Morgunblaðið - 31.05.2005, Síða 16
16 ÞRIÐJUDAGUR 31. MAÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
ERLENT
KJELL Magne Bondevik, for-
sætisráðherra Noregs, telur að
niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðsl-
unnar í Frakklandi verði til þess
að tefja fyrir því að skipuleg um-
ræða um kosti og galla Evrópu-
sambandsaðildar hefjist á ný í
Noregi. Samkvæmt skoðanakönn-
un sem birt var í Noregi í gær hef-
ur stuðningsmönnum aðildar fækk-
að.
„Lengri tími en margir hefðu
ætlað kann að líða áður en umsókn
um aðild að ESB verður lögð
fram,“ sagði Bondevik í viðtali við
norska ríkisút-
varpið í gær. Í
viðtali við NTB-
fréttastofuna
sagðist for-
sætisráðherr-
ann þeirrar
hyggju að það
færi eftir við-
brögðum ESB-
ríkjanna við
þeirri niðurstöðu sem nú lægi fyrir
hvenær umræða um aðild að ESB
hæfist að nýju í Noregi. „Það er
undir því komið hversu hratt Evr-
ópusambandinu auðnast að skýra
stöðuna og leggja fram endurskoð-
aða stjórnarskrá.“ Bondevik virtist
því telja að nauðsynlegt reyndist
ESB að gera breytingar á texta
nýju stjórnlaganna. Hann sagðist
og þeirrar skoðunar að sú ákvörð-
un Frakka að hafna stjórnar-
skránni myndi skapa mikinn vanda
innan Evrópusambandsins en benti
jafnframt á að samrunaþróunin
suður í álfu hefði iðulega lent í
mótbyr en jafnan lifað af slíka and-
stöðu.
Norðmenn hafa tvívegis hafnað
aðild að Evrópusambandinu í þjóð-
aratkvæðagreiðslu, árið 1972 og
1994. Bondevik var í hópi andstæð-
inga árið 1994 en hefur sagt að
hann íhugi nú kosti þess og galla
fyrir Norðmenn að bætast í hóp
aðildarríkjanna. Hafa ýmsir talið
að Bondevik kunni að undirbúa u-
beygju í máli þessu. Bondevik hef-
ur jafnframt sagt útilokað að geng-
ið verði til atkvæða um ESB-aðild
Norðmanna fyrr en í fyrsta lagi ár-
ið 2009. Í gær gaf hann í skyn að
sú umræða kynni nú enn að tefjast.
Andstæðingar ESB-aðildar hafa
fagnað niðurstöðunni í Frakklandi
og Jan Petersen utanríkisráðherra,
sem er í hópi stuðningsmanna,
kveðst þeirrar hyggju að hún muni
veikja málflutning þeirra sem
mæla fyrir aðild Noregs.
Samkvæmt könnun sem gerð var
fyrir norsku dagblöðin Dagen,
Klassekampen og Nationen og birt
var í gær myndu 40,8% þeirra sem
þátt tóku nú greiða atkvæði með
aðild að Evrópusambandinu.
Stuðningur hefur minnkað um tvö
prósentustig frá því í apríl og hef-
ur ekki mælst minni frá því í des-
embermánuði 2001. Alls 44,5%
kváðust andvíg, sama hlutfall og í
síðustu könnun. 14,7% þeirra sem
svöruðu sögðust óákveðin.
Bondevik
Telur umræðuna tefjast í Noregi
Helstu stjórnmálaleiðtogar Evrópu-sambandsins (ESB) lögðu í gæráherslu á að sú ákvörðun Frakka aðhafna nýrri stjórnarskrá þýddi ekki
að áform um nánari samruna aðildarríkjanna
heyrðu sögunni til. Áfram yrði unnið að stað-
festingu stjórnlaganna nýju. Leiðarahöfundar
dagblaða og fréttaskýrendur voru almennt
sammála um að niðurstaða þjóðaratkvæða-
greiðslunnar í Frakklandi á sunnudag væri
gífurlegt áfall fyrir Jacques Chirac forseta og
hina pólitísku „yfirstétt“ í Evrópu.
