Morgunblaðið - 25.08.2006, Síða 38
38 FÖSTUDAGUR 25. ÁGÚST 2006 MORGUNBLAÐIÐ
UMRÆÐAN
ÉG BJÓ 12 ár í Noregi og átti þar
íbúð sem ég seldi þegar ég kom heim
til Íslands. Þegar ég keypti mér hús
hér gat ég valið um að halda áfram
með húsnæðislánið
mitt í Noregi á 3%
vöxtum, eða að taka
8,5% lán á Íslandi. Þar
sem gengi íslensku
krónunnar er afar
óstöðugt þorði ég ekki
að halda áfram með
lánið í Noregi, og tók
íslenskt lán, þótt það
væri næstum því þre-
falt dýrara. Það var
happadrjúgt, því ann-
ars væri ég búin að
tapa u.þ.b. 8 milljónum
bara á síðastliðnum
mánuðum meðan krón-
an hefur verið að falla. Af þessu sést
að Íslendingur sem fyrir nokkrum
mánuðum hefði verið að reyna að
losna undan ofurháum vöxtum á Ís-
landi með því að taka lán erlendis,
hefði verið að borga u.þ.b. 100% vexti
á ársgrundvelli vegna gengissigs.
Þetta sýnir ótvírætt, að Íslendingar
eiga vart annarra kosta völ en að
versla við íslenska banka á meðan ís-
lenska krónan er við lýði. Vegna
gengisáhættu er engin hætta fyrir ís-
lenska banka að almenningur fari að
versla við erlenda banka þótt Land-
inn skilji ekki almennilega hvers
vegna hann þarf að borga þrefalt
hærri vexti bara af því að hann er Ís-
lendingur.
En hvaða hagur er af því að hafa
íslenska krónu? Jú, Seðlabankinn
myndi hugsanlega missa mikilvægt
stjórntæki ef við myndum taka upp,
eða fasttengjast t.d. evrunni. En
hverju skilar þetta stjórntæki?
Í fyrsta lagi er hið íslenska hag-
kerfi orðið miklu opnara, opinberar
handaflsaðgerðir hafa ekki lengur
sömu áhrifin og þær höfðu áður.
Markaðsöfl, bæði innlend og erlend,
gera það að verkum að aðgerðir
Seðlabankans (gegnum íslensku
krónuna) eru ekki lengur eins eins-
ráðandi, áhrifin verða miklu minni. Í
öðru lagi, þótt aðgerðirnar myndu
hafa áhrif, verka aðgerðir Seðla-
bankans iðulega tvímælis. Til dæmis
færi hækkun á stýrivöxtum kannski
einhvern einn þátt til betri vegar, en
á móti kemur að þessi sama aðgerð
kemur sér illa fyrir greiðendur lána.
Einnig er t.d. hærra gengi krón-
unnar ákjósanlegt fyrir
sölumenn á Íslandi, en
óheillavænlegt fyrir út-
flytjendur, o.s.frv.
Þannig hafa aðgerðir
Seðlabankans gegnum
krónuna alltaf eitthvað
gott, og eitthvað miður
gott í för með sér,
sjaldnast hreinan
ávinning fyrir lands-
menn flesta. Spurn-
ingin er, ef við gerum
ráð fyrir því að aðgerð-
ir sem grípa má til með
íslenskri krónu geti
haft áhrif, og að nettóá-
hrifin séu til góðs fyrir landsmenn,
er ávinningurinn af þessu þá meiri
heldur en ókostirnir við að hafa ís-
lenska krónu? Þetta er kjarnaspurn-
ingin. Það leiðir þá að næstu spurn-
ingu, hverjir eru ókostirnir? Svarið
er fákeppnin. Ef við höldum okkur
sem fyrr bara við ókostina varðandi
lánastofnanirnar. Meðalverð íbúða
að undanförnu hefur verið u.þ.b. 25
mill. Ef teknar eru 20 milljónir að
láni í íslenskum bönkum, og gert ráð
fyrir 4% verðbólgu, þá þarf að greiða
a.m.k. 1,74 millj. á ári í vexti. Ef Ís-
lendingur tæki þessa upphæð að láni
á evrusvæði og ekki væri hætta á
gengistapi (annaðhvort með því að
taka upp, eða fasttengja sig t.d.
evru), þá væru vextirnir ca. 600 þús.
