Morgunblaðið - 08.10.2006, Side 42

Morgunblaðið - 08.10.2006, Side 42
við manninn mælt 42 SUNNUDAGUR 8. OKTÓBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ Síminn hringir á skrifborði blaðamanns.Og Guðmundur er á línunni, auð-þekktur á hrjúfri rödd og beittrikerskni. Það beinlínis hlakkar í hon- um, orðin falla í stuðla og höfuðstafi og hvasst skopið beinist nær undantekningalaust að Framsóknarflokknum. – Ég hef gaman að því að draga dár að þeim, segir hann glaðhlakkalegur. Þetta er ágætis fólk. Það fæddist bara hundrað árum of seint. En það eru ekki til heiðarlegri menn gegn- umsneytt í viðskiptum. Þeir eru ekki eins ban- eitraðir og fjöldinn er í dag. – Eru þeir þá tímaskekkja? – Sjáðu til, Jón Baldvinsson strandaði fyrir hálfri öld og eftir það var flakið í fjörunni; þeir skilja aldrei á hvaða tíma þeir lifa, blessaðir. Ekki það að ég sé að gera lítið úr landbúnaði. Því er alveg öfugt farið. En heilu landshlut- arnir eru komnir í eyði fyrir það að menn skilja ekki samtímann. Það lifir enginn á fjörutíu til sextíu rollum og einu beljubeini í kofa. Þó að þetta sé heiðarlegt, duglegt og gott fólk. Hann hallar sér fram og segir ábúðarfullur: – En yngri menn í sveitum eru ekki fram- sóknarmenn, – það er hending. – Hefurðu kosið Framsókn? – Nei, það hef ég aldrei gert, svarar hann og hristir höfuðið. Ég kaus Þjóðvarnarflokkinn einu sinni eða tvisvar. Ég hef alltaf haft mestu andúð á hernum og öllu umstanginu í kringum hann. Ég var ekki þeirrar skoðunar af fjand- skap við vestrænar þjóðir. Mér fannst þetta skrímsli sem passaði ekki íslenskri þjóð. Svo kaus ég Sjálfstæðisflokkinn í áratugi þangað til ég var rekinn úr honum, segir hann og þagnar íbygginn. – Nú? – Ég fékk aldrei skýringu á því. Það var bara strikað yfir nafnið. Þegar ég ætlaði að borga árgjaldið, eins og ég var vanur, var ég spurður hvort ég hefði ekki sagt mig úr flokkn- um. Það hafði orðið mikil deila innan félagsins út af einum fundi, nýliða sem ætlaði sér mikið og vildi breyta út af fundarsköpum. Eftir það kaus ég hliðarflokkinn, Frjálslynda. Ég á ágæta kunningja þar og það er klofningur út úr Sjálfstæðiflokknum. Guðmundur er með stór gleraugu, stór sjálf- ur og stóryrtur þegar hann ræðir stjórnmál. Það er allt stórt við þennan mann nema her- bergið. Lífsins hafurtask í hillusamstæðu á veggnum, skrifborði og náttborði. Allt rými notað undir ljósmyndir af fjölskyldunni. – Fjölskyldan – afkomendurnir, segir Guð- mundur með áherslu, lífstréð, það sem út af okkur er komið. Það eru mestu verðmætin. – Hversu hátt er það tré? – Eigum við ekki segja 29 fet, svarar hann og hlær. Þetta er fjölskyldan mín, bætir hann við og bendir á ljósmyndirnar. Eiginkonan [Anna Benedikta Sigurðardóttir], sem lést fyr- ir mörgum árum, börn og barnabörn. Og frændur mínir sem báðir höfnuðu í hafinu. Ég heiti eftir öðrum þeirra, Guðmundi Gunnlaugs- syni, sem drukknaði nóttina áður en hann átti að gifta sig. Innan um eru myndir af bátnum Baldri, sem Guðmundur var á í nokkur ár, mynd af Guð- mundi Halldórssyni yngri