Leiðarahöfundar dagblaða í Frakklandi voru
flestir þeirrar hyggju að Jacques Chirac og aðr-
ir evrópskir ráðamenn hefðu orðið fyrir þungu
höggi. La Tribune sagði forsetann nú gjalda
þess að hafa ekki hlustað á almenning. Niður-
staðan væri „pólitískur landskjálfti“. Le Fig-
aro, sem er í hópi þeirra dagblaða sem áhrifa-
mest teljast, lagði áherslu á að Frakkar hefðu
enn á ný sýnt getu sína til að hafa mótandi áhrif
á samrunaferlið í Evrópu „og þar með á framtíð
450 milljóna manna“. Press de la Manche
beindi athygli lesenda sinna að þeim klofningi
sem staðfestur hefði verið „með alþýðu manna
og hinni pólitísku stétt“. Liberation sagði „póli-
tíska yfirstétt“, sem grafið hefði höfuð sitt í
sandinn, ráða landinu. Þessi hópur manna, sem
væri gjörsamlega vanhæfur, hefði á undan-
liðnum árum vanið sig á að ljúga að þjóðinni og
fara í einu og öllu að vilja Frakklandsforseta.
Frönsku dagblöðunum varð tíðrætt um mik-
ilvægi þess að þjóðin hefði sýnt fullveldi sitt í
verki en beindu jafnframt athygli að stöðu
Chiracs. Ekki bæri að skilja niðurstöðuna á
þann veg að staða Frakka innan Evrópu væri
ekki jafn sterk og áður. Sú lýsing ætti við um
Chirac.
Ótti við afleiðingar efnahags-
umskipta og hnattvæðingar
Dagblöð í Evrópu lýstu mörg hver niðurstöð-
unni í Frakklandi á þann veg að þar hefði al-
þýða manna risið upp gegn valdhöfum og hinni
pólitísku yfirstétt í álfunni. Flestir þeir frétta-
skýrendur sem tjáðu sig um málið sögðu Jacq-
ues Chirac og aðra franska valdamenn hafa
orðið fyrir niðurlægjandi ósigri. „Frakkar sópa
stjórnarskránni af borðinu,“ sagði í fyrirsögn
belgíska dagblaðsins De Tjid en Le Soir sagði
Frakka hafa skapað gríðarmikinn vanda innan
Evrópusambandsins. Blaðið lagði hins vegar
áherslu á að ekki væri við frönsku þjóðina að
sakast. „Ábyrgðin liggur hjá hinni pólitísku
yfirstétt í Frakklandi og í Evrópu,“ sagði
leiðarahöfundur blaðsins.
Þýsk dagblöð reyndust sama sinnis. Þannig
sagði Süddeutsche Zeitung Frakka hafa gert
„uppreisn“. Blaðið skýrði niðurstöðuna með til-
vísun til breytinga á hagkerfi Evrópu og aukins
ótta almennings við atvinnumissi í ljósi óheftrar
efnahagslegrar frjálshyggju og hnattvæðingar.
Þá hefði stækkun ESB til austurs orðið til þess
að skapa þá tilfinningu í álfunni vestanverðri að
verið væri að fela „nafnlausu skrímsli“, ógegn-
sæju og alltumlykjandi valdi, öll ráð alþýðu
manna. Svipuð afstaða kom fram í Berliner
Zeitung. Almenningur í Frakklandi væri
óánægður. Menn hefðu áhyggjur af afleið-
ingum þess að opna landamæri, breytingum á
hagkerfinu vegna hnattvæðingar og fækkun
starfa. Og síðast en ekki síst hefðu Frakkar lát-
ið í ljós óánægju sína með ríkisstjórn sem í
engu hefði brugðist við „hnattrænum breyt-
ingum“.
