Náttúrufræðingurinn - 1995, Blaðsíða 17
Ræktun erlendra
NYTJAPLANTNA
Á ÍSLANDI
Landnámsmenn fluttu hingað með sér
ýmsar nytjajurtir til ræktunar, t.d. bygg
sem notað var til öl- og grautargerðar.
Talið er að innflutningur grasfrœs hafi
hafist á 17. öld og nú á síðustu áratug-
um hefur staðið yfir stöðug leit að
hentugum nytjaplöntum til notkunar í
íslenskum landbúnaði.
Tilvera íslensku þjóðarinnar allt
fram á þennan dag hefur verið
háð nýtingu þeirra landkosta
________ sem hér eru. Fyrr á tímum var
landið nytjað án þess að nokkuð væri fyrir
það gert. Einhver ræktun var þó alltaf
stunduð. Einkum var það túnrækt en
einnig akurrækt og garðrækt. Það var ekki
fyrr en fyrir um 100 árum að eiginleg
ræktun hófst og nú er landbúnaður fyrst og
fremst ræktunarbúskapur. Jónas Jónsson
(1968) hefur samið ágætt ágrip af rækt-
unarsögu landsins og má þar finna ýmsan
fróðleik. Nytjaplöntur eru fáar í íslensku
flórunni og því er óhætt að segja að ræktun
haldist nokkuð í hendur við innllutning
nytjaplantna frá útlöndum. Hefur sú orðið
raunin allt frá landnámstíð og fram á okkar
daga.
Áslaug Helgadóttir (f. 1953) lauk B.S.A.-prófi í land-
búnaðargrasafræði frá Manitóbaháskóla í Kanada
1976 og doktorsprófi í erfðavistfræði frá Reading-
háskóla í Englandi 1982. Áslaug hefur verið sérfræð-
ingur f plöntukynbótum við Rannsóknastofnun land-
búnaðarins frá 1982. Hún hefur setið í ritnefnd
Náttúrufræðingsins frá 1984 og verið formaður
hennar frá 1993.
■ RÆKTUN AÐ FORNU
Fornar frásagnir eru fáorðar um atvinnu-
hætti þjóðarinnar. Víst er þó að landnáms-
menn voru vanir kornrækt og fluttu með
sér sáðkorn. Heimildum ber saman um að
það hafi einvörðungu verið bygg (Klem-
enz Kristjánsson 1925). Sitt lítið af hverju
er lil uin byggræktina á fyrri öldum og
hefur Jónatan Hermannsson (1993) nýlega
tekið það saman. I fornum frásögnum er
hins vegar lítið sem ekkert minnst á tún og
túnrækt fyrstu aldirnar eftir að landið var
numið. Túnræktin byggðist á nýtingu
villigróðurs sem ræktaður var með búfjár-
áburði án nokkurrar jarðvinnslu. Sturla
Friðriksson (1956) hefur þó bent á að sam-
kvæmt lagaákvæðum Grágásar og Jóns-
bókar hafi fornmenn sennilega bylt landi
til túnagerðar líkt og gert var annars stað-
ar. Hafi þá verið borið moð og salli í
flögin. Ekki eru til heimildir um að land-
námsmenn hafi flutt með sér grasfræ til
sáningar í tún. En þeir tóku örugglega með
sér heyforða fyrir fénað. Þannig fluttist til
landsins erlent grasfræ sem dreifðist með
moði og salla í kringum bæina. Ekki er
ólfklegt að með sáðkorninu hafi einnig
borist grasfræ og ýmiskonar illgresi. Stein-
dór Steindórsson (1962) telur að með land-
námsmönnum hafi komið a.m.k. sjö gras-
tegundir og tvær belgjurtategundir en það
eru ilmreyr (Anthoxanthum odoratum),
knjáliðagras (Alopecurus geniculatus), há-
língresi (Agrostis capillaris), skriðlíngresi
(Agrostis stolonifera), snarrótarpuntur
(Deschampsia caespitosa), vallarsveifgras
Núttúrufræðingurinn 65 (3-4), bls. 127-136, 1996.
127