Morgunblaðið - 17.02.2007, Side 51

Morgunblaðið - 17.02.2007, Side 51
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 17. FEBRÚAR 2007 51 heima á Ljótarstöðum þá sat hann uppi af veikum mætti og hlustaði. Og mamma las upphátt úr Nið- ursetningnum eftir Jón Mýrdal. Gengum við engjagötu góðviðriskvöld á sumri. Suður og vestur um sveitir sólareldurinn brann, sagði þá glaða sögu sagnaþulurinn hinn kæri, orðbrögð og atferli manna endalaust kunni hann, léttist þá lúnum gangan ljóst var mér þá og síðan hversvegna landsins lýður leik sinn við dauðann vann. Því er mér hlýtt í þeli til þeirra sem riddarasögu kunnu í hriktandi kofa … Þó er mér hlýrra til hinna, sem heimslystavísur og rímur kváðu og dýrlega dansa með dauðann á hælum sér. Enn varpar ljósgeisla löngum langt yfir rúm og tíma orðtak sem ekki gleymdist atvik sem sagt var frá, yfir ást vora og hatur, yfir líf vort og dauða, yfir ættstofnsins sögu, örlög vor stór og smá. (G.B.) Um leið og ég samgleðst Ásgeiri að stríðinu er lokið, samhryggist ég innilega mömmu, systrum mín- um, afastelpunni og systkinum hans. Minningin lifir þó maðurinn hverfi Ásta Sverrisdóttir Elsku pabbi, það er svo margt sem kemur upp í hugann þegar lit- ið er til baka. Það sem ber þó hæst er að það var alveg sama hvað þú tókst þér fyrir hendur, alltaf vor- um við með. Við vorum ekki stórar þegar þú vaktir okkur á morgnana, beiðst á meðan við komum ofan í okkur morgunmatnum og leiddir okkur svo eða dróst okkur á snjó- þotunni í fjárhúsin uppi á túni. Við stóðum í þeirri staðföstu trú að allt væri þetta vegna þess að þig mun- aði svo mikið um að hafa okkur með þó að í seinni tíð sé okkur far- ið að gruna að kannski höfum við nú stundum tafið örlítið fyrir frek- ar en hitt. En þetta var eitthvað sem þú lagðir alltaf áherslu á, að allir tækju þátt í því sem fyrir lá og allir fengu úthlutað verkefnum eft- ir aldri og þroska. Það fór ekki fram hjá neinum þegar þú varst á ferðinni með eitthvað af stelpu- hópnum þínum. Þar var oft tekist á bæði í orðum og athöfnum og þar varst þú ekki barnanna bestur. Við munum eftir bardögum um húfuna þína, samanbundnum fötum, fljúg- andi heyböggum og kapphlaupum þar sem öllum brögðum var beitt. Þú kenndir okkur líka margar góð- ar vísur – og sumar mátti mamma ekki heyra – og sniðugar sögur af ,,gömlu mönnunum“ og mikið var gaman þegar við vorum að brjóta snjóloftin af læknum. Takk fyrir öll árin okkar saman og uppeldið í blíðu og stríðu. Við eigum eftir að vitna í tilsvörin þín og rifja upp ýmsa karaktera úr for- tíðinni á góðum stundum um ókom- in ár. Við söknum þín. Fanney og Heiða Guðný. Elsku afi, vonandi ertu búinn að finna hestinn þinn, hann Gamla Brún og ert farinn að smala. Ég man þegar þú varst að endurskíra dúkkurnar mínar, t.d. Jörp og Skjónu. Svo sendirðu mig fram að spyrja mömmu, ömmu eða Heiðu hvort nöfnin væru ekki fín. Þær sögðu alltaf nei og hlógu að öllu saman. Mér leist nú ekkert mjög vel á þessi nöfn en það var samt gaman að þú varst að leika við mig. Þú kenndir mér líka margar vísur og þulur. Ég man þær samt ekki