Á Bretlandi sögðu leiðarahöfundar „upp-
lausn“ og „óvissu“ ríkja innan Evrópusam-
bandsins. Þau dagblöð sem hvað harðast hafa
gengið fram í andstöðu við samruna í nafni Evr-
ópusambandsins sögðu úrslitin í Frakklandi
hafa í för með sér að Tony Blair forsætisráð-
herra hlyti nú að leggja til hliðar áform um
þjóðaratkvæði í Bretlandi. Hið vinstrisinnaða
The Guardian tók í sama streng. The Financial
Times sagði „upplausn“ nú ríkja innan ESB en
lagði áherslu á nauðsyn þess að komið yrði á
efnahagslegum umbótum innan sambandsins.
Án þeirra væri ólíklegt að ESB næði mark-
miðum sínum. The Daily Telegraph spáði því að
leiðtogar Evrópu myndu sameinast um að
halda áfram staðfestingarferlinu. „Evrópska
yfirstéttin mun vafalaust láta frá sér fara um-
mæli í þá veru að bregðast beri við áhyggjum
kjósenda. Síðan mun hún halda áfram og láta
eins og ekkert hafi gerst.“
Viðbrögð hinnar evrópsku forustusveitar
stjórnmálamanna voru nokkuð á annan veg en
birtust í gær í dagblöðum álfunnar.
Samstaða um að staðfestingar-
ferli verði haldið áfram
Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra
Lúxemborgar, sem nú er í forsæti innan ESB,
bað menn að hafa í huga að tíu af 25 þjóðum
ESB hefðu nú tekið afstöðu til stjórnlaganna
nýju. Í aðeins einu ríki, Frakklandi, hefði þeim
verið hafnað. „Nauðsynlegt er að staðfestingar-
ferlinu verði haldið áfram í hinum ESB-
ríkjunum,“ sagði Juncker og bætti við að
óhugsandi væri að hafnar yrðu nýjar samninga-
viðræður um texta stjórnlaganna. Hann kvaðst
hafa fyllst depurð er hann fékk fréttir af nið-
urstöðunni í Frakklandi þar sem 54,87% þeirra
sem þátt tóku höfnuðu stjórnarskránni. Þátt-
taka mældist um 70%. Til að stjórnarskráin öðl-
ist gildi þurfa öll 25 ríki ESB að samþykkja
hana en hún verður á hinn bóginn ekki borin
undir þjóðaratkvæði í sérhverju ríki. Í mörgum
landanna verður látið nægja að þingheimur
staðfesti hana líkt og t.a.m. gerðist í Þýskalandi
í liðinni viku. Margir telja að niðurstaðan í
Frakklandi þýði í raun að áformin um stjórn-
arskrána geti aldrei náð fram að ganga óbreytt.
Gerhard Schröder kanslari Þýskalands, sem
ákaft hafði hvatt Frakka til að samþykkja
stjórnarskrána og tók þátt í fjöldafundum
stuðningsmanna þar í landi, sagði niðurstöðuna
„vonbrigði“ en tók jafnframt fram að afstaða
frönsku þjóðarinnar þýddi ekki að þessi þáttur
samrunaferlisins myndi nú stöðvast. Jan Peter
Balkenende, forsætisráðherra Hollands, tók í
sama streng og hvatti landsmenn til að stað-
festa stjórnarskrána í þjóðaratkvæðagreiðslu
sem þar fer fram á morgun, miðvikudag. Niður-
staða hennar verður einungis ráðgefandi fyrir
stjórnvöld en greinilegt var í gær að stuðnings-
menn stjórnlaganna óttast mjög að úrslitin í
Frakklandi hafi mikil áhrif í Hollandi. Raunar
hafa skoðanakannanir þar gefið til kynna að
umtalsverður meirihluti kjósenda hyggist
hafna stjórnlögunum. Helsta von ráðamanna,
þeirra sem leggja gjörninginn fyrir þjóðina,
sýnist fólgin í því að þátttaka verði lítil.
