Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur - 01.01.1990, Blaðsíða 51
HALLDÓRA BJARNADÓTTIR
51
mín breyttist með aldrinum, og mundi ég nú vera sammála móður
minni, „sem áleit, að Halldóra Bjarnadóttir yrði þekkt löngu eftir
sinn dag og þá vegna framgöngu sinnar í kynningu á íslensku
ullinni. Hvatti konur til að vinna úr íslensku ullinni. Yfirleitt
hvetjandi í öllu því, sem íslenskt er, svo sem tóvinnu, notkun
íslenska þjóðbúningsins, gamalla siða o.fl.
Ráðrík og stjórnsöm. Hiklaus í fyrirskipunum sínum, velti að því
er virtist aldrei fyrir sér réttmæti ákvarðana sinna eða því, hvort
hún legði of mikið á Sigríði sína eða aðra. Gerði boð fyrir þá, sem
hún vildi tala við, bar upp erindi sitt, sló þéttingsfast á öxl
viðmælanda -áheyrn lokið- ekkert óþarfa mas. Vildi heldur stuttar
heimsóknir, innlit vina, en langar heimsóknir. Þótti vænna um að
fá fyrstu íslensku vorblómin, fifla- eða sóleyjavönd, tínd af túni eða
úr skurðbakka, vinarhendi, en búðarkeyptar rósir. Var nægjusöm
í lifnaðarháttum hversdagslega, en hafði gaman af veislum. Átti
jafnvel koníak í náttborði sínu og tók sopa og bauð af stút. Gat átt
til að taka sundur appelsínu og bjóða gestum hólfm af diski. Fékk
sendan harðfisk og tólg frá kunningja, gekk þá um og bauð öllum
á ellideildinni bita af góðgæti þessu. Ræðuhöld voru henni vel að
skapi, eigin sem og annarra. Sjálf alltaf tilbúin að halda smáræðu,
ef ekki aðrir vildu tala. Sterkbyggð, bæði andlega og líkamlega.
Heilsuhraust alla ævi. Notaði lítið af lyfjum. Tapaði heyrn, en átti
gott með að lesa, notaði gleraugu. Gerði ekki handavinnu nema
með pennanum og ritvélinni. Haíði gaman af að fá bréf, enda
lengi iðin við að svara tilskrifum.
Ferðaðist mikið og notaði þau farartæki, sem tíðkuðust, bíl og
flug.
Þegar hún kom heim úr ferðalögum, lá hún mest fyrir í þrjá
daga, lét færa sér mat inn á herbergið sitt.
Talaði um sjúkrahúsvist sem gott hús eða gott heimili.
Studd af herbergi sínu yfir á vaktherbergi sjúkradeildar hafði
hún á orði, að gaman væri að koma í „litla kotið“ okkar, hafði þetta
fyrir bæjarleið og bað um kaffi. Sat í stól eða lá fyrir og las. Hélt
andlegri heilbrigði lengi, varð aldrei leiðinlega rugluð eða elliær.
Hrörnaði smámsaman, síðustu árin var hún mest hætt að tjá sig með
tali, en bandaði frá sér, brosti og vinkaði í kveðjuskyni.
Gott að þjóna henni í ellidómi, sama nægjusemin, en líka
stjórnsemin.
Reisn án tilgerðar.
Heíði orðið (var) góð fyrirsæta, var ævinlega fljót að stilla sér