allar en mamma hjálpar mér að rifja þær upp. Ég sakna þín. Þín afastelpa, María Ösp. Elsku Ásgeir, við vorum búin að sitja oft hérna við eldhúsborðið í Skipasundinu og ræða um alla heima og geima. Það var alltaf mjög gestkvæmt hér þegar fréttist að þú værir kominn í bæinn. Nú sit ég hér og hugsa til þín sem hefur nú kvatt þetta jarðlíf. Mikill sjónarsviptir er af manni eins og þér, alltaf hress og kátur og mjög vinamargur. Þú vildir fylgjast með öllum, hvað þeir væru að gera og hvar allir væru staddir í sinni lífsbaráttu. Margs er að minnast eftir 40 ára kynni. Þú hafðir sérlega góða nær- veru. Mér hefur alltaf fundist að það væri alveg sama hvort ungir eða gamlir yrðu á vegi þínum. Þú sýndir viðkomandi svo mikinn áhuga, að eftir stutt samtal varst þú búinn að vinna hjarta viðmæl- anda þíns. Þannig að sá hinn sami spurði við hvert tækifæri „hvað er að frétta af Ásgeiri?“ Allir sem þekktu þig vita að allt- af var líf og fjör í návist þinni. Þú hafðir mikla söngrödd og sorglegt að ekki voru aðstæður hjá þér að nýta þann hæfileika betur. Þú kunnir ógrynni af vísum, og varst oft fenginn síðustu ár til að kveða á ýmiss konar þjóðlegum skemmtun- um. Ég veit að sem betur fer hefur eitthvað af því verið tekið upp til varðveislu, því margt af þessu eru vísur sem mjög fáir kunna. Þín er sárt saknað af mörgum, ekki síst bróður þínum en þið vor- uð mjög nánir og spjölluðuð oft saman í síma. Þú varst alltaf mjög heilsuhraustur, en fyrir 2 árum tók þessi sjúkdómur sem engu eirir sér bólfestu í líkama þínum, og nú hef- ur þú lokið þessari jarðvist. Ég trúi að þú sért núna í góðum höndum, þér hefur verið tekið fagnandi í nýjum heimkynnum eins og alls staðar sem þú hefur farið um. Sendi þér þakklætiskveðju frá aldraðri móður minni sem þú sýnd- ir alla tíð mikinn hlýhug. Kallið er komið, komin er nú stundin, vinaskilnaðar viðkvæm stund. Vinirnir kveðja vininn sinn látna er sefur hér hinn síðsta blund. Nú hefur þú gengið þinn lífsveg á enda, ég vil þakka fyrir allar samverustundirnar. Fjölskyldu Ásgeirs sendi ég mín- ar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Ásgeirs Sig- urðssonar. Þín mágkona Rósa. Rósa Jónsdóttir en þeir, sem vona á Drottin, fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki. (Jesaja 40:31) Elsku góði frændi minn, nú ert þú farinn ferðina miklu, ég sam- gleðst þér en sakna þín. Sveitin verður ekki eins án þín, en breyttir tímar eru framundan og ég veit hve stoltur þú ert af Heiðu dóttur þinni að taka við búinu, og halda fjölskyldunni saman. Hún er líka án efa fallegasti bóndinn i sveit- inni. Og hefur sömu vinnueljuna og þú, sem er eins og þögul setning í gegnum lífið. Ég kem alltaf til með að vera henni sá stuðningur sem hún þarfnast, hverju sinni, þú veist það. Nú er eins og ég heyri gamla Ljótarstaða-hnussið sem mér þykir svo vænt um, þú varst ekki allra, það er ég ekki heldur, og einn fárra barst þú alltaf virðingu fyrir því, aðeins þeir sem þekkja til vita. „Stelpuskottið,“ þetta kallaðir þú mig, þú hvattir mig til dáða, og kenndir mér margt. Merkilegast við þig