Morgunblaðið - 08.03.2002, Blaðsíða 46
MINNINGAR
46 FÖSTUDAGUR 8. MARS 2002 MORGUNBLAÐIÐ
langa og viðburðaríka ævi. Það voru
forréttindi að eiga samfylgd og vin-
áttu hans um áratuga skeið og fyrir
það stöndum við í þakkarskuld.
Við vottum fjölskyldu Úlfars Þórð-
arsonar samúð og hluttekningu.
F.h. Íþróttabandalags Reykjavík-
ur,
Sigurgeir Guðmannsson.
Nú er viðveru Úlfars Þórðarsonar
augnlæknis lokið á meðal okkar,
hans langi vinnudagur er á enda.
Úlfari á ég margt að þakka í lífinu.
Ég var svo heppinn að hann var enn
að störfum á læknastofu sinni seint á
gamlársdag fyrir 41 ári er ég átta ára
gamall varð fyrir alvarlegu augn-
slysi. Á sjúkrabörum kom ég á augn-
læknastofuna hans í Lækjargötu rétt
áður en hátíð gekk í garð. Þrátt fyrir
þennan tíma var biðstofa hans þétt-
setin. Fyrst heyrði ég styrka og
þægilega rödd, síðan birtist mér and-
lit hans er hann tók til við að með-
höndla mig. Þetta atvik er mér enn í
dag í fersku minni. Á þessari stundu
tókst með okkur Úlfari órjúfandi vin-
átta og seinna samstarf sem ég fæ
seint fullþakkað.
Við áttum margar ferðirnar saman
út á land vegna starfa okkar og störf-
uðum saman í Reykjavík, Keflavík og
á Keflavíkurflugvelli. Síðustu starfs-
árin hafði hann augnlæknastofu sína
á sameiginlegum vinnustað okkar í
Mjódd. Úlfar hvatti mig í áformum
mínum og var mér góður ráðgjafi og
læknir. Er ég, fyrir tuttugu árum,
leitaði álits hans varðandi verslunar-
rekstur svaraði hann með þeim orð-
um að ,,ef járnið væri heitt gæti
borgað sig að hamra það“. Hann gaf
mér mörg heilræðin og eru þau mér
sem lífsspeki og hvati í erli dagsins.
Á því að vinna með Úlfari lærði mað-
ur margt því hann fór ótroðnar slóðir
við vinnu sína og kom svo miklu í
verk að aðdáun og undrum sætti.
Hann gerði sjálfur sem minnst úr af-
rekum sínum. Úlfar var að mínu mati
alltaf réttsýnn og fljótur að átta sig á
því hvað skipti máli er vandi steðjaði
að. Hjá honum lærði ég þá einföldu
lífsins staðreynd að sé maður nógu
duglegur og vinnusamur þurfi maður
ekki að biðja nokkurn mann afsök-
unar á árangri sínum. Hann var oft
umdeildur en það var þá vegna af-
kasta sinna.
Frásögn Úlfars, hvort sem var af
viðureign fótboltaliða, tennis, fugla-
skoðunarferðum eða glímu við að
opna bílinn sinn eftir að lyklarnir
höfðu gleymst í svissinum, var
skemmtun ein á að hlýða, slíkur var
frásagnarháttur hans.
Stundirnar sem við áttum saman
við vinnu okkar eru með þeim
skemmtilegustu sem ég minnist úr
starfi mínu. Úlfar var ekki maður
sem taldi aurana sína í lok vinnu-
dags. Hann var dáður af sjúklingum
sínum enda hafði hann í ríkum mæli
það sem ég kalla „sjúklingasjarma“
og aðeins læknar af Guðs náð hafa.
Úlfar var einn merkasti maður sem
ég hef kynnst á lífsleiðinni og einn
minn besti vinur. Fram til síðasta
dags var hann fullur af lífskrafti og
með skýra hugsun, það voru bara af-
mælisdagarnir sem minntu mann á
að senn kæmi að því að vinnudegi
hans lyki.
Með þessum fáu orðum minnist ég
vinar míns sem mér þótti svo vænt
um og votta börnum hans og fjöl-
skyldu mína dýpstu samúð.
