Morgunblaðið - 11.02.2003, Blaðsíða 12
FRÉTTIR
12 ÞRIÐJUDAGUR 11. FEBRÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ
VERULEGAR líkur eru á að stjórn
Innkaupastofnunar Reykjavíkur-
borgar hafi brotið gegn lögum um
opinber innkaup þegar hún ákvað
að taka ekki lægsta tilboði í lokuðu
útboði um ytri endurskoðun borg-
arinnar. Þetta er mat kærunefndar
útboðsmála, sem kemur fram í rök-
stuðningi nefndarinnar fyrir þeirri
ákvörðun að stöðva samningagerð
borgarinnar um að koma ytri end-
urskoðun borgarinnar í hendur
endurskoðunarfyrirtækis.
Lögfræðingur Deloitte &
Touche, Hróbjartur Jónatansson,
segir að munurinn á lægsta og
næstlægsta tilboði sé um 10 millj-
ónir króna með virðisaukaskatti á
samningstímanum. „Í ljósi niður-
skurðar borgarinnar í velferðar-
málum ætti borginni að vera fengur
í að taka lægsta tilboðinu með þeim
augljósa ávinningi sem því fylgir,“
segir Hróbjartur.
Á fundi borgarráðs 9. apríl í fyrra
var lögð fram tillaga um að ytri
endurskoðun borgarinnar yrði
komið í hendur endurskoðunarfyr-
irtækis. Deloitte & Touche hf. átti
lægsta tilboðið í verkið í lokuðu út-
boði sem fimm fyrirtækjum var
boðið að taka þátt í. Stjórn Inn-
kaupastofnunar ákvað að taka
næstlægsta tilboðinu og kærði
Deloitte & Touche þá ákvörðun til
kærunefndar útboðsmála. Nefndin
ákvað að stöðva samningagerð
borgarinnar um ytri endurskoð-
unina þar til endanlega hefði verið
skorið úr kærunni. Þar sem nefndin
hafði stuttan tíma til að taka
ákvörðun í málinu lá skriflegur rök-
stuðningur fyrir ákvörðuninni ekki
fyrir fyrr en í byrjun þessarar viku.
Í rökstuðningi nefndarinnar seg-
ir að miðað við þau gögn og skýr-
ingar sem liggi fyrir í málinu verði
ekki séð að sá hluti tilboðs Deloitte
& Touche, sem fram komi í grein-
argerð, sé í beinu ósamræmi við út-
boðsgögn eða að öðru leyti þannig
úr garði gerður að heimilt hafi verið
að hafna tilboðinu alfarið á þeim
forsendum.
Í kæru Deloitte & Touche er
vitnað í bréf umsjónarhóps með út-
boðinu sem lagt var fyrir stjórn
Innkaupastofnunar. Þar segir að
tilboð Deloitte & Touche geri ráð
fyrir því að verktaki skili verk-
kaupa að töluverðu leyti öðru verki
en útboðsgögn kveði á um.
Ekki í samræmi við gögn
Tilboðið geri ráð fyrir því að til að
verkið verði framkvæmt þurfi
Reykjavíkurborg að leggja fram á
þessu ári um 7.000 vinnustundir.
Útboðsgögnin hafi ekki gert ráð
fyrir þessum þætti. Því hafi tilboðið
ekki verið í samræmi við útboðs-
gögn og þær forsendur sem þar
voru settar fram.
Deloitte & Touche segir að tilboð
fyrirtækisins hafi verið í fullu sam-
ræmi við útboðsgögn, lög, reglur og
góðar endurskoðunarvenjur og þar
sem um lokað útboð sé að ræða sé
Innkaupastofnun skylt, samkvæmt
14. grein laga um framkvæmd út-
boða og 50. grein laga um opinber
innkaup, að taka lægsta tilboði
Deloitte & Touche.
Í kæru sinni krefst Deloitte &
Touche þess að tilboð fyrirtækisins
verði lýst gilt og Innkaupastofnun
verði gert að gera verksamning við
D&T á grundvelli tilboðsins. Til
vara er þess krafist að útboð borg-
arinnar í hina ytri endurskoðun
verði lýst ógilt í heild sinni og lagt
fyrir Innkaupastofnun að efna til
útboðs að nýju. Að auki er gerð
krafa um að kærunefnd útboðsmála
láti í ljós álit sitt um skaðabóta-
skyldu Innkaupastofnunar og að
stofnunin greiði Deloitte & Touche
kostnað vegna kærunnar.
