Eimreiðin - 01.01.1899, Qupperneq 95
95
lega loftið, en af því að hitinn er ekki jafn á öllum stöðum, koma
vindarnir. Hitinn er mestur í miðjarðarlöndunum, og því gufar
ákaflega mikið vatn upp úr höfunum þar á hverjum degi; vatns-
gufan berst svo til norðurs og suðurs með vindunum; þegar hún
kemur til kaldari staða, t. d. í nánd við há fjöll, þéttist nokkuð af
henni, verður að regni eða snjó, sem svo fellur til jarðar, einkum
uppi á fjöllunum. Svo streymir vatnið niður fjallahliðarnar með
fljótum og lækjum, alt niður til sjávarins, sem það upphaflega
kom frá. En straumvatnið og fossarnir geta knúið vélar, einmitt
vegna þess, að sólin hefur lyft vatninu upp á fjöllin. Þetta afl
notar svo aflvakinn, breytir því í rafmagn og sendir það þangað,
sem þörf gjörist. Gufuvélin hefur líka verkmagn sitt frá sólunni,
því að kolin eru leifar trjáa og jurta, sem sólarhitinn hefur alið
og nært fyrir þúsundum ára. En munurinn er sá, að aflvakinn
notar hita þann, er á hverjum degi streymir frá sólinni, en gufu-
vélin getur ekki notað nema margra þúsunda ára gamlan sólarhita.
Hingað til hafa menn ekki getað notað vatnsaflið með öðru
rnóti, en að byggja verksmiðjur, þar sem hægt var að ná til aflsins,
nefnilega við fossana. Svo urðu menn að flytja þangað verkefnið,
sem átti að vinna úr, oft langleiðis og eftir illum og ógreiðum
vegum. En hér eftir munu menn fara öðruvísi að; menn munu
setja aflvaka sína við fossana, jafnvel þótt þeir séu langt í burtu
og ilt að komast að þeim; aflvakarnir breyta svo fossaflinu í raf-
magn, sem menn geta leitt langar leiðir burt, til þeirra staða, sem
að einhverju leyti eru hentugir eða þangað, sem efni er fyrir hendi
til þess að vinna úr. Þar má svo breyta rafmagninu, hvort sem
menn heldur vilja í afl, til þess að knýja vinnuvélar, eða í Ijós
eða hita. Menn munu flytja aflið i stað þess að flytja verkefnið.
Með þessu móti munu menn geta notað vatnsaflið margfalt betur
en áður. Hin miklu iðnaðarlönd, England, Belgía, Þýzkaland og
Bandaríkin í Norður-Ameriku eiga uppgang sinn og auðlegð mest
að þakka kolum þeim, sem þar eru i jörðu. Kolaeyðsla heimsins
hefur farið sívaxandi alt til þessa, en það er bundið miklum örðug-
leikum að ná kolunum úr skauti jarðarinnar. Mönnum þykir ekki
ólíklegt að kolanámurnar kunni einhverntíma að tæmast, eða verða
svo örðugar viðfangs, að ekki borgi sig að ná kolunum. En vatns-
aflið mun á komandi öldum verða jafnþýðingarmikið fyrir allan
iðnað, eins og kolalögin hafa verið hingað til. Og vatnsafl jarð-
arinnar þrýtur aldrei, meðan fjöllin standa og sólin heldur hita