frændi minn kær, er hve ákveðinn þú varst þeg- ar þú vildir ráðleggja mér heilt. Án þín hefði stelpuskottið ekki ráðið við tarfinn sem slapp úr gerðinu og rauk niðrá veg og stelpuskottið með prikið var ein á ferð… Þú sagðir og gafst mér línurnar í jarð- arför sonar míns Aðalsteins Janus- ar. Þau orð voru af visku og reynslu viðvörun um sorgina, það veit enginn hvað átt hefur, fyrr en misst hefur og þú deildir ástinni með mér þann dag. Þú þekktir sorgina af eigin raun, og vissir hve harður húsbóndi hún getur verið, takk fyrir það. Svo margar minningar koma upp, og hugurinn reikar til Sverris frænda, Oddbjargar, Ástríðar ömmu, Sigurðar afa og Arndísar, mikið held ég að vel hafi verið tekið á móti þér. Mikill maður er geng- inn, og ég er svo heppin að hafa átt þig sem frænda. Gott var að verja síðustu jólunum með þér og fjöl- skyldu þinni og samræðurnar sem við áttum saman um trúna, veit ég að hafa skilað sér. Ég ber mikla virðingu fyrir þér, frændi minn. Allar stelpurnar þínar fylgja þér í dag, enda varst þú umvafinn kvenfólki og einhver sagði eitt sinn að Ljótarstaðir ættu í raun að heita Kvennabrekka. Nú bera þig í hinsta sinn, dætur, fósturdætur, og frænkur, mikinn mann. Kærar kveðjur frá Brynjari Erni Sveinjónssyni og Rakel Sif Sigurð- ardóttur koma frá Kaupmanna- höfn, elsku Helga, Heiða, Fanney, María Ösp, Ásta og Stella, við stöndum saman, ykkar frænka, Kolbrún Aðalsteinsdóttir. „Góðan daginn, er einhver í bæn- um?“ Þessi kveðja var ávísun á skemmtilegar umræður um menn og málefni líðandi stundar krydd- aðar með sögum frá liðinni tíð. Mig langar með þessum skrifum að minnast nágranna míns og frænda Ásgeirs Sigurðssonar frá Ljótar- stöðum og finnst viðeigandi að byrja á þessari kveðju. Ásgeir hafði alla tíð mjög gaman af hross- um og var tíður gestur í hesthúsinu hjá mér og fylgdist nákvæmlega með hvað væri í húsinu og frá hverjum og spunnust oft umræður um hvort ekki væri rétt að kaupa efnilega fola. „Við fáum hann fyrir lítið, þú temur hann þangað til í vor og þá fáum við fyrir hann gott verð,“ var oft viðkvæðið. Ásgeir fylgdist vel með því sem var að gerast í sveitinni og sagði manni jafnan fréttirnar á sinn einstaka hátt, kryddaðar með orðum og út- skýringum sem eru okkur sem hann þekktum ógleymanlegar og ég segi það ekki að stundum var kannski aðeins fært í stílinn. Ás- geir var góður kvæðamaður og var oft glatt á hjalla þar sem hann kvað vísur af öllum gerðum, bæði fallegar og minna fallegar ásamt heilu brögunum sem gaman væri að kunna skil á. Það er víst að með Ásgeir hverfur hafsjór af sögum og kveðskap frá fyrri tíð. Mér eru nú ofarlega í huga orð sem Ásgeir sagði eitt sinn við mig, þau voru á þá leið að maður skyldi aldrei syrgja látinn mann, heldur þakka fyrir hvern þann dag sem maður fengi að lifa. Kannski er mikið til í þessum orðum en svo mikið er víst að hér í Gröf verður hans saknað. En minningarnar eru bæði margar og góðar. Það voru forréttindi að fá að kynnast Ásgeiri á Ljótarstöðum og fyrir það ber að þakka. Ég byrj- aði á kveðju sem ég veit að allir Tungumenn þekkja og finnst jafn viðeigandi að enda á annarri sem var á þessa leið: „Ollann við segj- um ekki meira núna.