Morgunblaðið - 08.03.2002, Blaðsíða 47
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 8. MARS 2002 47
Íþróttabandalagið höfuðmáli vegna
þess hve stuðningur og styrkveiting-
ar borgarinnar við félögin í Reykja-
vík hafa afgerandi þýðingu í starfi
þeirra. Fyrir bæði mig og aðra sem
við tóku í stjórn ÍBR árið 1984 var
þetta afar lærdómsríkt. Það var
skemmtilegt að sitja með Úlfari á
stjórnarfundum. Glettnin var oft ná-
lægt þó svo að um alvarleg úrlausn-
armál væri að ræða. Hann kunni vel
að tefla sínum mönnum og ekki
minnist ég þess að ágreiningur hafi
komið upp á yfirborðið þó svo að
menn hefðu mismunandi áherslur í
einstökum málum. Og oftast lauk
fundi með gamansamri frásögn þar
sem Úlfar fór oft á kostum. Á yngri
árum hafði hann verið afreksmaður í
sundi og meðal annars tekið þátt í Ól-
ympíuleikunum í Berlín 1936 þegar
Íslendingar sendu sundknattleikslið
til keppni á Ólympíuleika í fyrsta og
einna skiptið.
Þó svo að íþróttirnar skiptu Úlfar
miklu voru áhugamálin mörg. Hann
sat í borgarstjórn frá 1958 til 1978
eða í tuttugu ár og lengst af sem að-
almaður. Á þeim vettvangi voru fyrst
og fremst tveir málaflokkar, öðru
fremur, sem hann lagði áherslu á.
Annars vegar heilbrigðismál, þar
sem hann var m.a. formaður bygg-
ingarnefndar Borgarspítalans, og
hins vegar íþróttamál, þar sem hann
var formaður Laugardalsnefndar og
byggingarnefndar Sundlauganna í
Laugardal. Þarna voru stórmál á
ferðinni, það er bygging Borgarspít-
alans og íþróttamannvirkjanna í
Laugardal. Þessum störfum skilaði
Úlfar með miklum sóma og þessi
mannvirki þekkja borgarbúar af eig-
in reynslu í dag.
Um síðustu jól kom út bókin Ævi-
minningar Úlfars Þórðarsonar skráð
af dóttur hans Unni. Við lestur þess-
arar ágætu bókar, sem nær frá
æskudögum til ársins 1954, bregður
fyrir ævintýralegri og atorkusemri
ævi og er þá mikið eftir sem eru öll
borgarstjórnarárin, áratugastarf í
íþróttahreyfingunni og flugmál svo
eitthvað sé nefnt. Hér er því enginn
meðalmaður á ferðinni og mætti með
réttu segja þegar allt er tekið saman
að Úlfar Þórðarson hafi verið þjóð-
sagnapersóna í lifandi lífi. Segir það
allt sem segja þarf.
Góður vinur og samferðamaður er
nú kvaddur. Hans er sárt saknað en
minningin mun lifa. Börnum hans og
öðrum ástvinum sendi ég mínar inni-
legustu samúðarkveðjur.
Júlíus Hafstein.
„Ég nauðþekki hann en man ekki
hvað hann heitir.“ Þetta heyrði ég
Úlfar oft segja. Hann átti mjög
marga málkunningja og var jafn-
elskulegur við alla og eins og hann
hefði þekkt þá alla ævi. Úlfar var
með kvikustu mönnum sem ég
þekkti, síhress og sagði svo skemmti-
lega frá að unun var á að hlýða. Kaffi-
stundirnar á Landakoti voru sér-
stakar yndisstundir þegar Úlfar var
viðstaddur og sagnarandinn sveif
yfir borði. Við áttum samleið á augn-
deildinni á Landakotsspítala í þrett-
án ár og minningarnar um skemmti-
legan félaga streyma fram. Hann var
glöggur augnlæknir og hikaði ekki
við að senda sjúklinga frá sér ef hann
taldi ástæðu til. Er það aðall góðrar
þjónustu við skjólstæðinginn. Hann
var fljótur að átta sig á kjarna hvers
viðfangsefnis, var umsetinn og yfir-
hlaðinn störfum alla tíð, snöggur, og
hafði í mörgu að snúast auk lækn-
isstarfa. Var þessi háttur hans til
þess að oft heyrðist að ósekju að Úlf-
ar væri fljótfær. Fljótur var hann
vissulega og ákveðinn. Á norrænu
augnlæknaráðstefnunni í Kaup-
mannahöfn 1977 hélt hann glimrandi
góða ræðu fyrir hönd Íslendinganna
og byrjaði ræðuna á þessum orðum
sem hann sagði að móðir sín hefði
einhvern tíma viðhaft: „Úlfar, þú
hlustar ekki á sjúklinga þína.“ Var
hann að leggja út af góðu sambandi
læknis við sjúkling. Vegna þessa lífs-
stíls Úlfars gat stundum verið erfitt á
ná í hann þótt mikið lægi við. Þegar
heimsmeistaraeinvígið í skák var
haldið hér 1972 var Úlfar ráðinn líf-
læknir einvígisins. Eins og kunnugt
er var erfitt að fá Fischer til landsins
og lágu menn í símanum með um-
boðsmann Fischers á hinum enda
línunnar. Vildi hann fá frest, taldi
Fischer ekki vel frískan til að koma á
réttum tíma. Átti nú að leita álits
læknisins en Úlfar fannst hvergi,
GSM-síminn ekki kominn og allt var
á suðupunkti í Laugardalshöllinni.
