Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1974, Side 49
RÓÐUKROSSINN í FANNARDAL
55
engu. Ekki er það heldur ætlun mín að saka séra Jón Guðmundsson
um sérstakt skeytingarleysi um meðferð gamalla kirkjugripa. Að
minnsta kosti er það þakkarvert að í Norðfjarðarkirkju er gamall
og virðulegur prédikunarstóll úr Skorrastaðarkirkj u, en þess ber
að gæta að prédikunarstólar sameina það að vera dýrir og endingar-
góðir svo að þeir hafa yfirleitt varðveist vel í kirkjum. Ekki er þó
kunnugt um að séra Jóni hafi öðrum fremur verið umhugað um
verndun gamalla minja. Hins vegar hafði hann mikið saman að sælda
við mann sem hafði sérstakan áhuga á söfnun gamalla íslenskra
gripa. Á ég þar við enska fiskkaupmanninn Pike Ward, þann sem
vorðari eða vorðfiskur, öðru nafni labri eða Labradorfiskur, er við
kenndur. Mr. Ward var hér á landi við fiskkaup einmitt skömmu
fyrir og um aldamótin.82 Ég heyrði oft um það talað í uppvexti
mínum að séra Jón hefði á fyrri árum sínum verið umboðsmaður
Wards á Norðfirði. Þegar litið er á hið fjölskrúðuga safn íslenskra
muna sem verið hafa í eigu Mr. Wards, liggur það í augum uppi
að hann hefur haft góð sambönd víða um land. Liggur þá beint við
að ætla að umboðsmenn hans við fiskkaup hafi jafnframt hugað
að góðum gripum fyrir hann. Ekki fer hjá því að séra Jóni hafi
verið kunnugt um söfnunaráhuga þessa menningarlega fiskkaup-
manns. Má því láta sér til hugar koma að séra Jón hafi lagt nokkurt
kapp á að klófesta Fannardalskrossinn, fyrst hann var á annað borð
falur, fyrir vin sinn Ward. Engin gögn hef ég í höndum til að færa
sönnur á mál mitt og verður því að líta á orð mín um þetta efni sem
hreina tilgátu. Hvað sem réttmæti hennar líður eru mér ekki kunnar
neinar heimildir fyrir því að Skorrastaðarprestar hafi fyrr né
síðar reynt að ná tangarhaldi á Fannardalskrossinum af trúarástæð-
um, hvað þá að þeir hafi gert tilraun til að granda honum.
Þá verður ekki hjá því komist að minnast nokkrum orðum á þá
fullyrðingu Bjarna Þórðarsonar að krossinn hafi verið seldur í at-
hugunar- eða heimildarleysi, enda hafi hann alls ekki verið „eign
dánarbúsins heldur fylgifé jarðarinnar". Bjarni er að vísu ekki
einn um að sjá eftir því að Fannardalur var á sínum tíma sviptur
gömlum og fornhelgum grip. Hinn sami söknuður kemur fram hjá
Jóni Bjarnasyni með öðru orðalagi. Heimild til að selja krossinn
er að vísu lögfræðilegt atriði sem ég treysti mér ekki til að gera
82 Sjá frekar Ólafur Þorvaldsson: Harðsporar, Rvík bls. 11—26, kaflann
Kynni mín af Mr. Ward, og Kristján Eldjárn: Hundraö ár í Þjóðminjasafni,
Reykjavík 1962, 86. þáttur: Vordssafn.