Kjartan Kristjánsson.
Kveðja frá
Knattspyrnufélaginu Val
Úlfar Þórðarson, heiðursfélagi í
Knattspyrnufélaginu Val, er látinn
90 ára að aldri. Andlát hans bar brátt
að og Valsmönnum og mörgum
Reykvíkingum var brugðið í síðustu
viku, þegar þeir sáu fána blakta í
hálfa stöng að Hlíðarenda og fréttin
um lát Úlfars spurðist út. Frá því
Úlfar kom að félaginu árið 1946 hafa
tengsl hans við félagið aldrei rofnað.
Valsmenn vita að félagið var honum
alla tíð ákaflega kært. Ég veit það
líka að Valsmönnum var Úlfar ákaf-
lega kær og þeir báru alla tíð mikla
virðingu fyrir honum og hans störf-
um fyrir félagið.
Í mjög fróðlegum kafla í ævisögu
Úlfars, sem kom út á síðasta ári, lýsir
hann vel upphafsárum sínum í starfi
fyrir Val og með Valsmönnum. Þar
kemur fram að leitað var til hans sem
utanaðkomandi manns vegna þess að
óeining hafði komið upp innan félags-
ins og ekki náðist samstaða um for-
mann. Það var mikið happ fyrir fé-
lagið að hann féllst á að koma til
starfa. Undir hans stjórn og forystu
var ráðist í að nýta svæðið að Hlíð-
arenda sem félagið hafði fest kaup á
árið 1939 en stríðið hafði komið í veg
fyrir notkun þess. Að mörgu var að
hyggja, en ákveðið var að ráðast
fyrst í gerð malarvallar fyrir æfingar
og keppni. Sá völlur var vígður árið
1949 og í eigu Vals er mynd sem sýn-
ir þá saman, Úlfar stoltan formann
félagsins og séra Friðrik Friðriksson
taka fyrstu spyrnuna á vellinum á
vígsludaginn.
Síðan rak hver framkvæmdin aðra
og þegar Úlfar hætti sem formaður
félagsins, tók hann að sér að vera for-
maður í framkvæmdanefnd um upp-
byggingu á svæði Vals. Þar fór hann
mikinn eins og áður og á nokkrum
árum var reist fyrsta íþróttahús fé-
lagsins. Það stendur enn og er notað
frá morgni til kvölds af ungum sem
eldri Valsmönnum. Með sínum mikla
eldmóði og áhuga hreif Úlfar marga
Valsmenn til dáða og fyllti þá bjart-
sýni og krafti til að takast á við verk-
efni, sem enginn hafði látið sér detta
í hug áður.
Fyrir alla sem koma að félagsmál-
um í íþróttahreyfingunni er það holl
lesning að kynnast þeim viðhorfum
og vinnubrögðum sem Úlfar viðhafði
í starfi sínu fyrir Val og íþróttahreyf-
inguna alla tíð. Starfi hans fyrir fyrir
Val lauk aldrei. Hann var vakandi og
sofandi yfir aðstæðum að Hlíðar-
enda, gróðursetti tré við knatt-
spyrnuvellina og flutti þau síðar til,
ef á þurfti að halda og svo mætti
lengi telja. Til viðbótar störfum sín-
um fyrir Val var hann síðan um
margra ára skeið formaður Íþrótta-
bandalags Reykjavíkur.
Árið 1981 var Úlfar Þórðarson
kjörinn heiðursfélagi Knattspyrnu-
félagsins Vals. Hann mætti á kapp-
leiki alla tíð og sótti fundi fulltrúa-
ráðs félagsins vel. Í maí á síðasta ári
tók hann virkan þátt í hátíðarhöldum
á níutíu ára afmæli Vals og klippti á
borðann þegar ný skrifstofuaðstaða
félagsins var vígð og mætti síðan til
allra atriða afmælisdagsins.
Það var Valsmönnum mikið
ánægjuefni að geta tekið þátt í að
halda upp á níutíu ára afmæli hans
sjálfs að Hlíðarenda, í ágúst síðast-
liðnum. Við það tækifæri færði fjöl-
skylda hans Val brjóstmynd af Úlfari
sem komið hefur verið fyrir í húsa-
kynnum félagsins.
