Samvinnan - 01.03.1926, Blaðsíða 47
S A M V I N N A N
41
Englendingar höfðu um langt skeið notið ýmsra
mannréttinda og persónulegs frelsis í fyllri mæli, en þá
var títt með öðrum þjóðum. Rás viðburðanna og blómg-
un atvinnuveganna hafði snemma létt margskonar ánauð
og kvöðum af bændum. Athafnafrelsi einstaklingsins
mátti sín meira en í flestum öðrum löndum. lnn á við
hafði stefna kaupauðunga ekki náð verulega föstum tök-
um. það voru engin höft á viðskiftum innanlands. Stór-
iðjan ruddi sér til rúms án íhlutunar stjómai’valdanna.
Að sama skapi hnignaði framkvæmd iðnnemalaganna og
áhrifum handiðnaðarfélaganna.
það sat þó enn við gamlar venjur og stefnur í mörg-
um málum, er gáfu forvígismönnum hinnar frjálsu sam-
kepni ærið efni til íhugunar og ádeilu. Iðnfélögin og
reglugerðir þeirra máttu sín enn mikils í mörgum iðnað-
argreinum. I utanríkisversluninni réði aldarhátturinn.
Verslun og siglingar við nýlendumar vom eingöngu í
höndum enskra einokunarfélaga. Siglingalögin gerðu öðr-
um þjóðum hér í álfu erfiðara að skifta við England.
Vemdartollastefnan sat í öndvegi, og dróg fleiri og fleiri
iðnaðargreinir undir verndarvæng sinn þegar fram í
sótti. Að- og útflutningbann voru á ýmsum hráefnum
og iðnaðarvörum. Sömuleiðis var inn- og útflutnings-
gjöldum beitt til þess að efla framleiðsluna, eftir því sem
við þótti eiga í hinum ýmsu iðnaðai greinum, svo sem
silki-, ullar- og bómullariðnaðinum. Stórbændurnir
gleymdu ekki hagsmunum sínum. Langt fram á 18. öld
voru verðlaun veitt fyrir útflutt korn.
Árið 1662 var það í lög sett (Settlement Akt) að
sveitastjórnum var heimilt að vísa mönnum í burtu inn-
an 40 daga eftir að þeir hefðu flutt inn í sveitina, ef að
þeir gátu ekki sannað að þeim væri auðið að framfæra
sig og fjölskyldu sína. Lögin voru sett til þess að geta
varist sveitaþyngslum, en í framkvæmdinni voru þau
einskonar átthagafjötur á fátækari stéttum. þau bægðu
fátækum mönnum einatt frá því að flytja þangað sem
þeim gat liðið betur, og leita sér atvinnu.