Kærunefnd útboðsmála stöðvaði samning um ytri endurskoðun Reykjavíkurborgar
Telur líkur á að lög
hafi verið brotin
D&T krefst þess að lægsta tilboði fyrirtækisins í lokuðu
útboði í ytri endurskoðun Reykjavíkur verði tekið
UTANRÍKISRÁÐHERRA telur
eðlilegt að lækka flugvallargjald í
millilandaflugi til jafns við gjald
sem tekið er í innanlandsflugi enda
styttist í að málið verði dómtekið
hjá EFTA-dómstólnum í Brüssel.
Stjórnendur Flugstöðvar Leifs Ei-
ríkssonar hafa lengi gert athuga-
semdir við þessa skattlagningu og
bent á að hún sé mjög stór liður í
heildarskatt- og gjaldtöku á flug-
vellinum og vart þarf að efast um að
ferðaþjónusaðilar hér á landi
myndu fagna lækkun gjaldsins.
Samgönguráðherra og ráðherra
ferðamála sér hins vegar tormerki á
þessu enda yrði þá að sækja um
hálfan milljarð króna í vasa skatt-
greiðenda til þess að tryggja fjár-
mögnun framkvæmda og viðhalds
við flugvelli landsins. Hann telur
fátt benda til þess að flugvallar-
gjaldið bægi farþegum frá landinu
en hagsmunaaðilar furða sig mjögá
þeim ummælum ráðherra.
Gjaldið 660% hærra
í millilandafluginu
Heildartekjur af flugvallargjaldi,
öðru nafni flugvallarskatti, sem
Flugmálastjórn innheimtir af brott-
fararfarþegum í innanlands- og
millilandaflugi námu um 670 millj-
ónum árið 2001 en lækkuðu um
4,7% eða í 638 milljónir króna í
fyrra samkvæmt nýjum bráða-
birgðatölum Flugmálastjórnar. Af
þessum 638 milljónum voru 587
milljónir heimtar af farþegum í
millilandaflugi en 51 milljón af far-
þegum í innanlandsflugi. Gjaldið á
hvern fullorðinn einstakling í milli-
landaflugi er 1.250 krónur og 165 í
innanlandsflugi og hefur raunar
verið óbreytt í krónum talið allar
götur frá árinu 1991 en fjölgun far-
þega í millilandafluginu hefur vegið
upp á móti raunlækkun gjaldsins.
Halldór Ásgrímsson utanríkis-
ráðherra hefur lýst þeirri skoðun að
eðlilegt sé að lækka flugvallargjald í
millilandaflugi til jafns við innan-
landsflugið. Með því móti kæmust
menn hjá hjá málarekstri fyrir
EFTA-dómstólnum en Eftirlits-
stofnun EFTA hefur sem kunnugt
er stefnt íslenska ríkinu vegna mis-
munandi gjaldtöku. Sú lausn sem
utanríkisráðherra bendir á þýðir
hins vegar að miðað við fjölda far-
þega í milli- og innanlandsflugi í
fyrra hefði gjaldið aðeins skilað um
129 milljónum króna í stað 638
milljóna, m.o.ö. hefðu tekjur Flug-
málastjórnar vegna viðhalds, örygg-
isbóta, framkvæmda o.s.frv. við
flugvellina í landinu skerst um 510
milljónir í einu vetfangi. Ljóst er
ríkið þyrfti að bæta Flugmálastjórn
þann tekjumissi með einhverjum
hætti og þá að öllum líkindum með
beinum framlögum úr ríkissjóði;
þannig hefur samgönguráðherra
bent á að þennan hálfa milljarð
þurfi að sækja í vasa skattgreið-
enda. Þetta er þó ekki alls kostar
rétt. Það eru auðvitað ekki síður Ís-
lendingar en útlendingar sem
greiða flugvallargjaldið. Þannig að
ekki er rétt að tala um viðbótar-
skattheimtu upp á hálfan milljarð.
Hlutfall Íslendinga af heildarfjölda
farþega sem fer um flugvöllinn í
Keflavík hefur, eftir því sem næst
verður komist, verið á bilinu 45-50%
síðustu árin og landsmenn hafa því
staðið undir hátt í helmingi af gjald-
inu og viðbótarskattheimtan er ekki
hálfur milljarður þar sem ríkið
myndi að stórum hluta til færa
höndina úr einum vasa landsmanna
í annan.
