Íslenska þjóðfélagið - 01.08.2023, Blaðsíða 126
Áhrif búsetu á vinnuumhverfi starfsfólks á opinbera vinnumarkaðinum
126 ..
þreytu (Kulikowski og Sedlak, 2020; Srivastave o.fl., 2019). Tilgangur rannsóknarinnar er að skoða
vinnuumhverfi starfsfólks íslenskra sveitarfélaga, nánar tiltekið, vinnutengda streitu, starfsánægju
og félagslegan stuðningur yfirmanna og vinnufélaga í því augnamiði að svara því hvort það að
starfa hjá sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni eða hjá sveitarfélagi með veika
eða sterka fjárhagsstöðu hafi áhrif á líðan starfsfólks á vinnustað og vinnuumhverfi þess. Sett var
fram rannsóknarspurningin: Hver eru áhrif fjárhagsstöðu og staðsetningar sveitarfélags á vinnuum-
hverfi starfsfólks á opinbera vinnumarkaðinum?
Fræðileg umfjöllun og rannsóknir
Í langflestum tilvikum starfar starfsfólk íslenskra sveitarfélaga við fræðslustarfsemi (grunnskólar og
leikskólar), umönnunarstörf (sambýli fyrir geðfatlaða og fólk með fötlun og dvalarheimili aldraðra)
og félagsþjónustu. Á þessum vinnustöðum eru konur gjarnan meiri hluti starfsfólksins. Konur eru
líklegri en karlar til að vera fjarverandi frá vinnu vegna eigin veikinda og að hafa farið til læknis
vegna veikinda/heilsubrests sem rekja má til vinnunnar (Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Hjördís
Sigursteinsdóttir, 2016). Á umrótartímum er vel þekkt að líðan á vinnustað versni og veikindafjar-
vistir aukist. Á það ekki síður við um starfsfólk sveitarfélaga eins og kom í ljós í kjölfar efnahags-
hrunsins árið 2008. Í kjölfar efnahagshrunsins sýna rannsóknir versnandi líðan starfsfólks íslenskra
sveitarfélaga og aukningu í veikindafjarvistum starfsfólksins (Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, o.fl.,
2014; Hjördís Sigursteinsdóttir og Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, 2015). Einnig sýnir rannsókn meðal
starfsfólks í umönnunarstörfum á öldrunarstofnunum og sambýlum fyrir fatlaða og geðfatlaða ein-
staklinga að sjálfsmetinn líðan starfsfólksins versnaði í mörg ár eftir efnahagshrunið og rekja mátti
ástæðuna til aukins álags á vinnustöðunum (Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Hjördís Sigursteins-
dóttir, 2022). Jafnframt kemur fram í rannsókn Hjördísar Sigursteinsdóttur (2018) að 35% leik- og
grunnskólakennara voru mjög oft eða frekar oft stressaðir í lok vinnudags og rétt um 50% mjög oft
eða frekar oft úrvinda í lok vinnudags. Sjálfsmetin andleg líðan leikskólakennara og leiðbeinenda í
leikskólum íslenskra sveitarfélaga versnaði á árunum 2010-2015 og vinnuálag jókst mikið en félags-
legur stuðningur vinnufélaga og góð stjórnun drógu úr neikvæðum áhrifum á andlega líðan þeirra
(Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Hjördís Sigursteinsdóttir, 2015). Það er því mikilvægt að vernda
vinnuumhverfið en samkvæmt vinnuverndarlögum þá bera vinnuveitendur ábyrgð á því að tryggja
öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi, sem jafnan á að vera í samræmi við félagslega og tæknilega
þróun í samfélaginu (Lög nr. 46/1980).
Vinnutengd streita á sér stað þegar misræmi er á milli þeirra krafna sem starfið gerir til starfs-
fólksins og þeirra getu, þarfa og eiginleika sem einstaklingar búa yfir (Cox og Griffiths, 2010; World
Health Organization, e.d.; Wahrendorf o.fl., 2012). Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) greinir frá
því að vinnutengd streita geti stafað af slæmu vinnuskipulagi, skorti á sjálfræði í starfi, skorti á
stuðningi frá stjórnendum og samstarfsfólki og lélegri stjórnun (WHO, 2020). Slæmar vinnuað-
stæður, vinnuálag og ófullnægjandi félagslegur stuðningur, samskipti á vinnustaðnum og lág laun
hafa áhrif á vinnutengda streitu og andlega örmögnun (Li o.fl., 2020). Álags og bjargráðalíkanið (e.
Job Demand-Resources, JD-R) er algengt vinnuálagslíkan sem lýsir áhrifum starfskrafna og úrræða
á vellíðan starfsfólks í starfi (Bakker og Demerouti, 2017; Demerouti o.fl., 2001). JD-R líkanið er
hægt að nota sem ramma til fylgjast með vinnustaðnum til að auka almenna vellíðan starfsfólksins
og koma í veg fyrir örmögnun þess (Schaufeli, 2017) en miklar starfskröfur geta tæmt andlega og
líkamlega orku starfsfólksins og leitt til orkuþurrðar og heilsufarsvandamála. Rannsóknir sýna að
óhagstæðar starfskröfur tengjast kulnun í starfi (Bakker og de Vries, 2021; Bakker og Demerouti,
2017) og sambland af miklum starfskröfum og fáum úrræðum eða bjargráðum leiðir til langvarandi
streitu og kulnunar í starfi og lítillar sem engrar helgunar í starfi (Galanakis og Tsitouri, 2022; Llorens
o.fl., 2022). Hins vegar stuðla nægjanleg bjargráð að helgun starfsfólksins og eru verndandi þáttur
gegn áhrifum starfskrafna á streituviðbrögð einstaklinga (Schaufeli og Taris, 2014). Vinnutengd