Unnur, eiginkona Úlfars, náði í mig
og bað mig að hlaupa í skarðið. Ein-
hverju sinni sagði Úlfar af sinni al-
kunnu glettni, þegar honum var sagt
að ekki hefði náðst í hann: „Hvað,
náðist ekki í mig, ég er alltaf ein-
hvers staðar.“
Úlfar fór í mörg ár í augnlækn-
ingaferðir til Norðurlands vestra og
undruðumst við oft, starfsfélagar
hans, þann kjark og ósérhlífni sem
hann sýndi er hann lét veður ekki
hamla för sinni. Við Úlfar fórum
saman í hnattferð 1978. Alþjóðleg
augnlæknaráðstefna var þá haldin í
Kyoto í Japan. Boðin var ferð til
Hiroshima. Úlfar sagðist ekki
treysta sér til að fara á þessar slóðir
vegna þeirra hörmunga sem þar
urðu er kjarnorkusprengjunni var
varpað. Sá ég þá skýrt þessa hlið á
vini mínum, viðkvæmni og samúð
með þeim sem þjást.
Úlfar starfaði að sérgrein sinni til
ársloka 2000, lengur en aðrir læknar
sem ég þekki, og var þá kominn á ní-
tugasta ár. Hann hélt upp á 90 ára af-
mæli sitt með mikilli reisn í félags-
heimili Vals, sem var „hans félag“.
Hans verður lengi minnst sem góðs
félaga og læknis.
Hörður Þorleifsson.
Mig langar til að kveðja sérstakan
drengskaparmann, Úlfar Þórðarson,
trúnaðarlækni Flugmálastjórnar Ís-
lands, með nokkrum orðum. Sem
flugmaður og síðan sem atvinnuflug-
maður í tæpa hálfa öld þurfti ég að
fara í læknisskoðun í byrjun ferils
míns einu sinni á ári og þegar á leið
starfsferilinn tvisvar og loks þrisvar
á ári. Úlfar höfðaði strax í byrjun
mikið til mín, bæði sem læknir og
ekki síður hin hlýja framkoma hans
og húmor. Þetta kom fljótt í ljós þeg-
ar ég fór að kynnast honum, og
fannst mér gott að vera í návist hans.
Þar sem ég kveið yfirleitt fyrir þess-
um læknisskoðunum bað ég yfirleitt
um að fá Úlfar þegar það var hægt.
Úlfar var mjög glöggur læknir og
hann var líka ákaflega mannlegur.
Ég er honum ævinlega þakklátur
fyrir, þegar ég þurfti að koma til
hans vegna þess að ég var kominn í
vandræði með líf mitt, hversu ljúf-
mannlega hann tók á móti mér og
studdi mig í því sem ég þurfti að
gera. Einn félaga minna skírði son
sinn í höfuðið á honum og annar
nefndi þotu eftir honum og segir
þetta nokkuð um vinsældir hans
meðal flugmanna.
Ég er ákaflega feginn að hafa
heimsótt Úlfar á níræðisafmælinu
hans nýlega og getað tekið í höndina
á honum og þakkað honum sam-
fylgdina.
Ég votta ástvinum hans samúð
mína.