með fimm tófur sem hann skaut sömu nóttina, mynd af gæsum vappandi á túni og tvær myndir af íslenskum sauðkindum. Enda er hann úr sveit, fæddur á Hallbjarnarstöðum á Tjörnesi árið 1923, sonur Halldórs Gamalíels Sigurjónssonar og Steinþóru Guðmundsdóttur. – Faðir minn var ákaflega duglegur að sækja sjó, stór maður og þrekmikill, en móðir mín var mjög lítil kona og atorkusöm, – mikil húsmóðir. Þegar Guðmundur nálgaðist tvítugt fór hann suður í Bretavinnuna, en sneri aftur og réri í stríðinu; hafði raunar byrjað að róa tíu ára með föður sínum og bróður. – Ég hef búið alla mína ævi annað hvort á Húsavík eða úti á Nesi og það hefur farið vel um mig, segir hann. Ég hef þó verið í sigl- ingum á milli landa, var með leiguskip, flutti út hrogn í tunnum og fóðurvörur inn til landsins frá Óðinsvéum fyrir bændur, sem ég seldi þeim milliliðalaust beint frá skipshlið. Ég hætti slíkum rekstri þegar ég varð 75 ára, enda búinn að sullast í hrognum og þvíumlíku í hálfa öld, en gutlaði áfram við að fara á sjó og var lengi með byssuna, enda víðförull með hana, segir hann og hlær. Það vekur athygli blaðamanns að nánast einu bækurnar í herbergi Guðmundar eru ljóðabækur sem hann hefur sjálfur gefið út. – Ég hef aldrei verið mikill bókamaður – nema ef það er eitthvað í formi vísna; ég hef alltaf verið svolítið gefinn fyrir vísur, segir hann og kraumar í honum hláturinn. Guðmundur hefur ort svo lengi sem hann man og fékk skáldgáfuna frá ömmum sínum. – Hólmfríður Hjálmarsdóttir, móðir pabba , var gott skáld. Hún dó áður en ég fæddist og afgreiddi menn oft með vísum þegar hún skipt- ist á skoðunum við þá. Aðalbjörg Hjálm- arsdóttir, hálfsystir hennar, var móðuramma mín og bjó hún hjá foreldrum mínum til dán- ardægurs. Ég var tólf ára þegar hún dó og man vel eftir henni. Einn kaldan haustdag átti hún að gæta mín þegar foreldrar mínir brugðu sér af bæ. Hún sat á rúmi sínu, spann og sagði: „Reyndu að hnoða saman vísu strákur.“ Þá var ég innan við tíu ára og það er fyrsta vísan eftir mig sem varðveittist: Amma spinnur endalaust allan daginn langa. Nú er hríð og nepjunaust ég nenni ei út að ganga. Á meðal Þingeyinga voru margir eft- irminnilegir hagyrðingar og Guðmundur nýtur sín vel þegar hann segir sögur af þeim, bregð- ur þeim upp ljóslifandi, svo sem Baldri á Ófeigsstöðum. – Þegar ég er að fara til Reykjavíkur frá flugvellinum í Aðaldal, þá kemur bíll framan úr Kinn og þar er þá Baldur á Ófeigsstöðum að fara á Búnaðarþing. Fyrir tilviljun lendir hann við hliðina á mér út við súðina á vélinni, ég þekkti hann vel og spyr hvort nokkuð sé frétt- næmt. „Ekki get ég leynt því,“ segir hann. „Hvað er það helst,“ spyr ég. Og hann svarar: Í morgun fæddist lítið lamb ljúfar vonir rættust, við Ófeigsstaða ættardramb ellefu merkur bættust. Þá hafði dóttir hans eignast barn um morg- uninn. Þetta voru snillingar, ég þekkti þá alla vel, Karl Sigtryggsson var allra mesta skáldið, gat verið meinyrtur en orti líka gullfalleg ljóð. Einu sinni voru þeir fjórir saman að skjóta fram vísum og fyrripörtum. Þá beinir Egill Jónasson spurningu til Karls: „Hvort viltu heldur láta grafa þig eða brenna þegar þú ert dauður?