“ Hafðu þökk fyrir allt og allt. Jón Geir Ólafsson, Gröf. Nú ertu farinn, elsku Ásgeir minn. Þú varst búinn að vera mikið veikur upp á síðkastið og ekki var það nú þinn stíll að liggja í bælinu, eins og þú kallaðir það, lengi í einu. Ég veit að núna ert þú aftur orðinn eins og við þekktum þig öll best. Ég kynntist þér þegar ég var smápísl eins og þú sagðir alltaf, ekki nema 7 ára og strax komin í sveit. Þetta var nú bara fyrsta sumarið mitt af mörgum. Ég man að þú varst alltaf með húfuna góðu, svona í gegnum árin var það að vísu ekki sama húfan, en alltaf var einhver húfa á hausnum á þér. Og það sem það myndaðist mikill ærslagangur og fíflaskapur í kring- um þessa einu húfu. Ef maður vildi koma að tuskast til eins og þú sagðir alltaf þá bara þurfti maður að ná af þér húfunni og þá byrjaði baráttan um að ná henni aftur af okkur stelpunum og við gáfumst ekkert svo glatt upp. Ég veit nú ekki hvað Helga var mikið ánægð með okkur þegar við rústuðum öllu inni í herbergi, en þegar hún kom svo og ætlaði aldeilis að skamma okkur endaði það nú yfirleitt með því að hún fór að hlæja að okkur þarna í einhverri hrúgu og bjó svo bara um rúmið aftur. Þegar ég var svona 8–10 ára átt- irðu til að stríða mér og segja mér að nú hefði hún mamma mín fengið sér nýjan mann og nöfnin sem þú gafst þessum tilbúnu „nýju“ mönn- um mömmu voru heldur hlægileg en ég man nú alltaf eftir honum Engilráði, hann var nú einna líf- seigastur í þessu gríni okkar. Ég sagði að þetta gæti ekki staðist, ég hefði verið að tala við hana mömmu mína í síma og hún væri enn með honum pabba, en nei, þú stóðst samt fastur á þínu. Svo þegar hann Engilráður var orðinn eitthvað þreyttur kom bara nýr maður inn í myndina en hann hét því fallega nafni Drápustúfur! Þetta þótti mér náttúrlega alveg út í hött og sagði að svona nafn væri ekki einu sinni til. En það sem þú hafðir gaman af þessari stríðni, man ennþá hvernig þú alveg kútveltist um af hlátri, fórst alveg í keng, þér fannst þetta svo fyndið. Þetta var svo oft rifjað upp svona þegar ég kom í heim- sókn og alltaf var hlegið jafn mikið. Hjá okkur voru heimalningar og man ég enn að þeim voru oft gefin ansi lífleg og skrítin nöfn og stund- um komst þú með alveg ótrúlegar hugmyndir að nöfnum og við Heiða þurftum að hugsa okkur vel um hvort þau myndu hæfa lömbunum. Eitt sinn man ég að ég var að tala við mömmu í símann og talaði mjög hratt og var svo æst yfir þeim nýju fréttum að ég hefði sko skipt á strumpi og stráhatti. Mamma kom alveg ofan af fjöllum og vissi ekk- ert og spurði hvaða stráhatt ég væri eiginlega að tala um. En þá átti ég nú við að tveir heimaln- inganna hétu Strumpur og Strá- hattur og ég átti annan þeirra og að mig minnir þú hinn og svo ákváðum við að skipta þannig að viðskiptin voru alveg rétt sögð hjá mér. Þú varst alltaf að nota þessu sögu og herma eftir mér og ég heyri þig alveg segja þetta: „Mamma, mamma ég skipti sko á Strumpi og Stráhatti.