Valmenn kveðja látinn foringja og
fyrir hönd þeirra flyt ég börnum
hans og öðrum ættingjum innilegar
samúðarkveðjur. Minningu Úlfars
Þórðarsonar mun verða haldið á lofti
á Hlíðarenda.
Reynir Vignir.
Í dag kveðjum við einn af stofn-
félögum Flugbjörgunarsveitarinnar,
Úlfar Þórðarson lækni, hinstu
kveðju. Fyrir rúmum 50 árum stóð
hann, ásamt hópi annarra flugáhuga-
manna, fyrir stofnun björgunarsveit-
ar sem sérhæfði sig í leitum að týnd-
um flugvélum og björgun manna úr
flugslysum. Úlfar hvatti til þjálfunar
sveitarmanna í hjálp í viðlögum og að
hópurinn væri fær um að veita full-
komna aðstoð á slysstað. Stóð hann
fyrir námskeiðum, ásamt Hauki
Kristjánssyni lækni, fljótlega eftir
stofnun sveitarinnar. Var hann síðan
óþreytandi við þjálfun félaganna,
þrátt fyrir mikið og vaxandi annríki.
Úlfar var læknir Flugbjörgunar-
sveitarinnar í fjölda ára og sýndi
henni mikla tryggð og ræktarsemi.
Þótti okkur sérstaklega vænt um að
sjá hann á haustfundinum, síðastliðið
haust, þá níræðan.
Flugbjörgunarsveitin kveður
þennan trausta félaga og þakkar
honum fyrir samfylgdina og það
veganesti sem hann gaf okkur.
Fjölskyldu Úlfars sendum við okk-
ar innilegustu samúðarkveðjur.
Félagarnir í Flugbjörgunar-
sveitinni í Reykjavík.
Fyrir hönd Augnlæknafélags Ís-
lands vil ég með nokkrum orðum
minnast Úlfars Þórðarsonar augn-
læknis. Hann er nú látinn níræður að
aldri. Úlfar varð stúdent frá MR
1930 og cand. med. frá Háskóla Ís-
lands 1936. Augnlækningar nam
hann við Háskólasjúkrahúsið í Berlín
og Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn
og fékk sérfræðileyfi í augnlækning-
um 1940. Áratugum saman sinnti
Úlfar læknisverkum, bæði í Reykja-
vík og víðar, því þær voru ófáar
augnlæknaferðirnar út á land.
Úlfar hóf störf á Landakotsspítala
1942 og starfaði samfleytt þar við
augnlækningar til 1981 eða tæp
fjörutíu ár. Hann starfaði einnig á
augnlæknastofu sinni í Reykjavík í
um sextíu ár og var stundum unnið
þar langt fram á kvöld. Starfsorka
hans var með ólíkindum. Það er erfitt
fyrir okkur sem störfum við augn-
lækningar í dag að gera okkur í hug-
arlund þær starfsaðstæður sem voru
fyrir hendi áður fyrr, því hin síðari ár
hefur tækninni fleygt fram og auð-
veldað okkur starfið jafnframt sem
það hefur átt sér stað aukin sérhæf-
ing og augnlæknum fjölgað. Það er
því ljóst að á árum áður þurftu menn
oft að vinna við erfiðar aðstæður og
ekki síst að hafa mjög víðtæka þekk-
ingu. Úlfar var óvenju afkastamikill í
sínu starfi og ekki síður óvenju far-
sæll læknir. Auk þess að sinna augn-
lækningum var Úlfar trúnaðarlækn-
ir Flugmálastjórnar 1962–1997 auk
fjölda annarra starfa. Hann var for-
maður byggingarnefndar Borgar-
spítalans 1973–1978 og sat í ótal
nefndum og stjórnum tengdum heil-
brigðismálum borgarinnar. Úlfar
stofnaði rannsóknarsjóð við Borgar-
spítalann til minningar um foreldra
sína og son sinn Þórð. Sjóður þessi
hefur styrkt rannsóknir í læknis-
fræði við spítalann um árabil og gerir
enn.
