Morgunblaðið - 25.11.2007, Blaðsíða 36
lífshlaup
36 SUNNUDAGUR 25. NÓVEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ
J
ón Mikael Bjarnason frá
Skarði í Bjarnarfirði
fæddist fyrir eitt hundrað
árum, en kona hans,
Hulda Svava Elíasdóttir
frá Elliða í Staðarsveit, hefði orðið
níræð á þessu ári. Fyrstu búskap-
arár sín bjuggu þau á litlum bónda-
bæ í norðlægum dal sem var að stíga
sín fyrstu litlu skref út úr þúsund
ára svefni íslenskra sveita.
Þegar Hulda Svava fór með eig-
inmanni sínum norður í Bjarnarfjörð
á Ströndum um miðjan vetur árið
1940 var hún aðeins 22 ára. Hún
sagði þannig frá fimm daga ferð ný-
giftu hjónanna heim í kalda heið-
ardalinn:
„Það voru engar áætlunarferðir í
Strandasýslu að vetrarlagi á þessum
árum. Við héldum því frá Reykjavík
norður í land með Norðurleið sem
fór reglulega til Akureyrar. Þegar
komið var upp í Borgarfjörð var
skollin á hríð og leiðin yfir Holta-
vörðuheiði ófær. Við gistum um
nóttina í Fornahvammi. Síðdegis
daginn eftir var lagt á heiðina og
haldið áleiðis að héraðsskóla Hún-
vetninga og Strandamanna að
Reykjum í Hrútafirði. Þar fengum
við gistingu hjá skólastjórahjón-
unum. Að morgni þriðja dagsins
fluttu tvær ungar stúlkur okkur á
litlum bát yfir Hrútafjörðinn að
Kjörseyri. Þar hittum við póstinn
sem var á leið norður. Við fylgdum
honum og gistum næstu nótt í Guð-
laugsvík. Fjórði ferðadagurinn hófst
með siglingu yfir Bitrufjörðinn á
litlum seglbát. Þegar við náðum aft-
ur landi var haldið norður að Smá-
hömrum við Steingrímsfjörð og það-
an farið í þriðju bátsferðina þvert
yfir fjörðinn að Sandnesi á Selströnd
þar sem við gistum. Snjór var yfir
öllu þegar við vöknuðum næsta
morgun, 21. febrúar árið 1940, og
ekki fært yfir Bjarnarfjarðarháls
nema á skíðum. Ég hafði aldrei áður
staðið á skíðum, en mér tókst samt
að komast með Jóni yfir hálsinn að
Skarði þar sem ég átti heima næstu
tólf árin.“
Aðstæður á Skarði voru ávallt erf-
iðar til búskapar, eins og víðar í af-
skekktum íslenskum sveitum á fyrri
hluta síðustu aldar, en versnuðu til
muna nótt eina í október árið 1941
þegar kviknaði í bæjarhúsunum,
sem voru úr timbri, og allt brann
sem brunnið gat. Það vildi sofandi
fólkinu til lífs að fyrsta barn þeirra
hjóna, Bjarni Snæland, tæplega árs-
gamall, vaknaði um nóttina og grét
hástöfum. Hulda Svava fór að sinna
honum, sá mikinn reyk smjúga inn
um lokaðar dyrnar á svefnherberg-
inu og áttaði sig á því að bærinn var
að brenna. Heimilisfólkið komst við
illan leik út úr íbúðarhúsinu og
gegnum kafaldsbyl inn í nærliggj-
andi fjárhús.
Þennan vetur var heimili fjöl-
skyldunnar á Skarði fjögurra fer-
metra skemma. En snemma vors
var hafist handa við að reisa mynd-
arlegt steinhús. Sumarlangt höfðust
þau hjónin og annað heimilisfólk við
í tjöldum á túninu. Flutt var inn í
nýja húsið rétt fyrir jólin, en þá var
nýbúið að leggja í gólf og múrhúða
veggi. Steypan var enn blaut þegar
annað barn þeirra, Elías Snæland,
kom í heiminn tveimur vikum síðar,
enda íbúðarhúsið einungis hitað upp
með einni eldavél er brenndi mó sem
grafinn var upp á sumrin í mýrlendi
þar skammt frá.
Á hjara veraldar
Reisulega steinhúsið sem Jón
Mikael og Hulda Svava reistu á
Skarði var löngum hið fyrsta sem
bar fyrir augu þegar komið var ofan
af Bjarnarfjarðarhálsinum að norð-
anverðu. Bæjarstæðið er á grös-
ugum hól sem gnæfir yfir berg-
vatnsána sem rennur meðfram
túninu, niður allan dalinn og út til
hafsins í fjarska. Sögulausir menn
með mannaforráð hafa látið jafna
þetta hús við jörðu.
