Morgunblaðið - 08.11.2001, Qupperneq 32
LISTIR
32 FIMMTUDAGUR 8. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
CORCORAN-safnið í Washington
hýsir að sögn bandaríska dagblaðs-
ins Washington Post sérlega góðar
sýningar um þessar mundir og er
önnur þeirra íslenska sýningin
„Confronting Nature,“ eða Til aug-
litis við náttúruna.
„Ertu að leita hughreystingar?
Að fallegum, rólegum stað þar sem
þú getur í friði velt náttúrunni fyrir
þér og ekki haft áhyggjur af tölvu-
póstinum?“ eru upphafsorð gagn-
rýnanda blaðsins, sem segir sýn-
inguna gera sýningargestum kleift
að upplifa fjarlæga staði án þess að
þurfa að ferðast.
Sýningin hefur góð landslagsverk
að geyma að mati Washington Post,
sem segir verk Jóhannesar Kjarval
þó öðrum fremri. Þau skari fram úr
sem „kraftmesta og átakamesta
tjáningin í þessum fyrstu verkum.“
Túlkun hans í verkinu Sumarnótt á
Þingvöllum, sem sýni sumarsólstöð-
ur, sé til dæmis „leiðslu líkust.“
Hrósar gagnrýnandinn líka róm-
antískum landslagssýnum Þórarins
B. Þorlákssonar, m.a. verkinu Þing-
vellir sem sé „friðsæl landslags-
mynd af sögufrægu vatninu, völl-
unum og hraunklettunum þar sem
fyrsta þing Evrópu hafi verið sett á
fót árið 930. Landslagsmyndin er
böðuð í þessari sérstöku blágráu
birtu, sem þekkt er sem norræn
birta, og einkennandi er fyrir
skandinavíska list á þessum tím-
um,“ segir í dómnum.
Þó Ísland sé eyja telur blaðið
verk listamannanna sýna engin
merki um einangrun. Flesta lista-
strauma og -stefnur megi finna í
verkunum á sýningunni, sérstaklega
er varði abstraktlistina sem íslensk-
ir listamenn um miðja öldina hafi
sýnt mikinn áhuga. Það eru þó verk
frumbyggjanna og nýju verkin sem
mestan áhuga vekja hjá gagnrýn-
andanum sem segir: „Á meðan miðj-
an, abstrakthluti sýningarinnar,
verður svolítið grautarleg þá krefj-
ast nýlegar innsetningar og ljós-
myndir hins vegar athygli,“ og eru
nefnd sérstaklega verk þeirra
Rögnu Fróðadóttur, Ólafs Elíasson-
ar, Sigurðar Guðmundssonar og
Steinu Vasulka.
Lýkur blaðið síðan umfjöllun
sinni á orðunum: „Varið ykkur: Sýn-
ingin kann að vekja með ykkur
ómótstæðilega löngun til að fara til
Íslands, sem er auðvitað meiningin
með þessari menningarsókn ís-
lenska sendiráðsins, sem ætlar að
sannfæra okkur um að söngkonan
Björk sé ekki eina opinberun ís-
lenskrar menningar sem vert er að
skoða, og það er rétt hjá þeim.“
Washington Post hrósar íslenskum
landslagsverkum í Corcoran-safninu
Hlýir straum-
ar frá Íslandi
Morgunblaðið/Hulda Stefánsdóttir
Sýningargestur rýnir í tvö verka Kjarvals í Corcoran-safninu.
BRAGI Ólafsson hefur undan-
farna áratugi verið að hasla sér völl
á ýmsum sviðum íslenskrar ritlistar.
Fyrsta ljóðabók hans kom út 1986
en síðan þá hafa komið út frá hans
hendi nokkrar ljóða-
bækur (m.a. Ljóðaúr-
val 1986–1996) auk
smásagnasafns. Ljóð
hans voru umfjöllun-
arefni ljóðasýningar á
Kjarvalsstöðum 1993
og hafa verið þýdd á
fjölmörg tungumál.
Fyrsta skáldsaga
hans, Hvíldardagar
(1999), vakti mikla at-
hygli. Hermann Stef-
ánsson sagði í Lesbók
Mbl. 7. júlí sl. að þar
kvæði „við undarlegan
tón í íslenskum prósa,
ljóðræna rökvísi
Braga“. Von er á ann-
arri skáldsögu, Gæludýrunum, inn-
an skamms.
