Morgunblaðið - 25.11.2007, Blaðsíða 31
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25. NÓVEMBER 2007 31
berja veggi og hurð. Allt kemur
fyrir ekki. Guðni sér á úri sínu að
hann er að missa af fundinum. Þá
er glugginn eina ráðið. Það opnast
að vísu aðeins lítil rifa á honum en
þá er heldur ekkert annað að gera
en þvinga hann upp með handafl-
inu. Það hefst með heimalærðri
þrjóskunni frá Brúnastöðum. Svo
byrjar þingmaðurinn að vega sig
upp í gegnum gluggaopið. Þar
reynir heldur betur á allan skrokk-
inn. En þetta hefst – og sér lítið á
jakkafötunum.
Þvottakonur leggja á flótta
Vandinn þegar út er komið er sá
að sagan gerist um haust. Það er
ísing á þakinu. Guðni nær samt að
fikra sig að þakrennunni en finnur
að svitinn sem stafar af hræðslunni
er allur að ágerast. Þegar hann
hefur komist út á þakkantinn sér
hann sér til ánægju tvær konur í
nálægum bakgarði sem eru að taka
inn þvottinn sinn. Hann hrópar til
þeirra. Guðna sýnist þær stirðna
upp á staðnum. Svo henda þær
báðar frá sér þvottabölunum og
stökkva á harðahlaupum inn í hús.
Guðni skilur ekkert í þessu. Það er
eins og hann sé einn í heiminum –
og, það sem meira er, hafi gert eitt-
hvað af sér. Hann veit sem er að
hann er orðinn alltof seinn á fund-
inn sem hann hefur sjálfur boðað
til og afræður því að taka stökkið
niður á næstu svalir. Það er nokkuð
hátt fall og óþægilegt. Næsti áfangi
er öllu erfiðari, frá svölunum niður
á ryðgað bílskúrsþak sem allsendis
óvíst er að haldi þunga þingmanns-
ins. Þakið gefur sig þó ekki og
Guðni kemur óbrotinn niður. Þaðan
er styttra stökk niður á gangstétt.
Þetta er mikil lífsreynsla og eng-
an veginn viðunandi byrjun á mikil-
vægum átakafundi. Svo er rifist
fram á nótt og brimskaflarnir
ganga yfir Guðna sem er við það að
drukkna í skömmum.
Daginn eftir fær hann skýr-
inguna á flótta þvottakvennanna.
Síðustu vikur hefur ókunnugur
maður verið að áreita konur í bæn-
um. Enginn veit hver hann er. En
það er altalað að síðast hafi sést til
hans uppi á þaki gistiheimilis í
bænum.
Sextán systkini – vinnufúsar
hendur
Guðni Ágústsson ólst upp í sex-
tán systkina hópi á Brúnastöðum í
Flóa. Í bókinni eru dregnar upp
myndir af lífinu á bænum þar sem
oft var þröng á þingi og stórum
sem smáum haldið til vinnu. Börnin
voru mætt í fjósið á morgnana og
vinnudeginum lauk eftir mjaltir á
kvöldin. Þriggja ára að aldri fékk
Guðni sitt fyrsta embætti – að
halda í hala kúnna þegar þær voru
tutlaðar.
Það var ströng vinnuskylda á
bænum; þeir eldri fóru í erfiðið,
þeir hinir yngri sinntu því mik-
ilvæga að vera ekki fyrir. Það
þurfti að taka af borðum, vaska
upp, sópa gólfin, dusta sængur og
búa um. Einna verst var að þrífa
gluggana sem kolareykurinn virtist
ganga í efnasamband við á hverjum
degi. Það var á við refsingu.
Moldrok í augum
En auðvitað var útivinnan best.
Einkanlega á sumrin. Þá voru
stálpuðu börnin send með þeim
fullorðnu út á tún og engi. Þar gátu
litlar vinnuhendur unnið sér til
óbóta. Og þar fannst hverjum
krakka hann verða að merkilegum
manni. Þar biðu ævintýrin og
draumarnir um eigin jörð og
skepnuhald – og þangað fengu allir
besta nestið. En auðvitað var þetta
ekki alltaf dans á rósum, sum verk-
in voru blandin ótta og átökum.
Stundum þurfti að halda í óþægar
ær á vorin meðan þær voru rúnar;
þær gátu hnykkt manni óþægilega
upp að grjótveggnum í réttinni svo
marið sást allt sumarið. Og glanna-
legar voru flugbeittar fjárklipp-
urnar í höndum eldri systkinanna
sem stundum vildu strjúkast við
granna fótleggina svo blóðið rann.
Þá var grjótvinnan í flögunum á
vorin mikið púl, með moldrokið í
augun og sprungna fingur en það
þýddi ekki að biðjast vægðar; vinn-
an var skylda þótt ekki væri vöðv-
unum til að dreifa. Og svo var líka
hitt; í höfðinu glumdi herhvötin úr
kvæðunum sem pabbi hafði hamrað
í minni krakkanna og þar var Einar
karlinn Benediktsson betri en eng-
inn:
Trúðu á sjálfs þín hönd, en undur eigi.
Upp með plóginn. Hér er þúfa á vegi.
Mjaltavél óþörf
Búskaparhættir á Brúnastöðum
um miðja síðustu öld voru svipaðir
og verið höfðu í nokkra manns-
aldra. Orf og hrífur og reiðingar
voru enn í notkun. Þó fóru menn
fljótlega að hirða hey á vagni og
svo var þarna óláns snúningsvél
sem hægt var að beita hestum fyrir
en krakkarnir hræddust hana og
vildu fremur handsnúa sjálf. Þau
urðu reyndar snemma svo mörg að
Ágúst sá að miklu fljótlegra var að
senda skarann sinn í heyvinnuna
en að möndla þetta á vélinni enda
var það svo að krakkarnir höfðu
betur en snúningsvélin sem jafnan
var að festa sig í misfellum.
Krakkafjöldinn gerði það líka að
verkum að Ágúst bóndi þurfti síður
á mjaltavélum að halda en aðrir
bændur á Suðurlandi, því að auð-
vitað var það svo að engin vél og
ekki einu sinni þær allra fullkomn-
ustu afköstuðu meira eða betur en
allar þessar vinnandi hendur sem
voru í boði á Brúnastaðabúinu.
Rútan föst Guðni lýsir í bókinni kostulegum uppákomum í þingmennsku
og ráðherradómi. Hér hefur landbúnaðarnefnd Alþingis fest rútu sína í ný-
rækt formanns áfengisvarnarráðs Norður-Þingeyjarsýslu eftir nokkurn
glæfraakstur.
Bókin Guðni – Af lífi og sál kemur út
hjá bókaforlaginu Veröld og er 424
blaðsíður.