Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Blaðsíða 44
Félagsþjónusta sveitarfélaga og viðbrögð við samfélagslegum áföllum
44 ..
að halda (Bolin og Stanford, 1998; Eydal og fleiri, 2016; Gillespie, 2010; Kristín Björnsdóttir og
Ásta Jóhannsdóttir, 2021; Newburn, 1993; Pyke og Wilton, 2020; Pyles, 2007; Rapeli o.fl., 2018;
Tierney, 2014; Zakour, 2010). Í þessu samhengi er mikilvægt að gefa því gaum að þegar álag verður
mikið og kreppir að í samfélaginu, eins og til dæmis gerðist í kjölfar bankahrunsins 2008 og í Covid-
faraldrinum, fjölgar tilkynningum um vanrækslu og ofbeldi gagnvart börnum (Ásthildur Elva Bern-
harðsdóttir og fleiri, 2022). Einnig hafa bæði innlendar og erlendar rannsóknir á aðstæðum fatlaðs
fólks sýnt að staða þess er sérstaklega viðkvæm á tímum samfélagslegra áfalla og að verulega skortir
á samráð við það um áætlanir og aðgerðir sem varða aðstæður þess og velferð (Kristín Björnsdóttir
og Ásta Jóhannsdóttir, 2021; Pyke og Wilton, 2020). Það er því rík ástæða til þess að huga sérstak-
lega að velferð fólks og sérstaklega þessara hópa á tímum samfélagslegra áfalla.
Hérlendis hafa vinnuaðferðir félagsráðgjafa haft mikil áhrif á það hvernig félagsþjónusta sveitar-
félaga hefur mótast (Lára Björnsdóttir, 2006) og því er gagnlegt að horfa hér einnig til rannsókna
innan félagsráðgjafar. Bandaríski félagsráðgjafinn Elliott (2010) setti fram vinnulíkan fyrir félags-
ráðgjafa þar sem hún skilgreinir verkefni félagsráðgjafa á sviði áætlanagerðar, stjórnunar og við-
bragða og tengir þau inn á fjögur stig viðlagahringrásarinnar. Líkanið endurspeglar mikilvæg gildi
úr félagsráðgjöf, svo sem valdeflingu, notendasamráð og málsvarahlutverk félagsráðgjafa, auk þess
að byggja á styrkleikanálgun og heildarsýn bæði á einstaklinginn og samfélagið. Elliott dregur upp
mynd af því hvernig dagleg verkefni félagsráðgjafa raðast inn í líkanið og undirstrikar mikilvægt
hlutverk þeirra á tímum samfélagslegra áfalla (Elliott, 2010). Nálgun Elliott er gagnleg til að greina
þau viðfangsefni sem félagsþjónusta sveitarfélaga þarf að horfa til og getur tekist á við í krafti þekk-
ingar og yfirsýnar í samfélagi sem verður fyrir áfalli. Rannsakendur sem notað hafa líkanið við
greiningu á þátttöku félagsþjónustu á tímum samfélagslegra áfalla hafa bent á að nokkuð vanti upp
á að geta hennar og þekking sé nýtt til fulls (Guðný Björk Eydal og Anna Sigrún Ingimarsdóttir,
2013; Rapeli, 2017). Þá er samstarf og skilningur milli viðbragðsaðila mikilvægur liður í árangurs-
ríkri áfallastjórnun, en niðurstöður rannsóknar Cuadra (2016) á tengslum milli félagsþjónustu og
almannavarna frá sjónarhorni starfsfólks félagsþjónustunnar í Svíþjóð gáfu til kynna að starfsfólkið
hefði ekki fengið nægilega fræðslu og þjálfun um hlutverk sín á tímum samfélagslegra áfalla, sem
meðal annars birtist í því að það lagði ólíkan skilning í lykilhugtök eins og áfall, áhættu og tjónnæmi
(Cuadra, 2016).
Niðurstöður íslenskra rannsókna hafa endurspeglað niðurstöður erlendra rannsókna sem hér hafa
verið nefndar. Tilviksrannsókn Ragnheiðar Hergeirsdóttur (2019) á viðbrögðum félagsþjónustu í
Árborg við samfélagsáföllum sýndi að félagsþjónustan þarf að vera betur undirbúin, eiga verklags-
reglur og viðbragðsáætlanir og vera hluti af almannavarnakerfinu á öllum stigum, þar með talið á
forvarna- og viðbúnaðarstigi. Niðurstöðurnar undirstrika einnig mikilvægi þess að starfsfólk fé-
lagsþjónustu þekki almannavarnakerfið vel til þess geta mætt ólíkum þörfum íbúa og samfélags á
almannavarnatímum (Ragnheiður Hergeirsdóttir og Guðný Björk Eydal, 2021). Reynslan frá Covid
hefur einnig dregið fram mikilvægi þess að samstarf og skilningur sé á milli viðbragðsaðila, ekki síst
þegar um langvarandi áföll er að ræða eins og í tilviki Covid-19. Ísland er skemmra á veg komið en
nágrannalöndin þegar kemur að samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu, en samþætt þjónusta
við tjónnæma hópa er sjaldan brýnni en á slíkum tímum og hefur meðal annars verið bent á mikil-
vægi samþættingar félags- og heilbrigðisþjónustu við aldraða og samþættingu félags-, skóla- og
heilbrigðisþjónustu við börn (Ásthildur Elva Bernharðsdóttir o.fl., 2022; Rapeli o.fl., 2022).
Lagalegt hlutverk félagsþjónustu á tímum áfalla
Sveitarfélög hafa margháttaðar lagalegar skyldur og veita íbúum mikilvæga þjónustu, m.a. á sviði
velferðarþjónustu. Félagsþjónustulög nr. 40 frá árinu 1991 kveða á um skyldu sveitarfélaga til að
veita þeim íbúum sínum sem á þurfa að halda félagsþjónustu. Í markmiðsgrein laganna er kveðið á
um að með félagsþjónustu sé fjárhagslegt og félagslegt öryggisnet íbúa tryggt og stuðlað að velferð
þeirra á grundvelli samhjálpar. Málaflokkar sem félagsþjónustu ber að sinna skv. lögunum eru fé-