Mismunurinn er meiri en ein milljón
króna á ári hverju. Ef meðalskuldir
fjölskyldu á Íslandi eru u.þ.b. 10
milljónir, og verðbólga 8%, þarf fjöl-
skyldan að vinna fyrir u.þ.b. einni
milljón krónum aukalega á ári til
þess að greiða íslenskt lán vegna
þess að ekki er óhætt að taka lán er-
lendis vegna sveiflna á gengi ís-
lensku krónunnar. Er ávinningurinn
af því að hafa íslenska krónu einnig
að skila heimilunum einni milljón á
ári? Með öðrum orðum, er hagstjórn-
armáttur íslensku krónunnar það
mikill að hann auki launin um þá
upphæð sem nemur mismun á vaxta-
gjöldum hérlendis vs erlendis? Sum-
ir segja að ávinningur af krónunni sé
enginn, og að þessir peningar renni
allir óskiptir í vasa eigenda og
stjórnenda bankanna. Sjaldan hefur
verið hægt að lagfæra jafnstórt
vandamál á jafneinfaldan og sárs-
aukalausan hátt og hér. Ef við mynd-
um fasttengja krónuna evrunni, líkt
og ákveðnar aðrar þjóðir hafa gert,
myndi verðtryggingin hverfa, því
hver myndi taka lán með verðtrygg-
ingum þegar hægt er að fá lán án
þeirra erlendis? Það er búið að reyna
öll form bankareksturs hér á landi,
ríkisreknir, einkareknir, sam-
vinnureknir og sparisjóðir, en ekkert
dugar. Jafnvel sparisjóðir þar sem
stendur í stofnskrá að markmiðið sé
að veita íbúum byggðarinnar lán á
bestu kjörum, missa sig yfir í að
stefna að hámarksgróða fyrir sig, á
kostnað íbúanna. Þess vegna munu
vextir ekki lækka, og verðtrygging
ekki hverfa fyrr en krónan hverfur,
þá leysist þetta hvoru tveggja, og
reyndar margt fleira um leið, sem of
langt mál er að rekja hér.
Nú sting ég upp á því að hagfræð-
ingar hjá háskóla og ríki fari að
reikna út hver hafi verið mismunur á
lánavöxtum hérlendis og erlendis
síðastliðin 10 ár, og hvað meðal ís-
lenskur almúgamaður hefur þurft að
vinna marga auka klukkustundir
vegna þessa, tíma sem hann annars
hefði getað varið með börnunum, eða
til að hjálpa öldruðum foreldrum sín-
um. Einnig þarf að fara að huga að
því að seðlabankastjórar fái þokka-
leg eftirlaun ef störf þeirra verði lögð
niður með krónunni.
Að lækka vaxtakostnað með
því að fasttengjast evrunni
Andrés Magnússon
skrifar um húsnæðislán
hérlendis og erlendis ’… þótt Landinn skiljiekki almennilega hvers
vegna hann þarf að borga
þrefalt hærri vexti bara
af því að hann er Íslend-
ingur.‘
Andrés
Magnússon
Höfundur er húsnæðislána-
greiðandi í Noregi og á Íslandi.
D
ætur mínar eru á
leikskóla, líkt og svo
fjölmargir jafn-
aldrar þeirra. Þær
mæta á hverjum
virkum degi á leikskólann Sólhlíð
við Engihlíð, fá morgunmat, leika
sér við vinina fram að hádegi, fá
hádegismat, fara út að leika, fá
síðdegishressingu og eru svo ör-
magna en hamingjusamar í lok
dagsins.
Þessi lýsing á deginum er auð-
vitað stórkostleg einföldun, því á
Sólhlíð sjá Linda, Rósa, Gunna,
Guðrún, Elsa og allir hinir starfs-
mennirnir til þess að dagurinn er
fjölbreyttur, fræðandi og
skemmtilegur. Og núna eru stelp-
urnar mínar komnar í skólahóp-
inn, sem eyðir næsta vetri í und-
irbúning grunnskólanáms. Innan
leikskólans er virðingarröðin af-
skaplega skýr, enda hafa þær
systur beðið í ofvæni eftir að
verða nógu gamlar til að fá að til-
heyra þessari akademísku elítu.
Sjálf kom ég aldrei inn á leik-
skóla þegar ég var lítil, enda voru
þeir þá fáir og ekki ætlaðir öllum.
Mamma mín var heima með okk-
ur systkinin fimm og sá um allar
okkar þarfir.
Áður en þær systur komu í
heiminn velti ég leikskólamálum
ekkert fyrir mér. En þegar fór að
líða að því að þær fengju leik-
skólapláss fór að sækja að mér ef-
inn um að það væri nú æskilegt að
„geyma“ börnin allan daginn á
einhverri „stofnun“. Æ, það er nú
óttalega vandræðalegt að þurfa
að viðurkenna þennan kjánaskap
núna, en ég er viss um að ég er
ekki ein um að hafa haft rang-
hugmyndir um leikskólann.