Fyrir okkur augnlækna gegndi
Úlfar mörgum trúnaðarstörfum, var
í ritstjórn tímarits norrænna augn-
lækna í tuttugu ár, skipulagði nor-
ræn augnlæknaþing og sat í ýmsum
stjórnum.
Við minnumst Úlfars með virðingu
og þakklæti og erum hreykin af því
að hafa átt slíkan kollega. Við send-
um aðstandendum öllum innilegar
samúðarkveðjur.
Fyrir hönd Augnlæknafélags Ís-
lands,
Elínborg Guðmundsdóttir,
formaður.
Með Úlfari Þórðarsyni er fallinn í
valinn einn merkasti íþróttafrömuð-
ur síðustu aldar. Hann var allt í senn
leiðtogi, frumkvöðull og eldhugi. Og
þó fyrst og fremst mannvinur. Úlfar
klifraði ekki upp mannvirðingarstig-
ann vegna hégóma eða framgirni.
Framhleypni var ekki hans stíll.
Hann valdist til forystu vegna eigin
verka, einlægs áhuga, mannkosta og
fágætrar atorku. Eins og hann átti
kyn til. Það áttu og eiga þeir sam-
merkt, bræðurnir frá Kleppi, að
geisla af lífsorku og lífsstíl, sem smit-
aði út frá sér, gefandi, fagnandi, örv-
andi.
Úlfar stundaði íþróttir á yngri ár-
um, einkum sund og sundknattleik
og sem slíkur keppti hann fyrir hönd
Íslands á Olympíuleikunum í Berlin
árið 1936. Lengi lék hann sér í bad-
minton með jafnöldrum sínum og var
jafnan léttur á fæti og góður til
heilsu. Hans vettvangur var þó
lengst af innan Knattspyrnufélags-
ins Vals og Valsmenn voru öfunds-
verðir af þessum forystumanni sín-
um, sem gerði félagið aftur að því
geðþekka og mannbætandi athvarfi
að Hlíðarenda, sem Valsmenn geta
verið stoltir af. Úlfar og hans kynslóð
sköpuðu þetta andrúmsloft, undir
kjörorðinu: Valsmenn, Valsmenn,
léttir í lund. Sú ljúfmennska stendur
vel fyrir sínu enn þann dag í dag.
En Valsmenn áttu hann ekki alveg
einir út af fyrir sig. Úlfar var lengi
formaður Íþróttabandalags Reykja-
víkur og auðvitað var hann vinsæl-
asti augnlæknirinn og vinsælasti
borgarfulltrúinn og ráðhollur vel-
unnari allra þeirra sem nálægt
íþróttum og íþróttstarfi komu. Sjálf-
ur átti ég vinskap Úlfars og liðveislu
vísa um langan aldur og allt voru það
skemmtilegar stundir og gefandi.
Úlfar Þórðarson var þjóðsagna-
persóna og flestar voru þær sögur
sprottnar af tengslum hans við Val
og völlinn og þær bera flestar vitni
um kraftinn og glensið í persónuleika
hans og lífi. Hann var engum líkur,
hann Úlfar. Blessuð sé minning
hans.
Ellert B. Schram,
forseti ÍSÍ.
Úlfar Þórðarson var löngu orðinn
þjóðsagnapersóna er leiðir okkar
lágu saman. Kvöld eitt fyrir hartnær
tveimur áratugum hringdi Úlfar í
mig og sagði snöggur á lagið: „Það er
fundur í kvöld.“ Ég varð eitt spurn-
ingarmerki og tuggði upp eftir hon-
um: „Fundur í kvöld?“ „Já stjórnar-
fundur í kvöld,“ sagði hann. „Í hvaða
félagi?“ spurði ég alveg forviða. „Í
Alexander von Humboldt-félaginu.“
„Ég veit nú ekki til þess að ég sé þar í
stjórn.“ „Þá tilkynni ég þér það hér
með og fundurinn verður hjá þér
klukkan hálfníu.“ „Hjá mér klukkan
hálfníu?“ Jájá, sagði Úlfar, en auðvit-
að var hann að boða til fundar á sínu
heimili. Hann átti það til að vera dá-
lítið stríðinn, en alltaf var það vel
meint. Meðan Úlfar var formaður
hélt hann alla stjórnarfundi á heimili
þeirra Unnar. Þangað var gott að
koma, mikið menningarheimili. Því
er ekki að neita að ég var dálítið kvíð-
inn að fara að vinna með Úlfari,
vegna aldursmunarins, en annað
kom á daginn. Ekkert kynslóðabil,
enda var Úlfar síungur á líkama og
sál. Þarna hófst samstarf og vinátta
millum okkar sem aldrei hefur borið
skugga á.