Rúnar Guðbjartsson.
Eitt sinn verða allir menn að
deyja... Það sem við vitum um lífið er
að við erum þátttakendur í því, skil-
yrðislaust og að við deyjum öll. Þeg-
ar við fæðumst er okkur engu lofað
um framtíðina, heilsu okkar og ham-
ingju. Við þurfum þess vegna að
vinna það besta úr kjarna okkar og
rækta það. Okkur tekst þó misvel til.
Úlfar Þórðarson var einstakur aðdá-
andi alls lífs, hvort sem um var að
ræða menn, dýr eða náttúruna sjálfa.
Hann var sérstaklega gott eintak af
mannkyninu sem enginn gleymir.
Kynni okkar Úlfars hófust fyrir
tæpum 6 árum, er ég hóf störf hjá
Flugmálastjórn. Hann hafði sinnt
læknisskoðunum flugmanna í tugi
ára og var starf mitt m.a. fólgið í að
gefa flugmönnum tíma í þessar skoð-
anir. Eitt af uppáhaldsverkefnum
mínum var að hringja í Úlfar og
kynna honum dagskrá hans fyrir
læknisskoðanir. Úlfar svaraði
skemmtilega í símann og ég var
heppin ef hann talaði íslensku. Til að
byrja með þótti mér nokkuð sérstakt
að 85 ára gamall maður skyldi sinna
þessum læknisskoðunum, en sá fljótt
að í hans tilfelli hafði aldur ekki mik-
ið að segja. Úlfar hafði nefnilega
þessa einstöku útgeislun sem ein-
kennir aðeins örfáa menn sem við
verðum samferða á lífsleiðinni. Slík
útgeislun getur aðeins komið frá
hreinu hjarta sem fágætt er. Úlfar
hætti störfum sem fluglæknir sum-
arið 1999. Flugmenn söknuðu hans
sárt. Heimsóknir til hans þóttu þeim
skemmtileg upplifun og ég hef heyrt
margar góðar sögur af þeim.
Nú seinni árin höfum við Úlfar átt
góðar stundir, ýmist við súpuát í há-
deginu eða fengið okkur kakóbolla og
vöfflu á hinum ýmsu stöðum í bæn-
um. Við röltum líka nokkrar ferðirn-
ar um landið hans við Hafravatn í
góðra vina hópi og drukkum te í litla
bjálkahúsinu hans. Í þessum ferðum
okkar fræddist ég um allt mögulegt
og ómögulegt sem hafði drifið á daga
Úlfars og hugmyndir hans um til-
veruna og lífið. Hann gæddi frásagn-
ir sínar miklu lífi með skemmtilegu
orðfæri og tilburðum, sem ekki var
komist hjá að hrífast af. Með því að
vera til gaf hann okkur stóran hluta
af sjálfum sér, alveg skilyrðislaust og
ómeðvitað.
Ég sakna Úlfars mikið og finnst
hann vanta í tilveruna mína. Minn-
ingin sem ég á um hann, glaðan og
kátan, dreifandi gullkornum til okk-
ar hinna á eftir að lifa og lifa.
Hulda María Mikaelsdóttir.
Fyrstu kynni mín af Úlfari Þórð-
arsyni voru fyrir tæpum fjörutíu ár-
um þegar ég lék knattspyrnu með 5.
flokki Vals. Þá kom þessi frægi og
vinsæli læknir og forystumaður úr
Val til okkar drengjanna eftir leik og
gaf okkur öllum gosdrykk. Þannig
voru fyrstu kynni mörg hundruð
ungmenna af Úlfari, að hann kæmi
færandi hendi til að gleðja aðra.
Þetta var líka einkennandi fyrir
manninn Úlfar Þórðarson og ævi-
starf hans. Hann var ósérhlífinn og
afkastamikill dugnaðarforkur í öllu
því sem hann tók sér fyrir hendur og
árangurinn eftir því. Hann spurði
sjaldnast um aðra umbun en að sjá
árangur verka sinna í störfum fyrir
Val og íþróttahreyfinguna. Hann
sóttist lítt eftir vegtyllum en leit á
það sem „skyldu sína“ að gegna trún-
aðarstörfum fyrir Reykvíkinga, sem
borgarfulltrúi þeirra í tvo áratugi.