Núna sé ég, að leikskólinn er
bráðnauðsynlegur dætrum mín-
um. Þar á ég ekki við að flestar
konur starfa nú utan heimilis og
geta ekki sinnt börnum sínum
heima allan daginn, heldur þá
staðreynd að þjóðfélagið er miklu
flóknara og litríkara en áður og
vonlaust að ætla heimavinnandi
að kynna börn sín þeirri miklu
flóru. Ég myndi alla vega ekki
treysta mér til þess.
Á Sólhlíð er rætt fjálglega um
allt milli heima og geima. Krakk-
arnir þurfa auðvitað að ræða við
stelpurnar mínar um hvernig það
sé að eiga tvær mömmur. Hóp-
urinn veltir líka fyrir sér hvernig
heimsókn einnar stelpunnar til
lands föður hennar, Tyrklands,
hafi verið og þá er upplagt að
fræðast aðeins um það land. Sum
hafa átt heima í Danmörku, önnur
eru af frönskum ættum og svo er
það vinkona þeirra, sem fæddist í
Kína og á núna íslenska mömmu.
Sumir foreldrar hafa skilið og þá
þarf að ræða það í þaula, eða litlu
systkinin sem þau eignast. Elísa-
bet verður ástfangin af einum í
dag og öðrum á morgun, en Mar-
grét hefur verið afskaplega stað-
föst í ást sinni á einum dreng frá
fyrsta degi. Stundum koma upp
vandamál í samskiptum, einn
daginn er kvartað undan að ein-
hver hafi skilið aðra útundan og
þá þarf að taka á því. Þau vita
ósköp vel að það á ekki að skilja
einhvern útundan, velja sér vini
eftir útliti, segja eitthvað ljótt við
aðra eða hæðast að klæðaburði,
hárgreiðslu og talsmáta. Linda,
Rósa og þær hinar segja það.
Strákarnir hennar Lindu koma
stundum í heimsókn, þótt þeir séu
báðir byrjaðir í skóla, og stutt at-
hugasemd þess eldri um fína hár-
greiðslu Elísabetar vakti mikla
gleði. Og Margrét er óþreytandi
að endursegja sögurnar sem Rósa
segir af ömmudætrum sínum
tveimur.
Svo sjá þær systur fram á
margar heimsóknir á Droplaug-
arstaði í vetur, þar sem leik-
skólakrakkar og aldraðir heim-
ilismenn ætla að bralla margt
saman. Í fyrra var til dæmis tekið
slátur, nokkuð sem ég hef aðeins
gert einu sinni og hef ekki hugsað
mér að gera aftur. Gott að ein-
hver sér til þess að þær fái að
kynnast sláturgerð og rabba í
leiðinni við fólk sem man tímana
tvenna.
Og fyrst ég er farin að tala um
mat, þá verð ég að viðurkenna að
þar virðist leikskólinn skáka
heimilinu. Ég á að vísu dálítið erf-
itt með að þola athugasemdir um
að maturinn sem ég geri sé
„næstum því eins góður“ og á
leikskólanum, en það er mesta
hrós sem býðst. En ef dætur mín-
ar taka kjöt í karrí, kálböggla og
kjötbollur, soðningu og grjóna-
graut fram yfir það sem ég vil
helst elda, þá er ekkert nema gott
um það að segja. Þær braggast
afskaplega vel.
Ég er alveg þokkalega ánægð
með mig og mína konu sem for-
eldri og uppalendur. Samt efast
ég um að við næðum að veita
dætrum okkar allt það sem Sól-
hlíð veitir þeim. Þar eru þær í
litlum, afmörkuðum heimi, ein-
hvers konar mini-cosmos með öll-
um þeim fjölbreytileika sem því
fylgir. Þær eru ekki í neinni
geymslu, heldur í félagsskap ann-
arra barna frá ólíkum heimilum
sem kenna þeim ótal margt um
lífið. Og í umsjá kvenna sem ég
treysti jafn vel og mér og mömmu
þeirra til að hugsa um þær, hvort
sem þær þurfa fræðslu um lífið
fyrr og nú, tilsögn í mannasiðum
eða koss á bágtið. Þarna starfa
líka karlmenn, fáir að sönnu en
bráðnauðsynlegir litlum stelpum
sem umgangast ekki aðra karl-
menn daglega. Ég hef aldrei
nokkurn tímann haft minnstu
áhyggjur af því hvernig stelp-
unum reiðir af á leikskólanum, því
ég veit að hvergi er betra fyrir
þær að vera. Sú tilfinning er
ómetanleg.
Eins og starfið á leikskólanum
snýr við mér, og áreiðanlega flest-
um foreldrum, þá verður það ekki
metið til fjár. Það þýðir hins veg-
ar alls ekki að ekki eigi að bæta
kjör þeirra sem þar starfa. Hið
eina, sem truflar mig við leikskól-
ann, er nefnilega að starfsfólkinu
þar skuli ekki tryggð mannsæm-
andi laun fyrir að gæta framtíð-
arinnar og móta hana á jákvæðan
hátt upp á hvern einasta dag. Lé-
leg kjör starfsmanna á leikskólum
eru ljótur blettur á einu ríkasta
þjóðfélagi heims.