“ Svo grettir þú þig allan og sprakkst úr hlátri. Þú varst mér alltaf einstaklega góður og ég vil nú halda að við höf- um verið í uppáhaldi hvort hjá öðru eða allavega leið manni þannig með þér. Mér fannst þú alltaf æðislegur og svo skemmtilegt að koma til þín og spjalla um alla heima og geima. Það eru svo margar svona ótrúlega skemmtilegar sögur sem ég man eftir og gæti skrifað en ég læt þessar duga. Þið mamma getið nú hlegið saman að öllum þessum sög- um og rifjað upp hver var Strump- ur og hver Stráhattur og hvort hann Engilráður sé þarna með ykkur mun enginn vita. Þú veist að ég mun varðveita þessar frábæru minningar alla tíð. Elsku Helga, Fanney, Heiða, Stella, Ásta og allir hinir, við vott- um ykkur öllum okkar dýpstu sam- úð. Linda og fjölskylda. Elsku Ásgeir, nú þegar þú hefur kvatt í hinsta sinn og minningar- brotunum er velt við er stríðnin sem ávallt einkenndi þig, það fyrsta og það síðasta sem kemur í hugann. Það var bara síðast seint í haust sem þú hótaðir kossi á nýja vísu. Þessi stríðnisglampi í augun- um og lymskulegt brosið þegar eitthvað stóð til, þegar átti að fara að hrekkja mann. Þær eru margar ljúfar æsku- minningarnar frá því ég var í sveit á Ljótarstöðum og á síðustu árum áttum við nokkra góða spretti, m.a. í girðingarvinnu þar sem margt var skrafað bæði á léttum nótum og al- varlegum. Hins vegar þraut nú stundum þolinmæðin hjá þér þegar ég, borgarbarnið, hafði ekki hug- mynd um hver var munurinn á bala eða rana eða öðrum kennileitum, fyrir mér var þetta allt bara gras og hólar. Ekki var nú heldur vin- sælla þegar maður hljóp í vestur þegar maður hafði verið sendur í suðurátt. Samt var alveg ótrúlegt hvað þú nenntir að göslast og hnoðast með okkur Fanneyju litl- ar, kitla og hóta kossum á nýja vísu. Við matarborðið komst maður heldur ekki upp með neitt væl. Það þýddi ekkert að vera með eitthvert pjatt og vilja ekki feitt kjöt eða slátur. Þú hafðir lúmskt gaman af því að henda sláturbitum út í grautinn og hlusta svo á okkur krakkana kvarta sáran. Ég er líka ævinlega þakklát fyrir þá fyrir- mynd sem maður hafði í vinnu í sveitinni. Það er alveg klárt að dugnað, eljusemi og þrautseigju við vinnu var hægt að læra hjá þér. Norðurljósin loga fríð á leiðum himinsala. Fölnuð grösin blika blíð í brekkum fjalladala. . Aldan hnígur hægt við strönd, hljómar báruniður. Bæði um himin, lög og lönd er líf og gleði og friður. (Bjarni frá Vogi) Hvíldu í friði. Elsku Helga og stelpurnar, mín- ar innilegustu samúðarkveðjur. Birna. ✝ Innilegar þakkir fyrir auðsýndan hlýhug og samúð við andlát og jarðarför HAUKS INGIMUNDARSONAR klæðskerameistara. Sérstakar þakkir færum við starfsfólki líknardeildar LSH í Kópavogi. Valgerður Jóhannsdóttir, Jóhanna Hauksdóttir, Þórður Helgason, Atli Hauksson, Hafdís Ólafsdóttir og fjölskyldur. ✝ Hjartanlegt þakklæti sendum við öllum sem hafa sýnt okkur samúð við fráfall og jarðarför SIGURBJARNAR GÚSTAVSSONAR, með samúðarkortum, skeytum og gjöfum. Gústav Kristján Gústavsson, Bára Gerður Vilhjálmsdóttir, börn, tengdabörn og systrabörn.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.