Bjarnarfjörðurinn, sem tekur við
af Steingrímsfirði á leiðinni norður
eftir Strandasýslu, opnast út til
norðausturs á milli fjallanna, en end-
ar inn til landsins í tveimur litlum
dölum, fyrst Sunndal og síðan Goð-
dal sem lifir enn í slysasögu Íslend-
inga fyrir hörmulegt snjóflóð sem
þar féll árið 1948 og kostaði sex
mannslíf. Þeir hræðilegu atburðir
lifa enn í barnsminni. Ég var tæp-
lega fimm ára þegar þrekaðir björg-
unarmenn komu við á Skarði á leið
sinni til Hólmavíkur með Jóhann
Kristmundsson, sem einn lifði af
snjóflóðið, og lík hinna látnu. Hulda
Svava hlúði eftir bestu getu að Jó-
hanni, sem var illa kalinn á fótum
eftir fjögurra daga innilokun í
ískaldri fönn, uns haldið var af stað á
ný með sleðana upp á Bjarnarfjarð-
arháls og niður í Steingrímsfjörð.
Framan við þessa inndali stóð
Skarðsbærinn undir bröttum hlíð-
um, en fyrir neðan Skarð tók við
hver sveitabærinn af öðrum; Svans-
hóll sem á höfundi Njálu að þakka
frægð gegnum aldirnar, Klúka þar
sem jarðhiti gerði kynslóð foreldra
minna kleift að reisa sundlaug á
þriðja áratugnum, Oddi, Bakki og
loks Kaldrananes sem gaf hreppn-
um nafn. Út með ströndinni voru
líka margir bæir þar sem fólkið lifði
jafnt af gróðri jarðar sem auði hafs-
ins. Ofan úr fjöllunum og niður eftir
öllum firðinum sveigist Bjarn-
arfjarðaráin, oftast kyrrlát og tær,
en stöku sinnum gefin fyrir ofsaköst
sem stundum hafa fært mela og móa
neðan við Skarð á bólakaf í mórauð-
an vatnsflaum sem minnti á stórfljót.
Elstu skráðu heimild um búsetu á
Skarði er að finna í manntalinu
mikla sem þeir Árni Magnússon og
Páll Vídalín létu gera árið 1703, en
telja má víst að á þessum stað hafi
sveitafólk þá þegar stritað um aldir.
Bjarni Jónsson, sem bjó á Skarði
fyrstu áratugi síðustu aldar, var
fæddur þjóðhátíðarárið 1874, sonur
Jóns Elíassonar sem kenndur var
við Straumfjarðartungu á Snæfells-
nesi og fyrri konu hans Guðrúnar
Eyjólfsdóttur frá Stað í Steingríms-
firði, Ísakssonar frá Kveingrjót í
Dölum, Foreldrar Jóns voru hjónin
Elías Sigurðsson stúdents í Geit-
areyjum og Halldóra Björnsdóttir.
Jón fór til Vesturheims, en sneri aft-
ur þremur árum síðar er hann frétti
um alvarleg veikindi konu sinnar
sem var látin er heim kom. Hann bjó
meðal annars á Klúku með síðari
konu sinni Mikkelínu Jónínu Jóns-
dóttur. Bjarni tók við Skarði í byrj-
un tuttugustu aldarinnar, árið 1906,
ásamt Valgerði konu sinni Ein-
arsdóttur frá Sandnesi, en hún var
dótturdóttir Torfa alþingismanns
Einarssonar á Kleifum. Fyrsta barni
þeirra hjóna var reyndar gefið nafn
þessa langafa síns, en frumburð-
urinn lést ungur að árum eins og
bróðir Valgerðar sem borið hafði
nafn Torfa næstur á undan í fjöl-
skyldunni. Fjögur börn þeirra
Bjarna og Valgerðar komust til full-
orðinsára; Soffía, Jón Mikael, sem
var skírður í höfuð Mikkelínu ömmu
sinnar, Ólöf og Eyjólfur, og einnig
uppeldisdóttir þeirra Þórdís Lofts-
dóttir, kennd við Odda. Valgerður
féll frá sextug að aldri árið 1932, en
Bjarni lifði sextán árum lengur;
hann andaðist á Skarði 1948.
Uppreisn gegn óréttlæti
Jón Mikael Bjarnason fæddist 28.
október árið 1907, ári eftir að Bjarni
og Valgerður fluttu frá Klúku að
Skarði, og hann tók við búforráðum
á Skarði árið 1939, fyrstu árin í sam-
býli við systur sína Soffíu Bjarna-
dóttur og eiginmann hennar, Borgar
Sveinsson.
Það var ekki létt verk að vera
bóndi í Bjarnarfirði á fyrri hluta síð-
ustu aldar. Býlin í þessari afskekktu
sveit voru lítil og samgöngur afar
erfiðar, ekki síst langan veturinn
þegar snjór var gjarnan á túnum
langt fram í júní. Búið á Skarði var
ekki stórt, frekar en á öðrum bæjum
þar um slóðir. Oftast voru þar um eitt
hundrað kindur, tvær til þrjár kýr og
nokkur hænsni. Bóndinn þurfti því
að afla sér tekna utan heimilisins.