Fleiri stjórnmálaleiðtogar í Evrópu lýstu
sömu afstöðu og þeir Schröder og Balkenende
m.a. Jose Zapatero forsætisráðherra Spánar,
Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu og Al-
exander Kwasniewski, forseti Póllands. Utan-
ríkisráðherra Austurríkis sagði hins vegar að
frönskum stjórnmálamönnum bæri að skýra
fyrir félögum sínum í Evrópusambandinu ná-
kvæmlega hvað gerst hefði á sunnudag. Ekki
væri unnt að líta framhjá því að níu Evrópuríki
hefðu nú þegar staðfest stjórnarskrána. „Við
getum ekki látið eins og ekkert hafi í skorist.“
Óvissa magnast í Svíþjóð
Talsmaður Vinstriflokksins í Svíþjóð, sem
styður stjórn jafnaðarmanna, krafðist þess í
gær að hætt yrði við staðfestingarferlið þar í
landi. Hótaði talsmaðurinn, Lars Ohly, því að
ella yrði endi bundinn á samstarf þessara
flokka sem gæti þá kallað fram stjórnarkreppu
í Svíþjóð. Gert hefur verið ráð fyrir því að
sænska þingið staðfesti stjórnlögin í desem-
bermánuði en krafa um að þjóðaratkvæði fari
fram hefur einnig hljómað.
Leiðtogar stjórnarflokka í Danmörku, Portú-
gal og Írlandi lýstu yfir því að ekki yrði horfið
frá þjóðaratkvæðagreiðslum þeim sem þegar
hafa verið ákveðnar í þessum ríkjum. Danir og
Portúgalar munu opinbera vilja sinn í þessu
máli í september og október en ekki liggur fyrir
hvenær gengið verður til kosninga á Írlandi.
Ótímabært að ræða viðbrögð í Bretlandi
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands,
sagði í gær að ekki væri tímabært að ákveða
hvort þjóðaratkvæði um stjórnarskrána færi
fram þar í landi nú þegar afstaða Frakka lægi
fyrir. Blair hét því í apríl í fyrra að almenningi í
Bretlandi myndi gefast tækifæri til að tjá hug
sinn til stjórnlaganna. Þótti sú ákvörðun lýsa
verulegri pólitískri dirfsku því fyrir liggur að
andstaðan við þau er mest þar í landi. Blair vís-
aði í gær til þjóðaratkvæðisins í Hollandi og
kvaðst ekki vilja tjá sig um framtíð stjórnar-
skrármálsins svo skömmu fyrir kosningarnar
þar. Nýta bæri þann tíma sem nú gæfist til að
íhuga þýðingu þeirrar niðurstöðu sem fengin
hefði verið fram í Frakklandi. Hafa bæri í huga
að stjórnlögin sem slík væru ágæt en í Evrópu
færi nú fram önnur og mikilvægari umræða.
Hún snerist um störf, afkomuöryggi, almanna-
þjónustu og breytingar sem tengdust hnatt-
væðingu og opnun landamæra. Umræðan um
stjórnarskrána tæki því ekki til þess sem al-
menningur í ríkjum ESB hefði mestar áhyggj-
ur af nú um stundir. Jack Straw utanríkis-
ráðherra sagði úrslitin í Frakklandi hafa
„breytt stöðu mála“ og nauðsynlegt væri að
íhuga hana. Stjórnvöld myndu tjá sig opin-
berlega um málið á þingi í vikunni.
„Uppreisn
gegn stjórn-
málastéttinni“
Dagblöð í Evrópu segja niðurstöðuna í Frakk-
landi mikið áfall fyrir Jacques Chirac forseta
og aðra ráðamenn í álfunni en leiðtogarnir
heita því að bila hvergi í staðfestingarferlinu
Reuters
Javier Solana, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, fjallar á blaðamannafundi í Brussel í
gær um úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Frakklandi. Solana sagði að niðurstaðan mætti
ekki verða til þess að „lama“ Evrópusambandið og lagði áherslu á að aðildarríki þess myndu
áfram láta til sín taka á vettvangi alþjóðamála þrátt fyrir þetta bakslag frá Frökkum.
Eftir Ásgeir Sverrisson
asv@mbl.is