Það var virkilega gaman að starfa
með Úlfari. Hann var svo mikill eld-
hugi, stórhuga og víðsýnn, að hann
kom hlutum til leiðar, sem hefði ekki
hvarflað að nokkrum manni að
myndu nást fram. Hann sá aldrei
ljón eða birni á veginum. Fyrir störf
sín við að efla menningar- og vísinda-
leg tengsl Íslands og Þýskalands var
Úlfar sæmdur þýskum riddarakrossi
og var vel að þeim heiðri kominn.
Úlfar lét sér afar annt um Humboldt-
félagið, ekki aðeins árin sem hann
var formaður, heldur alla tíð. Hvort
sem um var að ræða almenna fé-
lagsfundi, skógræktarferðir í Heið-
mörk eða Þýskalandsferðir félagsins
var hann með og alltaf var hann
hrókur alls fagnaðar. Óþrjótandi
sagnabrunnur, enda víðlesinn og allt-
af var stutt í húmorinn. Var þá
stundum vitnað í góða dátann Svejk.
Þegar Úlfar var gerður að heið-
ursfélaga í Humboldt-félaginu sagði
hann að gerð hefðu verið mistök. Það
hefði átt að útnefna þrjá heiðurs-
félaga. Þannig var Úlfar Þórðarson.
Mér finnst það viss forréttindi að
hafa átt þess kost að kynnast og
starfa með jafnmiklum ágætismanni
og Úlfari. Við Humboldt-félagarnir
munum sakna hans. Við Helga send-
um börnum hans, Ellen, Sveini og
Unni, og öðrum aðstandendum inni-
legar samúðarkveðjur. Blessuð sé
minning hans.
Sigfús A. Schopka.
Úlfar Þórðarson var einn þeirra,
sem ruddu brautina á sviði íslenskra
flugmála. Hans hlutverk var að
leggja grunninn að fluglækningum
hér á landi, sem er ein af forsend-
unum allrar nútíma flugstarfsemi.
En hann var ekki aðeins afburða vel
að sér um alla þætti fluglækninga
heldur hafði hann á langri ævi aflað
sér mikillar þekkingar á flestum mál-
efnum flugsins. Áhugi Úlfars á flugi
vaknaði þegar á æskuárunum, eins
og algengt var hjá ungum mönnum á
þriðja og fjórða áratug síðustu aldar,
þegar flugsamgöngur voru að hefjast
um allan heim. Rekstur Flugfélags
Íslands á árunum frá 1928–31 hefur
vafalaust átt sinn þátt í því að ýta
undir þennan áhuga. Úlfar gerði hins
vegar meira en flestir aðrir, því hann
hélt til flugnáms í Englandi árið 1932
upp á eigin spýtur. Hefur það verið
mikil bjartsýni á þeim tíma, árið sem
Flugfélag Íslands lagði upp laupana,
heimskreppa skollin á og ekki útséð
um hvert framhaldið yrði á flugi hér
á landi.
Svo fór, að Úlfar sneri sér að lækn-
isfræðinni, þótt tengsl hans við flug-
málin rofnuðu aldrei. Varð það til
mikilla heilla fyrir íslensk flugmál,
því hann átti eftir að verða trúnaðar-
læknir Flugmálastjórnar um nær
fjögurra áratuga skeið. Sá kafli í lífi
hans hófst árið 1958, þegar Agnar
Kofoed-Hansen flugmálastjóri fékk
Úlfar til að fara til sex mánaða dvalar
í Bandaríkjunum til að leggja stund á
fluglækningar. Sú þjálfun átti eftir
að reynast íslenskum flugmönnum
og þar með íslenskum flugmálum
notadrjúg, ekki aðeins við beint eft-
irlit hans með heilsufari flugmanna,
heldur einnig vegna þeirrar þekking-
ar, sem hann miðlaði til annarra
lækna, sem komu til liðs við hann á
vettvangi fluglækninga. Verða þessi
störf hans í þágu íslenskra flugmála
seint fullþökkuð.