Bragi fékk verðlaun í útvarps-
leikritasamkeppni Útvarpsleikhúss-
ins, Leikskáldafélagsins og Rithöf-
undasambandsins 1995 fyrir
leikritið Sumardaginn fyrsta, sem
útvarpað var 1996. Maríu Kristjáns-
dóttur sagðist svo um verkið að þar
kvæði við nýjan tón í íslenskri leik-
ritun. Bragi samdi einnig leikritið
Spurningu um orðalag sem flutt var
í höfundarsmiðju Borgarleikhússins
1996.
Einnig má nefna að Bragi hefur
lesið upp víða, verið gestaritstjóri
ljóðatímaritsins Skýs og ásamt
mörgum öðrum hjá Bjarti og frú
Emilíu þýtt ljóð, m.a. eftir Maurice
Maeterlinck og (með Þór Eldon)
eftir Guillaume Apollinaire. Bragi
hefur einnig fengist við skáldsagna-
þýðingar; Glerborgin eftir Paul
Auster kom út í þýðingu hans 1993.
Eins og Einar Falur Ingólfsson
komst að orði í umsögn um Klink,
ljóðabók Braga frá 1995, kom Bragi
fram með „mótaðan og persónuleg-
an ljóðstíl“ strax í sinni fyrstu bók.
Í raun má yfirfæra þessi orð Einars
Fals yfir á smásögur, skáldsögu og
leikrit Braga. Sjónarhorn hans sem
höfundar er engu öðru líkt; veröldin
sem Bragi lýsir er séð í gegnum
augu sem sjá hlutina í mjög sér-
stöku ljósi; efnið er nánast eimað í
meðförum höfundar og lesandinn/
áheyrandinn upplifir einhvern
meitlaðan, látlausan einfaldleika.
Augnrannsóknin, leikritið sem
hér er til umfjöllunar, er marg-
slungið verk. Bragi segir sjálfur í
fróðlegu viðtali við Bjarna Jónsson
dramatúrg, sem flutt var í kjölfar
leikritsins, að hann vilji velta fyrir
sér samskiptum manna á vinnustað,
sem honum finnist mjög áhugaverð,
frekar en innan heimilisins. Bjarni
benti þá á að starfsmennirnir í
verkum Braga „bæru allt með sér
þegar þær færu að heiman“. Þetta
má hvort tveggja til sanns vegar
færa hvað efnivið verksins varðar,
en hvorugt skýrir út efnistökin,
form leikritsins og mögulega merk-
ingu.
Hin óáþreifanlega og ófyrirsjáan-
lega framvinda verksins, orsaka-
tengsl og rökleiðsla er öll eins og í
draumi. Aðalpersóna verksins getur
ekki framkvæmt einföldustu hluti
vegna þess að hún getur ekki rifjað
upp einföldustu upplýsingar sem
allir eiga að hafa á takteinum. Þetta
er eins og martröð þar sem að-
stæður eru kunnugleg-
ar og dreymandanum
finnst hann þekkja þær
en í raun er ekkert eins
og það sýnist. Lesend-
ur kannast e.t.v. við
þetta fyrirbæri úr
draumum þar sem þeir
hafa sterka tilfinningu
fyrir því að þeir séu
staddir „heima“ en að-
stæður samt gerólíkar
því sem er á heimili
þeirra. Ofaníkaupið
breytast forsendur
draumsins sífellt í ger-
samlegri rökleysu og
þótt dreymandinn viti
þetta innst inni fær
hann ekki rönd við reist og er fangi
martraðarinnar og verður að lúta
lögmálum hennar. Niðurstaðan
verður að sjálfsögðu verk sem ber
nokkurn súrrealískan keim, þó að
höfundur gangi ekki alla leið því
það er alltaf ákveðið „system i
galskaben“.
Verkið er röð atriða í tímaröð þar
sem röklegri afleiðingu er varpað
fyrir róða. Mörg þessara atriða eru
óborganleg, t.d. villan í Þingholt-
unum, samtöl hjónanna og hugleið-
ingarnar um hið utanáliggjandi líf-
færi, eyrað. Það þarf mikla
nákvæmni í hljóðvinnslu, leikstjórn
og leik til að svona brothættur
veruleiki komist óbrenglaður til
skila en það tekst fullkomlega.
Minnisleysi Maríusar í meðförum
Eggerts Þorleifssonar, hinn undar-
legi hreimur hinnar skapbráðu eig-
inkonu sem leikin er af Maríu Ell-
ingsen, rödd skynseminnar í
verkinu, Gunnar, sem leikinn er af
Baldri Trausta Hreinssyni, og hin
skilningssljóa Anna, sem svo auð-
velt reynist að hafa stjórn á, sem
Nanna Kristín Magnúsdóttir leikur,
eru allt dæmi um ákaflega vel unna
persónusköpun. Það er augljóst að
Hjálmar Hjálmarsson hefur lagt sig
fram um að skila vönduðu verki
með hjálp Grétars Ævarssonar
hljóðmanns.