Ungt fólk í sveitinni hafði á þess-
um tíma fyrst og fremst möguleika á
að drýgja tekjur sínar með vega-
vinnu á sumrin. Á fjórða áratugnum
var farið að leggja vegarslóða milli
Hólmavíkur og Drangsness og yfir
Bjarnarfjarðarháls. Það gekk þó ekki
alltaf átakalaust fyrir sig. Vorið 1935
reis unga fólkið upp gegn óréttlátum
launakjörum og gerði verkfall. Ríkið
gekk til samninga og féllst á þá kaup-
hækkun sem verkfallsmenn fóru
fram á. Þetta mæltist misjafnlega
fyrir í sveitinni:
Þess má geta, í sambandi við verk-
fall vegavinnumanna í Bjarnarfirði,
að sumum eldri bændum fannst
skörin vera farin að færast upp í
bekkinn þegar strákaskríll, eins og
það mun hafa verið orðað, ætlaði að
fara að skammta sér kaupið sjálfur.
Jóhannes frá Asparvík og Jón M.
Bjarnason frá Skarði, sem höfðu for-
ystu fyrir verkfallsmönnum, fengu
allharða dóma, en þegar samningar
höfðu tekist kom annað hljóð í
strokkinn, og mun þetta verkfall hafa
átt nokkurn þátt í að fólk fór að skilja
betur mátt samstöðu og samtaka.1
Jón á Skarði, eins og hann var al-
mennt kallaður fyrir norðan, tók
virkan þátt í starfsemi Verkalýðs-
félags Kaldrananeshrepps um árabil
og var meðal annars ritari félagsins.
Sjö móðurlaus systkini
Eiginkonu sína, Huldu Svövu Elí-
asdóttur, sótti Jón Mikael suður á
Snæfellsnes. Fyrrnefndur Elías Sig-
urðsson var langafi þeirra beggja og
þau því þremenningar. Þau kynntust
fyrst þegar faðir minn kom suður á
Snæfellsnes árið 1937 til að kaupa
hest af frænda sínum Elíasi Krist-
jánssyni á Lágafelli í Staðarsveit. Þá
var móðir mín um tvítugt, en hún
fæddist 12. ágúst árið 1917 á næsta
bæ, Elliða í Staðarsveit, þar sem Elí-
as hafði áður búið ásamt fyrri konu
sinni, Sigríði Guðrúnu Jóhann-
esdóttur frá Dal í Miklaholtshreppi.
Hulda Svava missti móður sína að-
eins ellefu ára gömul, árið 1928, en
þá voru sex systkini hennar á lífi, það
elsta fjórtán ára en það yngsta
tveggja. Gefur auga leið hversu erfitt
það var fyrir börnin og ekki síður
fyrir föður þeirra, sem féll frá tíu ár-
um síðar. Við andlát Elíasar Krist-
jánssonar síðla árs 1938 skrifaði
Helgi Hjörvar, einn kunnasti út-
varpsmaður síðustu aldar, minning-
argrein um hann í Morgunblaðið og
lýsti honum svo:
„Elías á Lágafelli var um-
sýslumaður og afkastamaður, vík-
ingur til verka, kappsfullur í orði og
verki, fyrirsvarsmaður meðal sveit-
unga sinna á margan hátt og gegndi
ýmsum trúnaðarstörfum. Öllum
þeim, sem kyntust honum, mun hann
þó minnisstæðastur sem hinn hugs-
andi alvörumaður; hann var trúaður
maður og ástríkur, og festi ekki huga
sinn mjög við jarðneska hluti. Hann
var gleðimaður, þegar svo bar til, og
rausnarmaður. Hann var heitur og
einlægur í vináttu sinni og mat mikils
skáldskap og fegurð og allt það, sem
lyftir huganum yfir daglegt strit.“2
Fyrir norðan eignuðust Jón Mika-
el og Hulda Svava þrjá syni og eina
dóttur; Bjarna Snæland, skipstjóra,
sem fæddist árið 1940 en lést fyrir
aldur fram árið 1999, Elías Snæland,
ritstjóra og rithöfund, 1943, Jóhann-
es Snæland, kerfisfræðing, 1945 og
Valgerði Birnu Snæland, skólastjóra,
1950.
Sjaldan úrræða vant
Sem ungur maður tók Jón á Skarði
þátt í fjölbreyttu félagslífi í heima-
byggð sinni. Hann var ávallt reiðubú-
inn að hugsa stórt og leita allra leiða
til að koma hugsjónum sínum um
samvinnu og framfarir í framkvæmd.
Heiðurshjón Hjónin á Skarði á besta aldri; Jón Mikael Bjarnason og Hulda
Svava Elíasdóttir.
„Bjarnfirðingur
á brúnum frakka“
Jón Mikael Bjarnason
frá Skarði átti litríka
ævi, stýrði búi af víð-
sýni og myndarskap,
bauð valdinu byrginn
og fékk að kenna á póli-
tísku ofstæki. Elías
Snæland Jónsson
skráði aldarminningu
Jóns frá Skarði.
Lífshlaup Jón Mikael Bjarnason og Hulda Svava Elíasdóttir árið 1967.