Hvenig Úlfar gat komist yfir öll þau
félagsmálastörf og áhugamál sem
hann átti utan læknisstarfsins gæti
vafist fyrir mörgum, en þeim sem
kynntust Úlfari var það fullljóst, að
hann var hamhleypa til allra verka
og „engum líkur“.
Í læknisstarfi sínu var Úlfar ekki
síður en í félagsmálunum gífurlega
afkastamikill og skjótvirkur. Þar
naut hann þess líka vel að vera
gæddur góðu líkamlegu og andlegu
atgervi, en ekki síður þess hve
skemmtilegur og jákvæður hann var.
Að ég nefni ekki hve alþýðlegur hann
var og gersamlega laus við hroka.
Fólki hlaut að líða vel í návist slíks
manns, enda var Úlfar afar vinsæll
meðal skjólstæðinga sinna, sem enn í
dag minnast hans með virðingu og
hlýju.
Ég átti því láni að fagna að starfa
náið með Úlfari sem aðstoðarlæknir
á augndeild Landakotsspítala frá
miðju ári 1980 fram á sumarið 1981,
þegar ég hélt utan til framhalds-
náms. Að vísu urðu augnlækningarn-
ar ekki fyrir valinu hjá mér sem sér-
grein, enda „fann ég mig ekki“ í
þeirri grein. Mér fannst hins vegar
alltaf gaman að vinna með Úlfari og
hlusta á orðatiltækin og sögurnar
hans. Ef Úlfari líkaði eitthvað vel var
maður útnefndur „MSP“ eða mynd-
ar- og sómapiltur og hann spurði
hvort hann mætti „beygja sig í duft-
ið“ fyrir manni. Stundum kvaðst Úlf-
ar vera að „deyja úr skorti á heilsu-
leysi“, ef maður álpaðist til að spyrja
hann hvort hann væri þreyttur, þeg-
ar hann var að skipta um föt eftir að-
gerðadag. Úlfar sem þá var á sjötug-
asta aldursári átti það til að koma á
stofugang seint á laugardagsmorgni
eftir að hafa „skroppið á Esjuna“
fyrr um morguninn! Í mínum augum
var þetta ekki rígfullorðinn maður þó
að útlit samsvaraði aldri. Úlfar bjó
yfir vilja og lífsgleði æskumannsins,
enda hafði hann varðveitt barnið
innra með sér alla ævi.
Það var ákaflega fróðlegt að hlusta
á allar sögurnar hans Úlfars, enda
hafði hann óvenju mikla lífsreynslu
og víðan sjóndeildarhring. Úlfar
stundaði framhaldsnám í Þýskalandi
á uppgangstímum þjóðernissósíal-
ismans í hinni fornu menningarborg
Königsberg. Um örlög þessarar höf-
uðborgar Austur-Prússlands má lesa
í æviminningum Úlfars, sem komu út
fyrir síðustu jól og voru skráðar af
Unni, dóttur hans. Útkoma æviminn-
inga Úlfars var mér mikið fagnaðar-
efni, enda hafði ég hvatt hann mjög
til að skrá þær, þegar við unnum
saman á augndeildinni.
Fundum okkar Úlfars bar næst
saman árið 1984, þegar hann var í
augnlækningaferðalagi á Blönduósi,
en ég var þá heilsugæslu- og sjúkra-
húslæknir þar á staðnum. Eftir lang-
an og strangan vinnudag kom Úlfar í
kvöldverðarboð til fjölskyldu minnar
og ritaði með sinni góðu kímni í
gestabókina okkar: „Alltaf gott að
hitta sanna Valsmenn og hægri-
stefnu.“
Tíu árum síðar þurfti ég að leita til
Úlfars og biðja hann um stuðning
vegna prófkjörs Sjálfstæðisflokksins
fyrir borgarstjórnarkosningarnar
árið 1994. Sá stuðningur var auð-
fenginn og Úlfar skrifaði kröftuga
grein um „framboð ungs læknis“ í
Morgunblaðið.
Rétt og skylt er að taka fram að
Úlfar rak ennþá augnlæknastofu
sína í Lækjargötu árið 1994 þó að
hann væri þá 83 ára gamall. Hann
flutti síðar læknastofu sína í Mjódd-
ina og starfaði þar langt fram eftir
níræðisaldri. Þetta er einstakt eins
og svo margt í lífi og starfi Úlfars, en
þessi fyrrverandi sundkappi og ól-
ympíufari geystist á skriðsunds-
spretti í sundlaugum borgarinnar
fram undir hið síðasta. Það lýsir vel
gáska og glettni Úlfars, að hann átti
það til, að bjóða sér mun yngri mönn-
um í kappsund.