“ Og Karl svaraði: Meini ríku moldar frá myndi bálið ama, en þeim sem vísan eldinn á ætti að vera sama. – Svo var Karl Kristjánsson á Húsavík. – Ja-á, segir Guðmundur og lifnar yfir hon- um. Karl var gott skáld og afskaplega fínn maður. Hann var eins og iðnaðarmaður, vann svo vel að aldrei var hrukka á neinu. Og slíkur ritsnillingur að hann var í allra fremstu röð Þingeyinga að mínu mati. – Var hann hraðkvæður? – Nei, ekki myndi ég segja það. En Egill Jónasson gat verið svo hraðkvæður að það bullaði upp úr honum. Friðrik Steingrímsson, dóttursonur hans, lét ekki mikið bera á gáfu sinni framan af. Hann þroskaði sig og var ekki að spú þessu út, en í dag er hann rennandi hag- yrðingur eins Þorfinnur á Ingveldarstöðum í Kelduhverfi. Menn vissu lítið um hagmælsku hans fyrr en hann var orðinn rígfullorðinn, en faðir hans Jón á Ingveldarstöðum var mikið skáld og þessi systkin urðu það öll meira og minna. Þetta liggur í ættum. Á skrifborðinu og sjónvarpinu eru brúður í hvítum kjólum, verndarenglar sem Guð- mundur hefur fengið í jólagjöf. Einnig fáni karlakórsins Heimis. – Mér var gefið þetta. Þeir höfðu samband við mig og Friðrik heitinn frá Halldórsstöðum og fengu okkur til að semja fyrir sig, Friðrik samdi lagið og ég textann. Það var frumflutt á tónleikum í Ýdölum í Aðaldal, Dúddi á Skörðu- gili, en Friðrik varð bráðkvaddur í millitíðinni. Ég samdi textann við um tíu lög Friðriks. Á meðal þeirra var Rósin sem er víða sungin. Áð- ur en okkar samstarf hófst orti Valdimar Hólm fyrir Friðrik, til dæmis „Við gengum tvö“, sem var frægt lag á sinni tíð. Valdimar varð berkla- sjúklingur á Kristneshæli ásamt konu Karls Ó. Runólfssonar. Þegar hún féll frá samdi Karl „Í fjarlægð“ og fékk Valdimar til að yrkja ljóðið. Hann byrjaði að kalla sig Sesar þegar hann fór að yrkja strákurinn. – Þú ert líka með þýska fánann uppi við. – Þetta er ættarfáninn, segir hann og hlær. Langamma mín hét Marie Buch, dóttir Nicolai Buch sem kom frá Noregi með fyrstu hrein- dýrin til Íslands, sem faðir hans Peter Buch gaf, en hann byggði upp Hammerfest og átti margar skútur í siglingu. Nicolai, sem kallaður var Nikulás, fór aldrei aftur til Noregs heldur giftist Karen Björnsdóttur og varð þeim margra barna auðið. Það var Buch-ættin á Ís- landi. En hún nær víðar, til dæmis er ég skyld- ur danska málaranum Sten Buch. Guðmundur gaf út æviminningar sínar árið 2003, Úr koppalogni í hvirfilbyl. – Það er toppurinn á ísjakanum, en ég læt vera að fara inn á snögga bletti á sam- ferðamönnunum. Titillinn skýrist af því að ég lenti í hvirfilbylnum Ellen þegar hann gekk yf- ir 40 mílum vestan Shetlandseyja. Það var ólýsanlegt. – En þú lýsir því samt? – Já, yfir mér hefur verið einstakt lán og hvað sem á hefur gengið hef ég sloppið lifandi. Ég lenti í kröppum dansi á stríðsárunum og þá var það sjálfstæðismönnum og kommúnistum að þakka að ég tórði. Ég vann á Reykjavík- urflugvelli 13 tíma á dag alla