Samvinnan - 01.04.1972, Síða 47
veginum. Ef við bindum okkur við mynd-
listina, þá er staða manna á hennar vegi
afar misjöfn. Það er þess vegna sem lista-
menn eru svo oft ósammála. Og það er
þess vegna sem svo margir eru ósammála
listamönnum.
Þeir sem standa fremst á veginum sjá,
ef þeir horfa í rétta átt, fram fyrir veg-
inn; þeir sjá vonandi örlítinn hluta þess
svæðis, sem enn liggur enginn vegur um.
Þeir sem standa aftar á veginum sjá ef
til vill hvar hann endar, og þeir sjá lík-
lega til þeirra, sem á endanum standa.
Þeir munu ef til vill hrópa, að vegarendi
sé hættulegur staður. En það er önnur
saga.
Við sjáum það í hendi okkar, að tveir
menn, sem standa hvor á sínum staðn-
um, sjá ekki nákvæmlega hið sama, enda
þótt þeir horfi báðir í sömu átt. Þess
vegna eru þeir að líkindum ekki alveg
sammála.
Ég má ekki láta hjá líða að taka fram,
að þótt ég tali um að einhver standi öðr-
um framar á þessum umrædda vegi, þá
á ég ekki endilega við það að hann sé
hinum eitthvað meiri, gáfaðri eða greind-
ari í sjálfu sér. Sjónarsviðið er bara ekki
það sama; það er staðreyndin.
Svo við höldum okkur enn við veginn,
þá má í þessu sambandi t. d. minna á þá
vegagerðarmenn, sem vinna að því að
snyrta kantana á veginum. Jafna þá til
og sá í þá. Þeir eru vissulega ekki staddir
fremst á veginum, en erum við þess um-
komnir að segja þeirra starf ekki mikil-
vægt? Vegir eru bæði fallegri og ending-
arbetri, sé vel gengið frá köntunum, og
vissulega viljum við veg menningar okk-
ar sem fegurstan og svo traustan sem
orðið getur. Ekki megum við heldur
gleyma að veita því athygli, að vegar-
kantarnir eru tveir. Hvað þýðir það? Jú,
þeir sem snyrta vinstri kantinn sjá ekki
það sama og hinir, sem um hægri kant-
inn fjalla. Skýr mynd af ólíkum sjónar-
sviðum, en hvort er betra?
Jafnvel megum við hugsa okkur mann,
sem horfir beint niður á veginn — hann
hefur kannski lagzt niður og horfir í
gegnum stækkunargler á litla sprungu,
sem er að byrja að myndast á veginum.
Þá sprungu hefðu hinir aldrei séð, en
megum við ekki vera þakklát þeim, sem
fylla í sprunguna áður en hún stækkar —
áður en vegur menningar okkar springur
í sundur?
Fráleitur, afleitur, fjarstæður
Það er oftlega sagt um framúrstefnu-
menn í myndlist, að verk þeirra séu byggð
á fráleitum hugmyndum. Þeir fái fráleit-
ar hugmyndir, sem þeir síðan komi á
framfæri með ýmsu furðulegu móti. Þetta
má til sanns vegar færa. Athugum þetta
ívið nánar. Hver er merking orðsins frá-
leitur? í íslenzkri orðabók eru gefnar
þrjár merkingar: í fyrsta lagi: afleitur,
mjög slæmur, fjarstæður. í öðru lagi:
frábitinn, að vera frábitinn einhverju.
Og í þriðja lagi: sem snýr frá einhverjum.
Ég býst við að í hugum flestra hafi
orðið merkinguna, sem fyrst er talin: af-
leitur, mjög slæmur, fjarstæður. Þarna
eru hins vegar notuð þrjú (fjögur) orð til
að túlka sömu merkingu, en merking
þeirra orða innbyrðis er alls ekki sú sama.
Þegar ég segi að framúrstefnumaður
framkvæmi fráleita hugmynd, þá á ég
hreint ekki endilega við það, að hún sé
mjög slæm. Hún er fráleit vegna þess að
hún leitar frá því sem hefðbundið er. Hún
er afleit vegna þess að hún leitar af þeirri
braut, sem mörkuð hefur verið. Hún er
fjarstæða vegna þess að hún stendur
fjarri því, sem við þekkjum bezt.
Þá vegagerðarmenn, sem leita frá veg-
arendanum til að mæla fyrir áframhaldi
vegarins, getum við því kallað fráleita.
En eru þeir endilega svo mjög slæmir?
Ég hef ekki hætt mér út í þennan leik
orðaskýringar til þess að ausa hrósyrðum
alla framúrstefnumenn. Þeir eru, eins og
aðrir, misjafnir að verðleikum. En ég
bendi á, að við þurfum ekki umhugsunar-
laust að dæma hugmyndir þeirra óhæfar
eða slæmar, þótt við skiljum þær ekki í
svipinn.
Tilfinningar
Á hverju byggja framúrstefnumenn?
Listin hefur frá upphafi byggzt á tveim
meginþáttum hugarfars, rökhugsun og
tilfinningu. Ég hygg að tilfinningin hafi
oftar verið sterkari þátturinn í mótun
listaverka, en um leið sá þátturinn sem
erfiðari er í skilgreiningu. Menn hafa á-
kveðna tilfinningu fyrir ýmsu, sem þeir
skynja; það verkar einhvern veginn á þá;
en geta þeir skilgreint hvernig?
Við getum tekið dæmi.