Þó að Úlfar væri dyggur stuðn-
ingsmaður Sjálfstæðisflokksins, var
hann samt alltaf sjálfstæður og það
vafðist ekkert fyrir honum að veita
Umhverfisvinum lið í baráttu þeirra
fyrir verndun Eyjabakkasvæðisins,
enda var Úlfar mikill náttúruunn-
andi. Hann var í hópi 100 lækna sem
haustið 1999 sendu Norsk Hydro
áskorun um að draga sig út úr samn-
ingaviðræðum við íslensk stjórnvöld
vegna vinnubragða þeirra í Eyja-
bakkamálinu.
Ég hitti Úlfar síðast á níræðisaf-
mæli hans, sem hann hélt í Valsheim-
ilinu 1. ágúst sl. Heldur þótti mér
vera farið að draga af Úlfari, vini
mínum, þó að hann væri jafn kátur
og skemmtilegur og ævinlega. Þegar
ég heilsaði Úlfari kastaði ég í gamni
þessari leirhnoðuðu hendingu á
hann:
Úlfar, þú ert engum líkur,
Úlfar, þú ert MSP.
Heiðursmennsku hvergi svíkur,
né heilög íþróttanna vé.
Ég er þakklátur fyrir að hafa
kynnst manni eins og Úlfari Þórð-
arsyni. Hann var einstaklingur í
bestu merkingu þess fallega orðs og
það er auður fyrir Reykvíkinga og ís-
lenska þjóð að hafa átt hann. Hann
var engum líkur.
Ólafur F. Magnússon,
læknir og borgarfulltrúi.
Ég hitti Úlfar síðast í níræðisaf-
mæli hans í Valsheimilinu á Hlíðar-
enda síðastliðið sumar. Það var mjög
skemmtilegt samkvæmi á góðviðris-
degi. Afmælisbarnið sjálft, þótt ní-
rætt væri, var hrókur alls fagnaðar
eins og ætíð áður á mannamótum.
Hann var líkur sjálfum sér, vildi
frekar segja skemmtisögur, eins og
honum einum var lagið, en að tala um
sjálfan sig og lífshlaup sitt. Það urðu
aðrir ræðumenn að gera.
Hann var þá fullur lífsorku, spilaði
enn badminton, eins og hann hafði
gert sl. 60 ár a.m.k., og talaði um ný
áform sín við sumarbústaðinn við
Hafravatn. Hann virtist eiga mikið
eftir, þótt háaldraður væri.
Ég hitti hann á hverju sunnudags-
kvöldi um áratuga skeið í gamla
Valsheimilinu á Hlíðarenda, þar sem
menn á öllum aldri frá tíu ára til sjö-
tugs spiluðu badminton. Þar réð leik-
gleðin og keppnisandinn ríkjum og
alltaf var það Úlfar sem síðastur vildi
hætta. „Einn leik enn,“ hrópaði hann
venjulega um leið og yngri menn
gengu þreyttir til búningsklefa. Eftir
æfingu bauð hann svo öllum upp á
gos og nokkrar skemmtisögur fylgdu
með í kaupbæti. Þetta voru æfingar,
sem enginn vildi missa af.
Úlfar var mér ætíð mikil fyrir-
mynd, vegna leiftrandi gáfna, dugn-
aðar og mannkosta. Hann hafði mikil
áhrif á starfsval mitt, skoðanir og
vafalaust fleira.
Einn af hans aðalkostum var lífleg
og skemmtileg framkoma, sem var
ætíð sú sama, hvort sem í hlut áttu
fyrirmenn þjóðfélagsins, lítilmagnar
eða ungir uppburðarlitlir krakkar.
Alls staðar naut hann sín í félagsskap
annarra.
Það er því með miklum söknuði er
ég kveð þennan gamla góða vin minn
og fjölskyldu okkar. Hann reyndist
okkur ætíð haukur í horni, ef á þurfti
að halda, og við minnumst hans með
þakklæti og hlýhug.
Páll Ammendrup.
Úlfar með börnum, barnabörnum og öðrum ættingjum í Skorradal.