daga, einnig um helgar. Svo komu menn frá Sjálfstæð- isflokknum og bönnuðu okkur að vinna á sunnudegi vegna þess að við áttum að kjósa í bæjarstjórn Reykjavíkur. Við önsuðum því ekkert, því við vorum undir verkalýð settir en ekki Morgunblaðshöllina. En þegar komm- arnir komu líka var sjálfhætt. Þá vildi svo til morguninn sem kjósa átti að fullhlaðin sprengjuvél flaug á staðinn sem við unnum á og allt sprakk í loft upp. Þannig að sjálfstæð- ismenn og kommar eiga mig til helminga, segir hann og hlær. Og talið berst aftur að pólitík. Enda ræða menn álver á Húsavík þessa dagana. – Ég vona að við fáum álverksmiðjuna, segir Guðmundur án þess að hugsa sig um. Það er búið að eyðileggja útgerðir á Íslandi. Þar er upphafsmaðurinn Halldór Ásgrímsson, sem hefur verið tekinn í englatölu í Sjálfstæð- isflokknum af Kristjáni Ragnarssyni og fé- lögum. Fiskveiðistjórnunarkerfið hefur farið illa með Húsvíkinga. Heimabátar voru að landa frá níu og upp í ellefu þúsund tonnum af fiski á Húsavík og þremur til fjögur þúsund tonnum í öðrum höfnum. Nú er aflinn hverf- andi og flotinn farinn. Síðustu skipin fóru til Halldórs á Hornafirði, Björg Jónsdóttir og Bjarni Sveinsson. Enda spurði ég kunningja minn úr Framsókn hvort þeir ætluðu ekki að mæta á bryggjuna og syngja Allt eins og blómstrið eina þegar síðustu skipin færu – út- fararlag útgerðar á Húsavík. – Hvað um Hvalaskoðunina? – Það vinna örfáir menn við hana yfir sum- arið, ég geri ekki lítið úr því, og þessir strákar hafa staðið sig mjög vel. Ég vil þó ekki hætta við að veiða hvali, bara friða ákveðin svæði með ströndinni, þar sem ekki yrði leyft að skjóta hvali eða vera með skotvopn yfirleitt. Síðan ættum við að byggja hvalstöð á Vopna- firði eða Bakkafirði, sunnan við Langanes og veiða hvalinn þaðan. Á þeim slóðum eru hvalir að gera fiskveiðar alveg ófærar. Og áherslurnar eru ekki á réttum stöðum í samfélaginu heldur „kolrangar“. – Sumt sem menn kalla menningu í dag, er ómenning. Og það sem aðrir kalla ómenningu, það er menning. Fullt af mönnum krefjast þess að vera kallaðir listamenn eða skáld og standa hátt í þjóðfélaginu. Þeir geta margir hverjir átt það sameiginlegt að heita uppskafn- ingar. Svo er það keppikefli að komast á spena hjá ríkinu eða sveitarfélögum fyrir sem best kaup og gera helst aldrei neitt. En fólkið sem hjúkrar okkur gamla fólkinu er á smán- arkaupi. Það er fólkið sem á að fá kaup! Ofur- launalögin frægu eru gott dæmi um rangar áherslur. Hann tekur upp pappír og snýtir sér. – Hvað ertu gamall, spyr blaðamaður. – Ef ég tóri í vor verð ég 84 ára, annars ekki nema 83, svarar hann og kímir. Blaðamaður tekur upp lyklana að bílnum og býr sig undir að kveðja. Guðmundur segir brosandi: Við elda bjarta áður sat oft var drjúgur fengur að skjóta lykli í skráargat skeður ekki lengur. Fólkið sem á að fá laun! Morgunblaðið/ÞÖK Raunsæi „Ef ég tóri í vor verð ég 84 ára, annars aðeins 83 ára,“ segir Guðmundur. Pétur Blöndal ræðir við Guðmund G. Halldórsson pebl@mbl.is

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.