Einhver nútímalistamaður hefur á-
kveðna tilfinningu fyrir hinum síaukna
hraða umhverfisins, þar sem allt gengur
fyrir vélarafli og allt miðast við tíma,
sem sífellt líður og bíður ekki eftir því
sem gera þarf. Honum finnst þróun
tækninnar ef til vill komin út í öfgar og
vill kannski leggja sitt af mörkum til að
minna mannkynið á, að það er maðurinn
sjálfur, sem mestu máli skiptir, en ekki
hið vélknúna umhverfi sem hann hefur
búið sér. Þetta kann að vera sú tilfinning,
sem listamaðurinn hefur gagnvart um-
hverfi sínu, og upp af þeirri tilfinningu
spretta verk hans. Hann leitar eftir ein-
hverju, sem framkallar eða vekur með
honum þessa tilfinningu; það getur verið
næstum hvað sem er, aðeins ef honum
finnst það samræmast þeim anda, er
hann hyggst búa bólstað í það og það
skiptið. Nú vitum við að tilfinningar ein-
staklingsins eru persónulegar. Það er því
engan veginn víst, að hlutur sem vekur
ákveðna tilfinningu með einum hafi sömu
áhrif á annan. Þetta veit listamaðurinn,
og kemur honum því ekki á óvart, þótt
verk hans séu ekki skynjuð á sama hátt
og þau kunna að vera meint. Hann hefur
jafnvel enga tryggingu fyrir, að nokkur
annar en hann finni gildi í verkinu, en
að gera tilraun er nokkuð, sem enginn
framfarasinni fordæmir.
Listin á ríkan þátt í að samræma til-
finningar manna. Þess vegna hefur rót-
gróið hefðbundið listform (til dæmis
náttúrueftirlíking í málverki og síðar ab-
strakt stefnur ýmsar) meiri líkur til að
vera skynjað á svipaðan hátt af mörgum
— tilfinningarnar, skynjanirnar hafa
beinlínis mótazt af nálægð og tilveru
listaverkanna. Þegar við ræðum um og
dæmum þessi verk, byggjum við mat
okkar á þeirri skynjun, sem við höfum
öðlazt. En um framúrstefnuverkin eigum
við erfiðara með að fjalla, vegna þess að
tilfinninguna fyrir þeim höfum við ef til
vill enn ekki mótað með okkur.
Hugmyndaflug
Ég minnist þess, að i hitteðfyrra ræddi
ég ásamt nokkrum skólasystkinum mín-
um úr Myndlista- og handíðaskóla ís-
lands við einn meðlim SÚM um verk hans.
Ég held ég megi fullyrða, að ekkert okkar
hafi skilið manninn. Hann talaði um að
hann legði ekkert upp úr litum og form-
um verka sinna. Þau væru aukaatriði.
Grasið, sem hann málaði grænt og gult
og hvítt, hefði alveg eins getað verið
svart og bleikt og blátt. Hann spilaði ekki
á litinn, heldur frekar á þá tilfinningu,
sem áhorfandinn hefði fyrir til dæmis
einhverri áletrun eða slagorði, sem hann
hafði málað á myndina. Þessi ummæli
hans komu okkur fyrir eyru nánast sem
bull. Ennþá skil ég þau kannski ekki til
hlítar, en er þó auðfinnanlega nær því
nú að átta mig á, við hvað er átt. Ekki
ber að skilja þetta svo, að það sé framtíð
myndlistarinnar að hætta að byggja á
litum og formum; það er nokkurt álita-
mál, hvort slík verk gætu talizt til mynd-
listar. En framúrstefnumenn hafa leyfi
til að líta svo á, að ekkert sé óhugsandi,
jafnvel ekki að myndlist hætti að vera
myndlist.
Það er algjörlega óútreiknanlegt, hverju
framúrstefnumenn kunna að finna upp á.
Landslagsmálari byggir á handlagni
sinni og hæfni til að líkja eftir fyrir-
myndinni, svo og þjálfun til að koma
auga á „eitthvað sérstakt“ í náttúrunni.
Abstraktmálari byggir á þróaðri til-
finningu fyrir litum og formum og hæfi-
leikum til að veita henni útrás í verki.
Framúrstefnumálarinn byggir á hug-
myndaflugi.
Eitt má ekki gleyma að minna á. Fram-
úrstefnumaður verður að sjá hverju hann
stefnir fram úr. Alveg eins og ökumaður,
sem tekur fram úr, verður að átta sig á
stöðu þess farartækis, sem framhjá á að
aka. Sá sem brýtur lögmál verður að
þekkja lögmálið. Annars veit hann ekki
hvað hann er að gera. Þetta segir okkur,
að enginn er fæddur framúrstefnumaður.
Nokkur þekking á því, sem á undan er
gengið, er nauðsynleg þeim sem brjóta
hefðir, ef þeir ætlast til að á eftir þeim
verði komið á þeirri braut, sem þeir
marka með sínum fráleitu hugmyndum.
Það má telja einkenni á framúrstefnu-
mönnum, að þeim liggur ákaflega mikið
á. Ökumaðurinn, sem fram úr ekur, virð-
ist vera að flýta sér meira en sá sem fyrir
honum er á veginum.
Einn af þeim ungu mönnum okkar ís-
lendinga, sem reynt hafa að marka stefnu
fram úr samtímanum, sagði eitt sinn:
„Flýtið ykkur að skoða verkin okkar í
dag, á morgun verða þau orðin úrelt“.
Við skulum taka eftir þessu heilræði,
en höfum í huga, að þótt við skoðum í
dag, munum við að líkindum ekki skilja
fyrr en daginn eftir morgundaginn. ♦
47