En sjón/heyrn er sögu ríkari. Það
verður að hvetja hlustendur út-
varpsins til að taka frá hálftíma í
kvöld og hlusta vandlega á þetta
fínlega ofna stykki Braga Ólafsson-
ar.
Hversdags-
martröð
LEIKLIST
Ú t v a r p s l e i k h ú s i ð
Höfundur: Bragi Ólafsson. Leik-
stjóri: Hjálmar Hjálmarsson. Hljóð-
vinnsla: Grétar Ævarsson. Leik-
arar: Baldur Trausti Hreinsson,
Eggert Þorleifsson, Elma Lísa
Gunnarsdóttir, María Ellingsen og
Nanna Kristín Magnúsdóttir.
Frumflutt sunnudag 4. nóvember;
endurtekið fimmtudagskvöld 8.
nóvember.
AUGNRANNSÓKNIN
Sveinn Haraldsson
Bragi Ólafsson
Á SÚFISTANUM, bókakaffi í versl-
un Máls og menningar við Lauga-
veg, verður lesið úr bókum ungra
höfunda í kvöld, fimmtudagskvöld,
kl. 20.
Jón Atli Jónasson les úr bók sinni
Brotinn taktur, Stefán Máni les úr
bók sinni Hótel Kalifornía og Magn-
ús Guðmundsson úr bók sinni Sig-
urvegarinn. Allar þessar bækur
koma út hjá Máli og menningu á
þessu hausti.
Ungir höfundar
á Súfistanum
UNNUR Fadila Vilhelmsdóttir pí-
anóleikari heldur tónleika í Félags-
heimilinu Klifi í Ólafsvík í kvöld kl.
20. Flutt verður Píanósónata op. 31 í
Es dúr eftir L. v. Beethoven, Ballaða
nr. 4 eftir F. Chopin og Píanósónata
nr. 8 eftir S. Prokofieff.
Unnur lauk píanókennara- og ein-
leikaraprófi frá Tónlistarskólanum í
Reykjavík og doktorsprófi í píanó-
leik í Bandaríkjunum. Hún kennir
nú við Tónlistarskóla Kópavogs.
Píanótónleikar
á Klifi
LJÓÐTÍMALEIT er ljóðabók eft-
ir Sigurð Pálsson.
Í kynningu segir m.a.: „Eins og
nafnið, Ljóðtímaleit, bendir til er leit-
in að ljóðtímanum þungamiðja bók-
arinnar. Þessi bók
er til vitnis um
leikandi ljóðstíl
og skipulega leit
að þeim stundum
sem öllu skipta í
lífinu, hinum
ljómandi stundum
fegurðar og sakn-
aðar.“
Ennfremur
segir: „Sigurður
Pálsson hefur
staðfastlega haldið áfram að þróa
ljóðstíl sinn og viðfangsefni alveg frá
sinni fyrstu bók, Ljóð vega salt, sem
kom út 1975 og vakti mikla athygli. Í
nöfnum ljóðabóka hans kemur fram
eindregið skipulag en í skáldskap
Sigurðar hefur alltaf mátt greina
skemmtilega spennu milli staðfestu
og síbreytileika, reglu og óreiðu,
sterkrar byggingar og flæðis.“
Útgefandi er JPV útgáfa. Bókin er
80 bls., prentuð í Odda. Sigrún Sig-
valdadóttir gerði kápu. Verð: 3.480
kr.
Nýjar bækur
Sigurður
Pálsson
HVÍTI skugginn er fimmta skáld-
saga Þórunnar Valdimarsdóttur.
Þar segir af Sólveigu, Kristrúnu og
Jóhannesi sem leita aflausnar fyrir
syndir fortíðarinnar. Í bókinni tekst
Þórunn á við sam-
tímann og lýsir
samskiptum fólks
þar sem Netið
skipar sífellt
stærra hlutverk
sem samskipta-
miðill og tjáning-
armáti. Um leið
má lesa út úr
verkinu ákveðið
uppgjör við 68-
kynslóðina,
horfna drauma hennar og hugsjónir.
Þórunn hlaut Menningarverðlaun
DV og var tilnefnd til Bókmennta-
verðlauna Norðurlandaráðs fyrir síð-
ustu skáldsögu sína.
Í tengslum við bókina verður opn-
uð heimasíða Hljómskálasamtak-
anna og Sólveigar. Slóðin er http://
www.hljomskali.is
Útgefandi er JPV útgáfa. Bókin er
160 bls. Kápu hannaði Hunang.
Verð: 3.980 kr.
Þórunn
Valdimarsdóttir