Annar kostur væri sá að lækka
gjaldið í millilandaflugi og hækka í
innanlandsflugi þannig að gjaldið
væri hið sama og heildartekjurnar
óbreyttar. Ætla má að til þess sé þó
lítill pólitískur vilji enda hefur
rekstur í innanlandsfluginu verið
mjög erfiður, svo ekki sé meira
sagt, og slík ákvörðun er heldur
vart til vinsælda fallin rétt fyrir
kosningar. Þriðji kosturinn væri að
láta reyna á málið fyrir EFTA-dóm-
stólnum eins og samgönguráðherra
hefur bent á. Umþóttunartíma hafa
menn þó ekki langan því eftir því
sem næst verður komist eru allar
líkur á að EFTA-dómstóllinn taki
málið fyrir strax í vetur og fyrir
kosningarnar í vor.
Alþingi þyrfti að sam-
þykkja breytingar
Flugvallargjald er innheimt sam-
kvæmt lögum frá árinu 1987 en
gjaldið sjálft og ráðstöfun þess er
ákveðin í samgönguáætlun (áður
flugmálaáætlun) sem samgönguráð-
herra leggur fyrir Alþingi þannig að
breytingar á gjaldinu þurfa að
ganga í gegnum þingið. Íslensk
stjórnvöld eru vissulega í klípu
vegna stefnu eftirlitsstofnunar
EFTA og hefur verið lögð töluverð
vinna í að finna lausn enda tifar
klukkan nú hratt í þessu máli. Hafa
bæði samgöngu-, fjármála- og utan-
ríkisráðuneytið komið að þeirri
vinnu. Menn hafa m.a. horft til
landa eins og Finnlands og Svíþjóð-
ar þar sem um 50% munur er á
sköttum í innanlands- og millilanda-
flugi. Hvernig sem málin velkjast er
þó ljóst að finna þarf lausn sem Eft-
irlitsstofnun EFTA sættir sig við og
sem jafnframt tryggir að viðhald og
framkvæmdir við flugvelli innan-
lands verði áfram með eðlilegum
hætti. Bent hefur verið á að gjaldið
sem heimt er af farþegum í milli-
landaflugi í Keflavík renni að mjög
litlu leyti til framkvæmda eða við-
halds á flugvellinum þar og því séu
farþegar í millilandaflugi að greiða
niður innanlandsflugið. Þetta má
vissulega til sanns vegar færa og
þannig má til að mynda nefna að
Keflavíkurflugvöllur fékk 64 millj-
óna króna framlag í flugmálaáætlun
árið 2000 eða aðeins brot af því sem
Flugmálastjórn tók í gjöld af far-
þegum sem um flugvöllinn fóru. Á
móti hefur verið bent á það að ekki
sé óeðlilegt að hlutfallslega meira
renni til flugvallana innanlands þar
sem flugvellirnir í Reykjavík, á Ak-
ureyri og á Egilsstöðum séu vara-
flugvellir í millilandaflugi og stærð
þeirra og uppbygging endurspegli
þessa staðreynd. Rökin eru þá þau
að uppbygging á þessum stöðum
komi Keflavíkurflugvelli einnig til
góða. Ef ekki væri fyrir þessa velli
þyrftu farþegaþotur að fljúga með
mun meira eldsneyti en ella. Hvort
þessi rök nægi til þess að skýra
skiptingu framlaganna á flugmála-
áætlun milli innanlandsvallanna og
Keflavíkurflugvallar er þó önnur
saga. Margir telja að lækkun flug-
vallargjalds á farþega í millilanda-
flugi úr 1.250 krónum í 165 krónur,
eins og gildir í innanlandsflugi,
muni verða til þess að fleiri flug-
félög myndu ákveða að fljúga til Ís-
lands sem táknar um leið að skerð-
ing flugvallargjaldsins yrði hlut-
fallslega minni en sem nemur
lækkuninni. Erlendum ferðamönn-
um myndi þá fjölga og ferðaþjón-
usta eflast enn frekar, samkeppni í
flugi myndi aukast og verð til neyt-
enda hugsanlega lækka. Rökin eru
sem sagt þau að þegar á heildina er
litið myndi verða þjóðhagslegur
ávinningur af því að lækka gjöldin í
millilandafluginu.