Starfsmenn Flugmálastjórnar
eiga Úlfari einnig margt að þakka.
Hann var ætíð reiðubúinn til aðstoð-
ar ef eitthvað bjátaði á um heilsufarið
auk þess að vera skemmtilegur og
góður félagi á góðri stund. Hann
kunni ógrynni af sögum um menn og
málefni, sem var jafnan skemmtilegt
að hlusta á, enda bjó Úlfar yfir ein-
stakri kímni- og frásagnargáfu. Það
sem mönnum verður þó minnisstæð-
ast er hversu mikla umhyggju hann
bar fyrir velferð flugmanna jafnt og
starfsmanna Flugmálastjórnar. Um
langt árabil stóð hann t.d. fyrir því að
starfsmenn stofnunarinnar væru
bólusettir fyrir inflúensu og er það
hefð, sem enn er í heiðri höfð. Hann
sýndi ræktarsemi sína í verki með að
koma reglulega við á starfsstöðvum
stofnunarinnar fram á það síðasta og
fylgjast með því sem þar var að ger-
ast. Aldrei staldraði hann þó lengi við
því hann hafði ætíð mörgum hnöpp-
um að hneppa og var ekki líklegur til
að tefja menn frá störfum sínum. Því
er ljóst að Úlfars verður saknað sem
góðs vinar og minnisstæðs einstak-
lings, sem bar umhyggju fyrir sam-
ferðamönnum sínum og gaf lífinu lit.
Fyrir hönd Flugmálastjórnar og
starfsmanna hennar vil ég að leið-
arlokum þakka Úlfari fyrir framlag
hans til stofnunarinnar og íslenskra
flugmála og sendi fjölskyldu hans
samúðarkveðjur.
Þorgeir Pálsson,
flugmálastjóri.
Úlfar Þórðarson læknir og fyrr-
verandi formaður Íþróttabandalags
Reykjavíkur er látinn á nítugasta og
fyrsta aldursári. Með Úlfari er geng-
inn einstakur maður sem verður öll-
um þeim sem störfuðu með honum
og kynntust sérstaklega eftirminn-
anlegur. Fyrir nær þrjátíu árum
þegar ég tók sæti í stjórn Íþrótta-
bandalagsins kynntist ég Úlfari vel
og átti í allmörg ár eftir að eiga mikið
og gott samstarf við hann bæði að
íþróttamálum og síðar að nokkru
leyti að borgarmálum. Úlfar var for-
maður ÍBR í sautján ár, lengur en
nokkur annar, en hafði áður bæði
verið formaður Sundfélagsins Ægis
og Knattspyrnufélagsins Vals. Þá sat
hann í nokkur ár í stjórn Sundsam-
bands Íslands. Ég hygg að það hafi
liðið hálf öld frá því að hann fyrst tók
við stjórnunarstörfum hjá íþrótta-
hreyfingunni í Reykjavík þar til að
hann hætti sem formaður ÍBR 1984.
Það er því mikið og tímafrekt starf
sem Úlfar vann fyrir íþróttalífið í
borginni og fáir geta státað af jafn
miklum árangri og Úlfar í þessum
efnum enda maðurinn óvenju hug-
myndaríkur og framsýnn. Ekki verð-
ur það allt tíundað hér, en það veit ég
að bæði Valsmenn og Ægismenn
munu nú minnast forustumanns sem
með öðrum lagði grunninn að því
sem félögin eru í dag. Það sama má
segja um Íþróttabandalagið. Við sem
störfuðum með honum þar fundum
hvað þekking og reynsla skipti miklu
máli, svo ekki sé talað um það traust
sem forustumenn Reykjavíkurborg-
ar báru til hans og skipti þá ekki máli
hvort um var að ræða stjórnmála-
eða embættismenn. Það traust skipti
ÚLFAR
ÞÓRÐARSON