
eða fleiri töldust yfir streituviðmiði.
Starfsánægja var mæld með fullyrðingunni; „Þegar á heildina er litið er ég ánægð(ur) í starfi
mínu“. Gefnir voru fimm svarmöguleikar, frá (1) mjög ósammála og að (5) mjög sammála. Félags-
legur stuðningur yfirmanna var mældur með tveimur spurningum; (1) „Færð þú stuðning og hjálp
með verkefni hjá næsta yfirmanni þínum, ef á þarf að halda?“ og (2) „Er næsti yfirmaður þinn fús
til að hlusta á vandamál sem við er að glíma í vinnunni, ef á þarf að halda?“. Félagslegur stuðningur
vinnufélaga var mældur með tveimur spurningum; (1) „Færð þú stuðning og hjálp með verkefni hjá