Hafa rætt við Easy Jet,
Maersk Air og Ryan Air
Samgönguráðherra sagði aftur á
móti í Morgunblaðinu að hann telji
fátt benda til þess að kostnaður
vegna flugvallargjaldsins bægi frá
farþegum. Sé það rétt er auðvitað
ekki eftir neinu að slægjast við það
að lækka flugvallargjaldið í milli-
landaflugi. Þessa fullyrðingu sam-
gönguráðherra telja hagsmunaaðil-
ar sem Morgunblaðið hefur rætt við
vera gersamlega út í hött og þeir
undrast mjög að ráðherra ferða-
mála skuli halda slíku fram. Um það
verður ekki deilt að flugvallargjald-
ið eða farþegaskatturinn er eitt af
því sem lággjaldaflugfélögin sem
skoðað hafa möguleika á að fljúga
hingað hafa sett fyrir sig. Þetta hafa
þau sjálf sagt og eins íslenskir að-
ilar sem átt hafa í viðræðum við
þau. Þannig kom t.d. skýrt fram af
hálfu lágfargjaldaflugfélagsins Go
að hár kostnaður á Keflavíkurflug-
velli hafi verið meginástæða þess að
félagið hætti við flug hingað á liðnu
sumri og kom m.a. fram í tilkynn-
ingu félagsins að Keflavíkurflug-
völlur væri sá dýrasti sem félagið
hafði notað. Þá ræddu fulltrúar
Ryan Air við íslensk stjórnvöld fyrir
stuttu en félagið taldi gjöld og
skatta vera töluvert hærri hér en
það greiðir annars staðar í Evrópu.
Fyrir liggur að stjórnendur Flug-
stöðvar Leifs Eiríkssonar hafa rætt
við þrjú lággjaldafélög, Ryan Air,
Easy Jet og Maersk Air og þeir
staðfesta að þessi félög hafi sett
flugvallargjaldið fyrir sig. Rétt er
að taka fram að flugvallargjaldið er
tekið af hverjum farþega og að
formi til er það hann sem greiðir
skattinn. Í raun breytir sú stað-
reynd litlu þegar verið er að skoða
samkeppnisstöðuna. Þegar flugvall-
argjaldið er kannski farið að slaga
upp í eða losa meira en 10% af verði
farmiða, eins og í tilviki lágfar-
gjaldafélaganna þar sem verðsam-
keppnin er hörð, kann gjaldið að
skipta sköpum.
Flugvallargjald vegur mjög
þungt í heildarkostnaðinum
Flugvallargjaldið er þó vissulega
ekki eini kostnaðurinn sem við að
lenda á Keflavíkurflugvelli en það
er einkum heildarkostnaðurinn sem
flugfélögin líta á. Lagt er á lending-
argjald sem miðast við þyngd vélar,
sérstakt öryggis- eða vopnaleitar-
gjald, innritunargjald og afgreiðslu-
gjald til svokallaðra flugafgreiðslu-
aðila sem þjónusta vélarnar. Flug-
vallargjaldið vegur engu að síður
mjög þungt eða ríflega 40% af heild-
ar gjald- og skattökunni. Stjórnend-
ur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar
hafa haldið því fram að þeir stæðu
sérstaklega höllum fæti að því er
snertir flugvallargjaldið en segjast
á hinn bóginn standast nokkurn
veginn samkeppni í hinum gjöldun-
um og að afgreiðslugjöldin vegna
þjónustu við vélarnar hafi lækkað
mjög mikið á síðustu tveimur árum
með tilkomu samkeppni á því sviði.
Sóknarfærin séu því raunverulega
fyrir hendi með lækkun flugvallar-
skattsins.
Auðvitað binda talsmenn lækkun-
ar gjaldsins miklar vonir við að far-
þegum til og frá landinu myndi
fjölga verulega til hagsbóta fyrir að-
ila í ferðaþjónustu, verslun o.s.fr.v.
Lækkun þess myndi skapa auknar
tekjur í hagkerfinu sem kæmu rík-
issjóði einnig til góða og full ástæða
sé að skoða heildarmyndina alla.
Flugfélag á borð við Ryan Air
flýgur til að mynda með um 25 millj-
ónir farþega á ári og vissulega væri
nokkur akkur í að fá slíkt félag til að
fljúga til landsins.
Í þessu efni gildir auðvitað að nið-
urstaða tilraunar fæst ekki nema
með því að framkvæmda hana. Ut-
anríkisráðherra og fleiri aðilar virð-
ast telja það mun vænlegri kost að
láta að reyna á það frekar en dóm
EFTA-dómstólsins í Brüssel.
Flugvallar-
skattur og
ferðamenn
Sóknarfæri kunna að felast í því að færa
flugvallargjald í millilandaflugi niður til
samræmis við innanlandsflugið. Arnór Gísli
Ólafsson komst að því að þrátt fyrir hugs-
anlegan fórnarkostnað er margt sem mælir
með því að á það verði látið reyna.
Reuters
arnorg@mbl.is