Heimurinn
á Sólhlíð
Eins og starfið á leikskólanum snýr við
mér, og áreiðanlega flestum foreldrum,
þá verður það ekki metið til fjár. Það
þýðir hins vegar alls ekki að ekki eigi að
bæta kjör þeirra sem þar starfa.
rsv@mbl.is
VIÐHORF
Ragnhildur Sverrisdóttir
Í VIÐTALI við Morgunblaðið
lagði Sturla Böðvarsson sam-
gönguráðherra áherslu á það að
stöðugt væri unnið að betri um-
ferðarmannvirkjum og að kann-
anir EuroRap, sem voru til um-
fjöllunar í viðtalinu, myndu hjálpa
þar til, „þó að við byggjum góða
vegi þá er það þannig að þeir eru
ekki fullkomnir“.
Veruleiki dagsins í
dag er hins vegar sá
að okkur miðar afar
hægt í því að byggja
upp vegakerfi sem
stenst eðlilegar kröf-
ur dagsins í dag. All-
ar hinar mörgu ræður
þessa ágæta ráðherra
um afrek síðustu ára í
vegagerð eru einmitt
til marks um að hann
eins og stjórnkerfið
allt hefur ekki með-
tekið og skilið þau
skilaboð sem við fáum
daglega um ófullnægjandi vega-
kerfi. Fjölda slysa og óhappa má
rekja til vondra vega og frágangs
þeirra. Sorgleg tíðindi um bana-
slys eða örkuml vegna árekstra á
mjóum vegum, óhappa á sliguðum
vegum sem þola ekki þá þunga-
flutninga sem nú tíðkast, óhöpp
sem blindhæðir og einbreiðar brýr
valda jafnvel á aðalvegum, eru
alltof algeng. Vandræði vegna tafa
á umferð vegna aurbleytu, hruns
eða flóða eru árviss í sumum
landshlutum. Fólk býr við veru-
lega skert búsetuskilyrði víða á
landsbyggðinni vegna slæmra
vega enda eru þeir ein helsta or-
sök byggðavanda. Hér er margt
ótalið en efnahagslegt tjón af
þessum sökum öllum er gríðarlega
mikið.
Sannleikurinn sem lesa má út
úr fréttunum af Euro-
Rap-skýrslunni kem-
ur auðvitað ekki á
óvart. En hann er sá
að við byggjum ekki
góða vegi nema í und-
antekningartilvikum.
Reykjanesbrautin er
dæmi um góðan veg.
En víða hafa vegir
verið byggðir upp,
jafnvel á allra síðustu
árum, sem eru engan
veginn fullnægjandi
fyrir þá umferð sem
fer um þá. Ástæðan
er sú að stjórnvöld
eru enn upptekin af fjárskorts-
sjónarmiðum og hafa ekki áttað
sig til fulls á að aukin umferð
ásamt gríðarlegri aukningu
þungaflutninga kallar á algera
stefnubreytingu. Við þurfum
breiðari vegi á allar aðalleiðir. Við
þurfum vegi sem eru sambærilegir
við Reykjanesbrautina, austur fyr-
ir Selfoss og vestur fyrir Borg-
arnes, svo dæmi séu nefnd. Og við
getum ekki beðið með það að
koma vegakerfi landsins inn í nú-
tímann. Þetta sjá allir sem um
landið aka nema þeir sem ráða
ferðinni. En þeir virðast vera upp-
teknir við að bera afrek sín í vega-
gerð saman við handmokaða
kerruslóða löngu liðinna tíma.
Því miður bendir ekkert til að
okkur muni miða nægilega hratt í
þessum málum á næstu árum.
Þvert á móti eru nýjustu ákvarð-
anir um samdrátt og niðurskurð
til vegamála sönnun um hið gagn-
stæða. Það þarf að fara fram
heildarendurmat á kröfum til vega
og gríðarlegt átak í vegagerð, sem
miðar að því að boðlegir vegir
verði um allt land. Slíkt átak má
ekki verða leiksoppur rík-
isstjórnar til inngripa í efnahags-
mál eins og tíðkast hefur á und-
anförnum árum.
Byggjum við góða vegi?
Jóhann Ársælsson skrifar um
vegabætur og samgöngur ’Það þarf að fara framheildarendurmat á kröf-
um til vega og gríðarlegt
átak í vegagerð sem mið-
ar að því að boðlegir veg-
ir verði um allt land. ‘
Jóhann
Ársælsson
Höfundur er alþingismaður Samfylk-
ingarinnar í Norðvesturkjördæmi.